Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

33. fundur
Mánudaginn 25. nóvember 1991, kl. 14:46:00 (1222)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Hæstv. forseti. --- Er hæstv. fjmrh. hlaupin á dyr? Hann hefur ekki þolað stærri skammt, virðulegur forseti, eða hvað? Er okkur ætlað að ræða þetta hér án hans? ( MB: Geturðu ekki rætt við framsögumann meiri hlutans?) Það er að vísu ljóst að framsögumaður meiri hlutans gengur í ýmis verk fyrir hæstv. fjmrh., mér er það ljóst eins og fram kom áðan. Hann lætur sig hafa margt sökum fornrar vináttu ef marka mátti orð hans.
    Ég ætla það, hæstv. forseti, að fjmrh. skili sér, en ég hef eiginlega ekki síður áhuga á að fá að vita um ferðir hæstv. forsrh., hvort hann gegnir þingskyldum sínum í dag og gæti komið hér í hús. ( Forseti: Forseti sá ekki betur en hann sæti þingfund áður en honum var frestað og skal senda skilaboð til hans.) Ég er forseta þakklátur fyrir það því ég sé ástæðu til að ræða almennt við hæstv. forsrh., ekki síður en hæstv. fjmrh., vegna þeirrar skringilegu stöðu sem uppi er í þessu máli, að stjórnarliðar allir nema einn skrifa undir nál. við þetta fyrsta tekjuöflunarfrv. hæstv. ríkisstjórnar með fyrirvara. Sá eini hv. þm., varaþingmaðurinn Magnús Jónsson veðurfræðingur, er nú farinn af þingi og má þess vegna ætla að ekki sé eftir einn einasti stjórnarsinni sem styðji þetta frv. án fyrirvara ef marka má þau viðhorf sem birtast í undirskriftum nefndarmanna. Ég segi það strax, þó ég sé í sjálfu sér hlynntur þessari tekjuöflun fyrir ríkissjóð og hafi jafnan stutt hana og telji hana skárri en margt sem gert er í þeim efnum, þá hef ég ekki áhuga á að fara að hjálpa ríkisstjórninni með tekjuöflunarfrv. ef það á eftir að reynast svo í hverju málinu á fætur öðru að hún þurfi að reiða sig á stuðning stjórnarandstöðunnar í þeim efnum. Ég sé ástæðu til

að staldra við og spyrja hæstv. ríkisstjórn almennt hvernig hún hyggist standa að málum í vetur og hvernig hún ætli að koma sínum tekjuöflunarmálum fram.
    Ég hefði viljað spyrja hæstv. forsrh., sem eðlilegast væri að svaraði, hvað ríkisstjórnin eða stjórnarflokkarnir hafi rætt um þetta efni og önnur slík sem væntanleg eru á næstunni. Ég gat ekki skilið hv. 5. þm. Reykv. öðruvísi en svo að hann styddi ekki frv. í óbreyttri mynd og mundi greiða atkvæði gegn því ef sú brtt., sem hann leggur fram, nær ekki fram að ganga. Þá er a.m.k. einn af stuðningsmönnum hæstv. ríkisstjórnar sem hefur helst úr lestinni. Ég held það sé alveg óhjákvæmilegt að við stjórnarandstæðingar fáum að vita það hvort von er á fleirum slíkum og hvort það sé jafnvel þannig að hæstv. ríkisstjórn hafi ekki tryggt meiri hluta fyrir frv. í röðum sinna eigin stuðningsmanna. Við vitum jú að þingmenn Sjálfstfl. hafa á undanförnum árum flutt ástríðuþrungnar ræður gegn þessu frv. hver á fætur öðrum vaðið hér í ræðustólinn og talað hjartað á sér fram á borðið af andúð á þessari óréttlátu og vitlausu skattlagningu, eins og þeir hafa sagt, og þess vegna er fullkomin ástæða til þess að spyrja: Er búið að kanna í stjórnarliðinu hvort meiri hluti sé fyrir framgangi frv. í óbreyttri mynd, þessa stjfrv. sem allir nefndarmenn efh.- og viðskn., utan einn hv. varaþingmaður krata sem þar sat inni fyrir tilviljun, skrifa undir með fyrirvara og einn stjórnarliði, hv. 5. þm. Reykv., hefur þegar boðað andstöðu við frv. óbreytt.
    Ég fer fram á það að áður en við stjórnarandstæðingar förum að greiða þessu fyrsta tekjuöflunarfrv. ríkisstjórnarinnar atkvæði, þau okkar sem það hyggjast styðja, verði hæstv. forsrh. búinn að fullvissa okkur um að öruggur meiri hluti stjórnarþingmanna hafi verið tryggður fyrir frv.
    Ég hef m.a. fyrirvara við þetta efni og vil tengja hann almennum fyrirvara um tekjuöflunaráform hæstv. ríkisstjórnar. Ég tel að margt, sem hæstv. ríkisstjórn ætlast fyrir í þeim efnum, ef marka má fjárlagafrv. og það sem fram hefur komið um hennar áform, sé óskynsamlegt.
    Í fyrsta lagi liggur það fyrir að hæstv. ríkisstjórn hyggst þyngja verulega skattbyrðina á landsmönnum á næsta ári. Það er óumdeilanlegt, það er óhrekjanlegt, að í vændum er mikil íþynging skattbyrði á næsta ári. Það kemur í fyrsta lagi í gegnum hina beinu skattlagningu því hvað sem hæstv. fjmrh. segir þá er það svo að jafnvel þar verður raunhækkun á skattbyrði. Í öðru lagi kemur það svo auðvitað sérstaklega í gegnum ýmsa nýja skatta, námsmannaskatta, sjúklingaskatta, skatta á barnafjölskyldur og svo má lengi áfram telja. Auðvitað er það alveg augljóst mál þegar tekjuöflunaráform ríkisstjórnarinnar, þau sem liggja að baki niðurstöðutölu fjárlagafrv., eru skoðuð að í vændum er mikil skattþynging.
    Ég tel ekki vafa á því og væntanlega þarf ekki um það að deila, nema þá við einhverja einstöku ofstækismenn á frjálshyggjukantinum, að það þarf að afla ríkissjóði tekna til að standa undir útgjöldunum. En okkur er ekki sama um hvernig það er gert. Ætli hæstv. ríkisstjórn að koma málum sínum fram með stuðningi stjórnarandstöðunnar, þá er sá stuðningur ekki falur, a.m.k. ekki af minni hálfu, til að tryggja óbreytta tekjuöflunarstefnu ríkisstjórnarinnar framgang á Alþingi. Þess vegna óska ég eftir því áður en lengra verður haldið í þessum efnum og áður en þetta fyrsta frv. kemur til atkvæða, að þessi mál skýrist af hálfu hæstv. ríkisstjórnar.
    Í öðru lagi lýtur fyrirvari minn á nál. efh.- og viðskn. að því sem er á þskj. 132. Ég get vel séð fyrir mér öðruvísi innheimtu þessa skattstofns en þar er lögð til. Þá er ég fyrst og fremst með í huga að aðstaða verslunarinnar og þjónustunnar, sem nýtir þess konar húsnæði sem hér er til umfjöllunar, er auðvitað mjög mismunandi til að greiða þetta gjald. Það er auðvitað ekki sanngjarnt að leggja þennan skatt með sama þunga á strjálbýlisverslun þar sem velta er mjög hæg, þar sem nýting á húsnæði er léleg og afkoma öll

mun óhagstæðari en þar sem best gerist. Að leggja á svona flatan skatt í sömu prósentu á brúttóstærð húsnæðis, er auðvitað ekki sanngjarnt. Eitt allra mikilvægasta leiðarljósið sem ber að viðhafa í allri skattlagningu er að hún sé sangjörn.
    Ég tel að þetta sé mjög sanngjörn skattlagning á mestu gróðafyrirtækin í verslun og þjónustu t.d. á höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna mætti prósentan vera allmiklu hærri. Ég tel að atvinnugrein, sem getur leyft sér þvílíkt bruðl eins og verslunin á þessu svæði, eigi að borga háa skatta og það eigi að reyna að draga úr þeirri sóun sem á sér stað í allt of mikilli uppbyggingu húsnæðis og þjónustu hér með því að láta menn borga þó nokkra skatta þannig að ekki rísi ein eða tvær Kringlur á ári í fyrrum borg Davíðs --- afsakið, mér verður stundum á að kenna hluti við fyrrv. borgarstjóra í Reykjavík, núv. hæstv. forsrh., og veit að hann tekur það ekki illa upp. Þó fer það eftir því um hvað er rætt. T.d. er fyrrv. borgarstjóri ekki eins brosmildur þegar rætt er um ráðhúsið og Kringluna. Eru menn ekki komnir út í ógöngur og vitleysu og offjárfestingu ef litið er á Kringlurnar og það skrifstofuhúsnæði sem þotið hefur hér upp í stórum stíl á undanförnum árum og hv. 5. þm. Reykv. m.a. gerði að umtalsefni og er nú sumt hvert tómt? Eru menn ekki sýknt og heilagt að tala um að reyna að spyrna við slíku? Ég held að þessi skattur sé skynsamlegur í þeim efnum. Og því er ég nú m.a. að ræða um þetta að ég held að breytingar í átt til þess sem hv. 5. þm. Vestf. leggur til á þskj. 156 eigi að koma mjög til athugunar og skoðunar, að svipaðra tekna, jafnvel meiri tekna, sé aflað í ríkissjóð með skattlagningu af þessu tagi en innheimta hennar sé mismunandi eftir aðstæðum, eftir veltu eða stærð þeirra sveitarfélaga t.d. sem viðkomandi starfsemi fer fram í.
    Ég vil fyrir mitt leyti lýsa því yfir að ég er mjög fús til þess að skoða breytingar í þessa veru á frv. og hef reyndar áður í umræðum um þetta mál á þingi á undanförnum árum reifað svipuð viðhorf. Ég treysti því að hv. efh.- og viðskn. muni koma saman til að skoða þetta milli umræðna og ég tek þá þátt í því.
    Svo ég komi aftur að því sem ég vék að í byrjun, og fagna því að hæstv. forsrh. er til staðar í umræðunni, þá ítreka ég spurningar mínar til hæstv. forsrh. sem ég vona að hann hafi heyrt. Þær lúta að stuðningi við þetta frv. og þeim fyrirvara sem allir stjórnarliðar utan einn hafa á stuðningi sínum við það og þegar fyrirliggjandi andstöðu, a.m.k. eins þeirra. Það er eins og mig minni t.d. að hv. 4. þm. Reykv. hafi stundum ekki verið par hrifinn af þessari skattlagningu. Sá hv. þm. situr nú þögull hér aftar í þingsalnum. Þannig gæti maður velt því fyrir sér út frá því sem maður man svona í fljótheitum og ræðum á undanförnum árum hverjir væru nú líklegastir til þess að eiga a.m.k. dálítið þungt með að bera höndina fram á rafmagnshnappinn þegar að því kemur að styðja þetta frv.
    Aðrir hafa gert sér leik að því að fjalla nokkuð um sálarlíf hæstv. fjmrh. í tengslum við þetta mál og rifja upp ræður hans á undanförnum þingum sem mér skilst að fylli hálf og heil hefti í þingtíðindunum þar sem hann hamast gegn þessu frv. Ég sé ekki ástæðu til að gera þennan dag erfiðari en þegar er orðinn fyrir hæstv. fjmrh. Það er auðvitað ljóst að það er heldur snautleg uppákoma hjá hæstv. fjmrh. og 2. þm. Reykv. að þurfa að bera þetta frv. fram með þessum hætti. Ég verð þó að segja að í mínum huga er hann maður að meiri að leggja frekar til þessa skattlagningu áfram heldur en t.d. að hækka sjúklingaskatta enn eða álögur á námsmenn eða barnafjölskyldur eins og ríkisstjórnin er þegar búin að gera nóg af.
    Hæstv. forseti. Ég leyfi mér það kannski, ef vel liggur á mér, að blanda mér í umræðurnar um þetta síðar þegar hæstv. fosrh. og fjmrh. verða búnir að svara en ég ætla ekki að hafa þessa ræðu lengri til þess að gefa þeim færi að komast að og svara því sem ég hef til þeirra beint. (Gripið fram í.) Mér heyrist hv. þm. vera að gera athugasemdir við það að ég ætla að fara úr ræðustólnum en það er misskilningur.