Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

33. fundur
Mánudaginn 25. nóvember 1991, kl. 15:00:00 (1223)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
     Virðulegi forseti. Þá fáum við aftur í þingsalinn þetta mjög svo einstæða mál, sem er sérstakur skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Þar á ég mér eina biblíu sem ég hef sem minn vegvísi í þessu máli og ég held á í höndunum og kom reyndar með upp í 1. umr. Það eru ræður hæstv. núv. fjmrh. og þeirra annarra núv. ráðherra Sjálfstfl. sem mest hafa hamast á móti þessum skatti á undanförnum árum. Ég gerði þetta nokkuð að umtalsefni við 1. umr. og mun ekki endurtaka það frekar núna.
    Hitt get ég tekið undir með hv. síðasta ræðumanni, að ástæða er til að hæstv. forsrh. geri grein fyrir því í þessari umræðu hvernig stuðningi stjórnarliðsins við þetta frv. er háttað. Eins og hefur komið fram er afgreiðsla úr nefnd á þann veg að þar áskilja allir stjórnarliðarnir nema einn sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. Ég sé því á engan hátt að það sé frágengið hvernig fara eigi með þetta mál.
    Mín afstaða er hins vegar sú að þar sem hér er um að ræða skatt sem búinn er að vera lengi við lýði, hefur hvað eftir annað verið fluttur af ríkisstjórnum sem ég hef stutt, þá verður engin grundvallarbreyting á afstöðu minni að þessu sinni, þó svo að ég mundi gjarnan skoða brtt. sem til bóta horfa.
    Það væri líka ástæða til að við þessa umræðu mundi hæstv. fjmrh. gera grein fyrir hugmyndum sínum gagnvart því hvað eigi að koma í staðinn fyrir þennan skatt því þrátt fyrir öll stóru orðin um niðurskurð ríkisfjármála, þegar núv. hæstv. ríkisstjórn tók við, var talað þar um, ef ég man rétt, allt upp í 20 milljarða. Ég hef reyndar trú á að þar hafi verið rætt um óskalista allra ráðuneytanna á þeim tíma. En hvað um það, hæstv. ríkisstjórn skapaði miklar væntingar og kom af stað mikilli umræðu um stór áform um niðurskurð ríkisútgjalda og að það yrði að ná fjárlagahallanum niður sem allra fyrst. Nú heyrir maður hins vegar tölur um að áætlaður halli samkvæmt núgildandi fjárlagafrv., sem átti að vera ef ég man rétt um 4 milljarðar, verði allt að 10 milljarðar. ( Gripið fram í: Tíu og hálfur.) Nei, á næsta ári. Við hljótum þess vegna að gera þær kröfur að samfara fyrirheitum um að skattar verði lagðir niður verði einhver grein fyrir því gerð hvaða tekjuöflun ríkisstjórnin hefur áform um í staðinn. Samkvæmt fjárlagafrv. og þeim horfum sem eru fram undan þá sjáum við ekki að því verði náð með sparnaði.
    Ég ætla síðan að fara örfáum orðum um þær brtt. sem hér liggja fyrir. Annars vegar er brtt. frá hv. 5. þm. Reykv. um að skatturinn verði lækkaður niður í 0,5%, að öðrum kosti geti hann ekki stutt frumvarpið. Það vill nú svo skemmtilega til, hæstv. forseti, að þessi tillaga er nánast samhljóða tillögu sem hæstv. núv. fjmrh. flutti við afgreiðslu málsins fyrir tveim árum síðan. Þá var hann þeirrar skoðunar að væri þessi skattur hærri en 0,5% gæti hann ekki stutt málið. Ég hlýt því að spyrja: Hvaða sinnaskipti hafa orðið í huga ráðherrans? Á þeim tíma var ekki talað um neina aðra fjáröflun í staðinn. Þá var í lagi að lækka skattinn um 1% án þess að nokkuð kæmi í staðinn. Þetta er nú því miður nokkuð í stíl við fjármálastjórn Sjálfstfl. þegar hann fer með ríkisfjármálin. Þar hafa verið hafðir uppi tilburðir til að lækka skattana en útgjöldin hafa frekar aukist ef eitthvað er. Vilji menn rekja sig aftur á bak og finna þann tímapunkt hvenær snaraðist virkilega um með ríkisfjármálin, hvenær hallaði þannig á að fjárlagahallinn fór að verða verulega íþyngjandi þá hygg ég að menn muni komast að því að það hafi verið í tíð ríkisstjórnar þar sem Sjálfstfl. fór með fjmrn.
    Ég ætla ekki að hafa mörg fleiri orð um brtt. hv. 5. þm. Reykv. um þetta frv. Ég dreg ekki í efa að þarna fylgi hann sinni skoðun eins og hann hefur gert undanfarið. Ég ætla ekki heldur að gera því skóna að hv. þm. sé að notfæra sér aðstæður til sýndarmennsku. Ég hef ekki trú á að hann stundi slíkt. En ég ætla að gera að umtalsefni brtt. á þskj. 156, frá hv. 5. þm. Vestf. Ég sé ástæðu til að vanda mig sérstaklega þegar ég ávarpa þennan þingmann --- mörgum hefur orðið hált á því. Hann talar um að fyrri málsliður fyrri mgr. 6 gr. orðist þannig: ,,Sérstakur eignarskattur skal nema 2,25% af skattstofni samkvæmt 3. gr. í sveitarfélögum með 10.000 íbúa og fleiri en 0,75% annars staðar.`` Ég þykist skilja þetta á þann veg að hv. þm. vilji að þessi skattur leggist misjafnt á þannig að hann komi þyngst niður hér á höfuðborgarsvæðinu, þar sem veltan í versluninni er mest. Menn geta því áætlað að þar sé greiðslugetan meiri. Þetta má sjálfsagt skoða. En það er annað sem ég rak strax augun í. Einhverra hluta vegna sér hv. þm. ástæðu til að undanskilja einn þéttbýlisstað í dreifbýlinu frá þessum afslætti á skattinum, þ.e. Akureyri. Það væri gaman að vita hvað sessunautur hans í þingsölum, sem hefur um langt árabil rekið verslun á Akureyri af miklum myndarskap, hefur um þessa tillögu að segja. Ég held að hv. þm. verði að endurskoða þessa tillögu eilítið ætli hann sér að vinna henni framgang því að þarna er um þann stað að ræða á landsbyggðinni sem hefur getað veitt höfuðborgarversluninni einhverja samkeppni og verið reyndar langtímum saman í miklu harðari samkeppni við verslunina á höfuðborgarsvæðinu heldur en aðrir staðir á landsbyggðinni.
    Það leiðir hugann að því sem er ástæða til að ræða hér að allir verslunarhættir Íslendinga eru að breytast og breytast hraðar en nokkurn hefði órað fyrir. Engum hefði til að mynda dottið í hug fyrir nokkrum mánuðum að verulegur hluti af jólaverslun Íslendinga í ár færi fram erlendis. Vissulega hlýtur það að koma niður á þessari atvinnugrein. Það þýðir að mínu mati að íslenska verslunin verður að bregðast við þessu og hún mun gera það, ekki eftir ár heldur á allra næstu mánuðum. Við Íslendingar erum fljótir að laga okkur að breyttum aðstæðum og ég efa ekki að íslensk verslun mun standa þessa samkeppni af sér.
    Ég ætla líka að nefna hér eitt atriði sem kom fram hjá síðasta ræðumanni. Það er hvaða hlutverk þessi skattur kann að hafa í okkar þjóðfélagi annað en að vera tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Ég get út af fyrir sig tekið undir það með honum að oft hefur manni fundist að ekki væri vanþörf á að hafa einhverja bremsu á uppbyggingu verslunar- og skrifstofuhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef hins vegar ekki séð að þessi skattur hafi verið sú bremsa. Út frá þeim forsendum væri hægt að hugsa sér að hann þyrfti að vera verulega hærri. Það nær ekki nokkurri átt að við skulum fara þannig með þjóðartekjur okkar, eins og hv. 5. þm. Reykv. benti hér réttilega á áðan, að menn leiki sér að því að byggja verslunar- og skrifstofuhúsnæði svo hekturum skiptir sem við höfum ekkert með að gera. Ég get tekið undir að það er eðlilegt að sérhver atvinnugrein byggi sig upp á hverjum tíma til að þjóna hlutverki sínu og svara kalli tímans. En hér hafa menn, því miður, farið langt út fyrir öll mörk sem hægt er að hugsa sér í því sambandi. Ég nefndi það við 1. umr. að nú eru uppi áform um að byggja nýtt verslunar- og skrifstofuhúsnæði svo hekturum skiptir í landi Kópavogs. Þeir sem að því standa segja að þeir séu búnir að selja mikinn hluta af lóðum undir húsnæði sem þar á að byggja. Það er vissulega á svæði sem hentar mjög vel til slíkrar uppbyggingar og það liggur við nýjar samgönguæðar. En menn verða að sjá fram úr því hvernig þeir afskrifa húsnæði sem er fyrir hendi og sumt er nýbyggt.
    Ég ætla ekki að halda langa ræðu um þetta að þessu sinni. Mér sýnist að tilefni sé til þess að efh.- og viðskn. fjalli um málið á nýjan leik út frá þeim tillögum sem hér liggja fyrir. Og ég ítreka þá fyrirvara sem ég hef sett við málið. Einnig vil ég ítreka það, virðulegi forseti, að hæstv. forsrh. upplýsi við þessa umræðu hvaða stuðning þetta frv. hefur meðal stjórnarliðanna og hvort hann telji að það hafi þann stuðning að það fari óbreytt í gegn.