Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

33. fundur
Mánudaginn 25. nóvember 1991, kl. 15:28:00 (1227)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
     Herra forseti. Hér liggur fyrir allmerkilegt plagg. Hv. efh.- og viðskn. rís nú varla undir nafni að skrifa undir nál. þar sem aðeins einn, veðurfræðingur, tekur fyrirvaralausa afstöðu. Sá hv. þm., Magnús Jónsson, er maður að meiri, en hann er horfinn af þingi. Og frsm. snýr sér frá þingsalnum og horfir á hæstv. fjmrh. eins og hann sé að horfa á strákling og segir að af því að honum sé vel við hann þá leggi hann til að þetta sé samþykkt. En sennilega er ekki hægt að taka æruna af hæstv. fjmrh. með öðru fremur en að samþykkja þetta frv. miðað við þær ræður sem hann hefur flutt á undanförnum þingum. Og miðað við þær ræður verður ekki séð að nein merki þess séu á lofti, fyrst hæstv. fjmrh. leggur þetta til í dag, að þar verði á breyting. Og það er engin trygging fyrir því að ríkisstjórnin falli á þessu ári þannig að vonir manna um að þetta verði í síðasta skipti eru ekki á traustum grunni byggðar. Hv. 1. þm. Vestf. hefur þess vegna vitandi eða óafvitandi orðið til þess að reyna að draga þingheim inn á það að gera það nú af góðmennsku við hæstv. fjmrh. að styðja þetta mál.
    Ég tel það einsýnt að núv. ríkisstjórn verði að bera ábyrgð á sínum fjáröflunarfrv. Þessi skattur er eins og margur skattur sem við leggjum á þess eðlis að hann hefur bæði kosti og galla. Hann hefur vissulega galla og það er ærið umhugsunarefni að í dag keppir íslensk verslun, jólaverslun m.a., verulega við það að menn gera jólainnkaupin erlendis, hver og einn. Ég verð þess vegna að segja eins og er að ég tel alveg vonlaust annað en að áður en gengið verði til efnislegrar atkvæðagreiðslu um þetta mál, þá verði úr því skorið hvort stjórnarsinnar styðja þennan skatt eða ekki. Það er ekki hægt að gera það nema með einu móti og það er að láta á það reyna hvort þeir styðja það að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar eða hvort þeir fella það að því verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Ég hygg að það heyri líka til undantekninga þegar hv. 3. þm. Vestf. kemur hér í ræðustól og nánast biður þjóðina, flokkinn og alla afsökunar á því að hann ætli að styðja þetta mál einu sinni, ekki aftur. Hann er eini maðurinn sem hefur talað með málinu hér. Þannig er nú staðan. Hæstv. forsrh. hefur verið beðinn að lýsa því yfir hvaða stuðning málið hafi. Það er þögnin ein sem kemur frá hæstv. forsrh. og er hann þó með mælskari mönnum þegar hann telur sig þurfa að flytja ræður. En þá er líka rétt að fá úr því skorið. Hvaða stuðning hefur málið meðal stjórnarsinna? Það fæst því aðeins með því að taka afstöðu til frávísunartillögu um að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar.
    Það gengur nefnilega ekki að þingmenn Sjálfstfl. leiki sér að því í stjórnarandstöðu að lýsa því yfir að þeir séu á móti þessum eða hinum skattinum, básúna það út um allt, en standi svo upp hér í þingsölum þegar kemur að atkvæðagreiðslu og styðji umrædda

skatta. Þeir styðja ekknaskattinn að því er best er vitað. Styðja þeir þennan skatt? Það kemur í ljós. En það finnst mér merkileg staða að annað eins súperlið og hér er í efh.- og viðskn., hv. 1. þm. Vestf. Matthías Bjarnason, hv. 5. þm. Norðurl. v. Vilhjálmur Egilsson, hv. 6. þm. Reykv. og formaður allshn., Sólveig Pétursdóttir, allt liðið skrifar undir með fyrirvara. ( Gripið fram í: Ekki Magnús.) Og þá er það þessi stórkostlega athugasemd sem kemur hérna á vinstri hönd: Ekki Magnús. Hann er náttúrlega ekki genginn í Sjálfstfl. Það vitum við. Hitt er svo spurning hvort við eigum að fara eftir veðurfræðingi þegar við leysum efnahagsmálin. Það er umhugsunarefnið í þingsalnum. ( Gripið fram í: Er það verra en hvað annað?) Ég ætla ekki að segja að það sé verra en hvað annað, ég ætla ekki að fullyrða neitt um það. (Gripið fram í.) Hins vegar er það staðreynd að hæstv. viðskrh. fékk það verkefni í fyrrv. ríkisstjórn að gera tillögur til úrbóta með dreifbýlisverslunina. Þær tillögur komu aldrei og ég á ekki von á því að þar verði nein breyting á. Af þeirri ástæðu hef ég svona óbeint með stuðningi forseta, hann hefur ekki hastað á það, gert grein fyrir brtt. sem ég hef flutt um að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.