Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

34. fundur
Þriðjudaginn 26. nóvember 1991, kl. 13:50:00 (1231)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
     Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi óska síðasta ræðumanni til hamingju með endurnýjun á kjöri hans sem formaður Alþb. ( ÓRG: Þakka þér fyrir.) Ég tók reyndar eftir því

í framhaldi af því kjöri að hann veitti sjálfum sér stjórnarmyndunarumboð og tilkynnti það í sjónvarpinu. Það væri fróðlegt að heyra hvernig þær stjórnarmyndunarviðræður ganga hjá formanni Alþb. Ég hef ekki kynnst því að það hafi áður verið veitt með þessum hætti. En eins og formaður Alþb. jafnan segir, stórkostleg ný söguleg tíðindi gerast þegar hann á í hlut og þetta stjórnarmyndunarumboð, sem hann veitti sér í sjónvarpinu, er vissulega söguleg og merkileg tíðindi. Ég vildi gjarnan fá að heyra við hvern hann er að ræða um stjórnarmyndun þessa dagana fyrir utan vin sinn, hv. þm. Vilhjálm Egilsson, ef ég skildi þingmanninn rétt. Ég vil líka þakka formanni Alþb. fyrir umhyggju hans fyrir Sjálfstfl. og áhyggjur hans, sem af góðum hug eru sprottnar, út af hinum illræmda og erfiða klofningi í flokknum. Það er gott að vita um vin í raun þegar svona atburðir hafa gerst og enginn er líklegri til að sýna meiri hluttekningu en einmitt hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sem alltaf hefur tekið nærri sér klofning í flokki og aldrei komið nálægt slíku eins og kunnugt er.
    En ég vil líka um leið og ég þakka áhyggjur þingmannsins vegna óviss stuðnings um mál, sem hér er rætt, fullvissa hann um að enginn vafi leikur á um að fyrir því er góður stuðningur. Þá á ég ekki við þá hjálp sem ég mun náttúrlega fá frá honum vegna þess að hann hefur verið fastur og ákafur fylgismaður þessa máls frá öndverðu. En jafnvel án þess góða og trausta stuðnings er auðvitað traustur þingmeirihluti fyrir meðferð þessa máls.