Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

34. fundur
Þriðjudaginn 26. nóvember 1991, kl. 13:52:00 (1232)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
     Virðulegi forseti. Ég held að rétt sé nú að ég geri grein fyrir nokkrum atriðum sem upp hafa komið í þessari umræðu og þá sérstaklega að gera tilraun til að svara þeim fyrirspurnum sem til mín hefur verið beint.
    Spurt var að því í umræðunni: Hvað á að koma í stað skattsins þegar hann verður lagður niður? Ég vísa til þess sem segir í grg. með frv., að þegar skatturinn verður lagður af verður það gert í tengslum við breytingar á skattkerfinu, þegar samræmdir verða eignarskattar og eignatekjuskattar. Hugmyndin er að sjálfsögðu sú að ríkissjóður tapi ekki á þeirri skattkerfisbreytingu. Því hefur þegar verið svarað hver sé afstaða stjórnarþingmanna til þessa frv. Það lá fyrir áður en frv. var lagt fram hver væri afstaða hv. þm. Inga Björns Albertssonar. Hins vegar er það rétt að mér var ekki kunnugt um að hann myndi flytja brtt. sem raunin varð á.
    Varðandi þær brtt. aðrar, sem fram hafa komið, vil ég segja, án þess að fara út í langt mál, að það er spurning hvort brtt. hv. þm. Kristins Gunnarssonar stenst stjórnarskrárákvæði. Í því sambandi vil ég vitna til texta Ólafs Jóhannessonar, fyrrv. forsrh. og þingmanns, sem hefur skrifað um slík mál en í stjórnarskránni er það áskilið að skattar séu lagðir á samkvæmt jafnræðisreglunni. Um það vil ég ekkert segja að svo stöddu en bendi á að menn þurfa að velta fyrir sér þeirri spurningu þegar tillöguflutningur af þessu tagi á sér stað.
    Í raun og veru þarf ekki að fara mörgum orðum um brtt. Ólafs Þ. Þórðarsonar. Henni hefur að sjálfsögðu verið svarað hér í umræðunni. Stuðningurinn kemur fram í atkvæðagreiðslu sem verður í lok þessarar umræðu. En vegna þess að nokkuð hefur borið á að menn hafa viljað rifja upp sögu þessa máls tel ég nauðsynlegt að það komi fram hér og nú og hefur reyndar áður komið fram að þessi skattur var fyrst lagður á samkvæmt lögum frá 1979 í desember eða nóvemberlok, ef ég man rétt. Þá sat ég hér á þingi og man vel eftir umræðum sem urðu um þennan skatt og svokallaðan (Gripið fram í.) já, það var 1978 um haustið, það er alveg hárrétt --- og reyndar annað gjald, nýbyggingagjald held ég að það hafi heitið, sem kom á sama tíma. Ég sé það á hv. þm. Ragnari Arnalds að hann

segir það rétt vera með höfuðhneigingu. Það voru þessir tveir skattar sem komu samtímis. ( Gripið fram í: Skatt á gjaldeyri.) Við skulum ekki fara að telja þetta allt saman upp vegna þess að það yrði efni í langa ræðu og jafnvel nýja fundi. Það þarf hins vegar að koma fram vegna afstöðu Sjálfstfl. að sumir þingmenn Sjálfstfl. studdu þennan skatt á árunum 1980--1983. Skatturinn tók breytingum, hann lækkaði. En þingmenn Sjálfstfl. studdu skattheimtuna eigi að síður á árunum 1983--1988. Þá sat Sjálfstfl. í ríkisstjórn. Það gerðist hins vegar þegar hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson varð fjmrh. að gerð var tilraun til að hækka skattinn og það kostaði veruleg viðbrögð af hálfu stjórnarandstöðunnar. Það var þess vegna fyrst og fremst sem menn ræddu ítarlega og lengi um það hvort full ástæða væri til þess að hækka þennan skatt. Þetta rifja ég upp mönnum ( Gripið fram í: Tvöfalda hann.) --- reyndar að tvöfalda hann eins og hér er kallað fram í --- og það var auðvitað það sem olli umræðum fyrst og fremst á sínum tíma þótt að það hafi verið vinsælt umræðuefni í þingsalnum að ræða þennan skatt eins og lengi og ítarlega var gert við 1. umr. þessa máls.
    Hv. þm. Halldór Ásgrímsson spurðist fyrir um aðra þætti skattamálanna, hvort von væri á þeim. Ég vil upplýsa að þessa dagana er verið að leggja síðustu hönd á þær till. til breytinga á tekju- og eignarskattslögum sem þurfa að fylgja fjárlagafrv. eins og hann réttilega benti á. Ég geri mér vonir um að í næstu viku verði hægt að ræða það mál. Ég tek undir að það hefði verið betra að fá það frv. fyrr fram. En því miður hefur það oft gerst að í desembermánuði hafa komið fram slík frv. til breytinga á tekju- og eignarskattslögunum í tengslum við fjárlagaafgreiðsluna.
    Ég kem þá að þætti hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrrv. fjmrh. Hann stóð í ræðustól eins og stundum áður, þandi sig út og sagði við okkur, bæði ráðherra og hv. þm. úr röðum Sjálfstfl., sem nú ætlum að styðja þetta frv., að við værum að svíkja okkar málstað, það væri ekki orð að marka það sem við segðum, við breyttum bara um skoðun eftir því hvort við værum í stjórn eða stjórnarandstöðu. Nú er það svo að þegar hv. þm. skildi við sem ráðherra, hvarf úr sínum ráðherrastól og menn fóru að skoða arfleifðina kom í ljós að hún var með þeim hætti að ríkið þurfti á öllu sínu að halda og reyndar meiru til að jafna metin á milli gjalda og tekna. Og reyndar hefði þurft heilmiklu meira til en a.m.k. hv. þm. hafði sagt. Gott dæmi um þetta er það sem nú er að koma í ljós að við stjórnarskiptin var sagt að Lánasjóður ísl. námsmanna þyrfti 300--400 millj. Þegar upp er staðið og málið kannað kemur í ljós að í fjárlagafrv. hv. þm. fyrir yfirstandandi ár vantar u.þ.b. einn milljarð á að nægilegt fé sé lagt fram til Lánasjóðs ísl. námsmanna. Því miður er þetta ekki einsdæmi. Svo er mjög víða. Það var þess vegna ljóst við fjárlagagerð næsta árs að ekki var hægt að gera víðtækar skattkerfisbreytingar til lækkunar. Þetta lá fyrir. Þótt ríkisstjórnin ætli sér ekki að hækka skatta þá verður töf á því að skattar verði lækkaðir. Hins vegar treystum við okkur til að lýsa því yfir að þetta verður vonandi í síðasta skipti sem við leggjum fram frv. um þennan tiltekna skatt enda kemur það fram í grg. með skattinum.
    En hver er þessi saklausi hv. þm. sem stóð hér og var að kenna okkur um siði og siðleysi í íslenskum stjórnmálum? Hver var hann, maðurinn með geislabauginn sem stóð hér kokhraustur í ræðustól og sagði: Þið gerðuð allt annað þegar þið voruð í stjórnarandstöðu heldur en þið gerið nú þegar þið sitjið við stjórnvölinn? Er þetta ekki alsaklaus þingmaður? Nýsprottinn inn í stjórnmálin? Maður sem hefur aldrei gert neitt af sér, alltaf staðið við það sem hann hefur áður sagt? Maður sem gerði nákvæmlega það í stjórnarstörfum sínum sem hann ætlaði að gera í stjórnarandstöðu? Er þetta ekki flekklausasti stjórnmálamaður Íslands, þessi maður sem kemur hingað upp og gefur okkur hinum einkunnir? Ég spyr ykkur, ágætu þingmenn: Munið þið nokkuð eftir því að það væri rætt um matarskattinn í þessum þingsal á sínum tíma? Man nokkur eftir því að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, það var 15. okt. 1987 og kemur líka fram í þingtíðindum, hafi tekið svona til orða --- hann var þá að ræða við fyrrv. fjmrh., hæstv. utanrrh., og hann orðaði hugsanir sínar á þessa leið:
    ,,Það stendur þess vegna, hæstv. fjmrh., enn þá á þér krafan um að draga matarskattinn til baka. Þegar þú ert búinn að því getur þú komið og rætt við samtök launafólks. Fyrr en þú gerir það ertu brennimerktur maður sem ekki er hægt að teysta.``
    Ég les hér orðrétt úr ræðu hæstv. hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar þegar hann var í stjórnarandstöðu 15. okt. 1987. Hann var þá að ræða við þáv. fjmrh., hæstv. utanrrh., Jón Baldvin Hannibalsson.
    Svo gerðist það tæpu ári síðar að þessi flekklausi, saklausi þingmaður með geislabauginn, sem Alþb. var að endurkjósa sem formann sinn, komst í ríkisstjórn og gerðist ráðherra. Enda hefur hann stefnt að því lengi að komast í ríkisstjórn og við heyrðum það í ræðu hans áðan að hann vill ólmur komast aftur í ríkisstjórn og ekki sem neinn aukaleikari, heldur sem aðalleikari. Nú, hann komst í ríkisstjórnina og hvert var hans fyrsta verk? Ég veit að þið gætuð giskað á að fyrsta verk hv. þm. hafi verið að fella niður matarskattinn. Eða var það ekki þannig? Nei, það var ekki þannig. Hv. þm. gerðist fjrmh. og þrátt fyrir fyrri orð um að engum fjármálaráðherra væri hægt að treysta, a.m.k. gerði verkalýðshreyfingin það ekki nema hann legði niður matarskattinn, þá sat hv. þm. þetta af sér, sem hæstv. ráðherra þá, hreyfði ekki við matarskattinum, stóð hér keikur og varði hann manna harðast eins og reyndar sæmir fjmrh. ef þeir hafa heilsu til og þrek.
    Nú kemur þessi maður örskömmu síðar og ætlar að fara að kenna öðrum siði og siðleysi í stjórnmálum. Ég spyr ykkur og ég spyr þjóðina: Hver trúir slíkum manni? Auðvitað gerir það ekki nokkur einasti maður sem hefur lengra minni en til tveggja mánaða. Það er nefnilega þannig og undan því verður ekkert vikist að rifja það upp í þessari umræðu eins og hv. þm. hefur hagað orðum sínum að það var akkúrat ekkert að marka hv. þm. frá því að hann var í stjórnarandstöðu. Hans orð þá höfðu enga merkingu þegar hann kom í ríkisstjórn. Það kann vel að vera að það sé vegna þess að hv. þm. heldur að það að vera í ríkisstjórn sé eins konar leikur. Hann heldur líka að það skipti öllu máli að vera aðalleikarinn í því leikriti. Nei, ég veit að hv. þm. er gamall kennari úr Háskóla Íslands, kennari sem á að upplýsa íslenskan ungdóm um það sem við köllum stjórnmál, hann er stjórnmálafræðingur. Hann segir ungum nemendum sínum frá því hvernig stjórnmál eiga að vera frá degi til dags, hverjar séu línurnar og væntanlega hverjir séu siðirnir og hvert sé siðferðið. Við höfum heyrt ögn af þessu hér í dag. Hv. þm. hefur sagt okkur hinum til syndanna, bent okkur á að það komi fyrir að við gerum stundum annað í stjórn heldur en stjórnarandstöðu. Ég skil vel af hverju hv. þm. gengur úr salnum --- og kemur inn aftur þegar kallað er á hann. Hann er farinn að gegna, blessaður. Það er ágætt. ( ÓRG: Ég var bara að afhenda ræðurnar þínar gömlu.) Það er ágætt. Ég benti mönnum á það við 1. umr. hvar þær væri að finna og ég er þakklátur fyrir að hv. þm. skuli hafa tínt þær saman með þeim hætti sem hann hefur gert. Ég vona að hann hafi þá tök á að gefa þær út. Þetta gæti verið það besta sem hann gæfi út um ævina. Það eru orð mín, sem ég hef sagt hér í þingsölunum. Hann mætti þá gjarnan bæta þessari við sem ég er að flytja hér núna til upprifjunar fyrir þjóðina.
    Það sem skiptir máli í þessu sambandi er að það er afar auðvelt að koma hér upp og halda að þjóðin og þingið hafi steingleymt því sem menn gerðu hér áður. Og ég bið hv. þm. áður en hann fer að kenna okkur hinum næst, áður hann fer að segja hvað sé siðlaust og hvað sé siðlegt í íslenskum stjórnmálum, að muna eftir því að hann átti sjálfur á sínum tíma kost á að efna orð sín frá því þegar hann var í stjórnarandstöðu. Það hefur enginn þingmaður tekið jafnstórt upp í sig eins og hann, en hann kaus að gera það ekki. Og þess vegna segi ég: Öll hans ræða hér í þessari umræðu hún hlýtur að dæmast marklaus þegar af þessari ástæðu einni.