Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

34. fundur
Þriðjudaginn 26. nóvember 1991, kl. 14:09:00 (1235)

     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Það hefur þá verið staðfest hér að hæstv. félmrh. hefur rangt fyrir sér þegar hann upplýsir það að stjórnarflokkarnir séu alveg sammála um það að leggja aðstöðugjaldið niður. Þetta sagði hæstv. félmrh. á þingi fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna í landinu. Það er alveg nauðsynlegt að fá úr því skorið hvort hæstv. félmrh. hefur umboð til að segja frá því með þessum hætti.
    Að því er varðar tekjuskattinn þá hefur hæstv. fjmrh. upplýst að hann muni fljótlega leggja fram frv. um hækkun tekjuskatts um 1 milljarð. Hann hefur hins vegar ekki upplýst með hvaða hætti það verður, en mun leggja frv. fram í næstu viku. Það hlýtur að liggja nokkurn veginn ljóst fyrir í stjórnarflokkunum hvernig að þessari hækkun verður staðið fyrst flytja á frv. í næstu viku. Því trúi ég því að hæstv. fjmrh. geti upplýst þingið betur um það mál þannig að við getum gert okkur betri grein fyrir heildarskattastefnu ríkisstjórnarinnar.