Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

34. fundur
Þriðjudaginn 26. nóvember 1991, kl. 14:12:00 (1237)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Fyrir u.þ.b. 40 mínútum síðan óskaði ég eftir því að hæstv. félmrh. kæmi hér í salinn. Þá lýsti hæstv. forseti því yfir að félmrh. mundi koma hingað kl. 2. Ég beindi spurningum mínum til hæstv. félmrh. þrátt fyrir að hún væri ekki komin í trausti þess að hún kæmi hingað kl. 2. Nú hefur orðið hér sá atburður að hæstv. fjmrh. hefur lýst yfir allt öðru en hæstv. félmrh. sagði í þinginu í síðustu viku, ekki bara á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga, heldur einnig hér í þingsalnum. Ég ítreka þess vegna við virðulegan forseta að það er óhjákvæmilegt ef þessi umræða á að halda áfram að hæstv. félmrh. komi nú þegar og staðið verði við það loforð sem gefið var á forsetastóli að hæstv. félmrh. yrði kominn kl. 2. Það er fullkomlega óeðlilegt að við séum settir í þá stöðu að þurfa að eyða þeim möguleikum sem við höfum til þátttöku í þessari umræðu án þess að hæstv. félmrh. komi í salinn. Ef ríkisstjórnin vill greiða fyrir meðferð mála í þinginu, sem ég reyndar stórlega efast um eftir ræðu hæstv. fjmrh., þá ítreka ég þá ósk að hæstv. félmrh. komi hér og spyr virðulegan forseta hvers vegna ekki hafi verið staðið við það fyrirheit að hæstv. félmrh. kæmi hingað kl. 2.