Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

34. fundur
Þriðjudaginn 26. nóvember 1991, kl. 14:29:00 (1241)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
     Herra forseti. Ég ætlaði að leyfa mér að tala hér fyrir frávtill. um þetta mál. Það var undirstrikað af hæstv. fjmrh. að það væri meginregla að starfandi ríkisstjórn á hverjum tíma bæri ábyrgð á tekjuöflun sem fjárlagafrv. væri byggt á til útgjalda. Ég tel því nauðsyn að fá úr því skorið hver stuðningur stjórnarsinna er við það frv. sem þeir hafa svarið svo grimmt af sér að aðeins einn stjórnarsinni skrifað undir nál. fyrirvaralaust. Sá stjórnarsinni var varamaður og er nú horfinn úr þingsölum. Hinir aðilarnir sem skrifuðu undir þetta frv. með fyrirvara voru hv. 1. þm. Vestf., hv. 6. þm. Reykv. og hv. 5. þm.

Norðurl. v. Það hefur að vísu gerst í millitíðinni að hv. 5. þm. Norðurl. v. er að safna kjarki og auðvitað vitum við ekki nema söfnunin verði komin á það stig að hann hafi þann kjark til að styðja þetta þegar til orustunnar kemur, en hvort hv. 6. þm. Reykv. hefur skrifað undir með þeim fyrirvara að þar hafi verið hugmyndin að styðja brtt. til hækkunar eða lækkunar hefur ekki komið fram og ekki heldur hvort það væri til þess að styðja brtt. sem hljóðaði upp á það að fella frv. Af hv. 1. þm. Vestf. er aftur á móti það að segja að af vináttu við hæstv. fjmrh. lýsti hann því yfir að hann ætlaði að styðja frv. En þar var líka fyrirvari. Sá fyrirvari var á þann veg að þetta yrði í síðasta skipti sem hæstv. fjmrh. legði þetta til. Því er mjög valt að treysta. Í fyrsta lagi er ekki vitað til að stjórnin falli á þeim tíma þannig að hugsanlegt er að hann muni leggja þetta til aftur næsta haust. Menn geta horfið af vettvangi af öðrum ástæðum en hæstv. fjmrh. segir aftur á móti að væntanlega verði ekki nauðsyn að bera þetta fram aftur. Hann ætlar sem sagt ekki að loka þeirri leið að það geti hugsanlega gerst að það þurfi að bera þetta fram aftur. Og þá er brostin forsendan fyrir því að 1. þm. Vestf., flm. nál., styðji frv.
    Í slíku andrúmslofti tel ég eðlilegt að málinu sé vísað til ríkisstjórnarinnar. Þar er verið að ræða skattamál eins og fram hefur komið og eðlilegt að þetta sé rætt í samhengi. Frávísunartillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Þar sem greinilegt er að fyrirvaralaus stuðningur er ekki lengur við þetta frv. hjá þeim sem skrifuðu undir nál. samþykkir Alþingi að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar.``
    Hér voru fluttar mjög skemmtilegar ræður, bæði af hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh., en það er nokkurt ósamræmi í kynningu á afstöðu manna ef hæstv. fyrrv. fjmrh., núv. 8. þm. Reykn., er eini aðilinn sem er talinn hafa haft svo virðulega umsögn um skattamál að vert sé að vitna í þingtíðindi, sem því miður eru allt of lítið lesin miðað við hvað þar er margt vel sagt í þeim fræðum. Ég held að það sé óhjákvæmilegt til að jafna virðingu manna í þinginu og menn úti í bæ fái ekki það á tilfinninguna að þetta sé eini aðilinn sem segir þar hluti sem vert sé að endurtaka, þá sé örlítið reynt að fara yfir það hvað gáfumenn úr Sjálfstfl. hafa sagt um þessa hluti, um skattana eins og þeir koma þeim fyrir augu. Ég held að þá sé eðlilegt að ég byrji á því, með leyfi forseta, að vitna í hvað frsm. minni hluta fjh.- og viðskn., hv. 4. þm. Reykv., hafði um þetta mál að segja þegar rætt var um skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Þetta er við 2. umr. 1990. Þá segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Herra forseti. Hér er á ferðinni gamall kunningi okkar alþingismanna eða gamall draugur kannski. En það er ekki ástæða til að fjölyrða mjög um þetta mál. Ég vil aðeins geta þess sem menn ættu nú að vera farnir að skilja að allir skattar eru í eðli sínu eignaupptaka, þ.e. tilfærsla á fjármunum frá einstaklingum, félögum og fyrirtækjum til ríkisvaldsins. Við erum vön því, hv. alþm., núna upp á síðkastið, á síðustu missirum að yfir okkur sé dengt stanslaust nýjum sköttum í einu formi og öðru. Menn segja að þessi skatturinn sé eitthvað skárri heldur en hinn en eins og ég sagði áðan, þá eru allir skattar því marki brenndir að einhver verður að borga þá og auðvitað borga þeir menn, sem hafa viðskipti við fyrirtæki sem eiga skrifstofu- eða verslunarhúsnæði, þennan skatt þegar þeir skipta við viðkomandi fyrirtæki. Það er nú lögmál lífsins að skattarnir lenda á þjóðinni auðvitað og neytendum ekki síst.
    Mér er ljóst að við hv. þm. Halldór Blöndal erum hér í minni hluta og að meiri hlutinn mun auðvitað samþykkja að framlengja þessum skatti. Hann er jafnslæmur og aðrir skattar og við greiðum atkvæði gegn samþykkt frv.``
    Hérna blasir það við að sá sem vitrastur er og reyndastur í þingliði Sjálfstfl. staðfesti það að ríkisstjórnin er að leggja til eignaupptöku, ekkert annað, hvorki meira né minna. Hreina eignaupptöku eins og kommúnistar væru komnir til valda í landinu. Auðvitað tekur hann það skýrt fram að það er af því að þeir eru í minni hluta, hv. þm. og núv. hæstv. ráðherra Halldór Blöndal og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, að þeir eru ofurliði bornir, lenda undir og beygja sig fyrir lýðræðinu að láta eignaupptökuna yfir sig ganga. En það hefði aldrei hvarflað að þessum mönnum að það gæti gerst að núv. hæstv. fjmrh. færi að leggja þær byrðar á þá og láta þá bera þann kross að þeir þyrftu að standa eins og kommúnistar að eignaupptöku í landinu. Hann tekur það skýrt fram að þeir eru ekki að ráðast á eigendur skrifstofu- og verslunarhúsnæðis. Hann tekur það skýrt fram. Þeir eru að ráðast á almenning í landinu, þá sem skipta við þessa aðila. Þeir eru að hafa af þeim peninga.
    Og svo er eins og það hafi enginn sagt nokkurt orð af viti um skattamál í þessu landi nema hæstv. fyrrv. fjmrh. Þegar hæstv. fjmrh. kemur í pontuna og telur sig þurfa að vitna í þingtíðindin og fortíðina, þá vitnar hann ekki í neinn annan en hæstv. fyrrv. fjmrh. Mér finnst að þetta nái ekki nokkurri átt. Ég bara skil ekki svona vopnaburð þegar önnur eins ummæli liggja nú fyrir af manni sem hefur starfað lengi í fjh.- og viðskn. og verið leiðbeinandi og telur að hann sé nánast búinn að leiðbeina sínum flokksmönnum svo lengi í þessu máli að þeir hljóti að vera farnir að skilja. Auðvitað telur hann umþóttunartíma eðlilegan til þess að menn hafi ráðrúm til að skilja rök mála. Menn þurfa að fá að hugsa sig um. En hann telur að fræðslan í þessum efnum sé komin á það stig að nú hljóti menn að fara að skilja. Samt gerist það. Kannski er það út á þetta tveggja mánaða minni sem hæstv. fjmrh. talaði um að þessi upprifjun hefur ekki átt sér stað á miðju sumri og þess vegna hafi menn álpast til þess að taka þetta inn aftur. Það er mjög óvíst að hv. 4. þm. Reykv. hafi gefið sér tíma til þess núna síðsumars að fara með þennan fyrirlestur yfir sjálfstæðismönnum. Þess vegna er þetta með minnið mjög sterkur punktur í þessu máli. Þetta tveggja mánaða meðalminni getur verið ástæðan fyrir því að þessar upplýsingar hafi ekki verið tiltækar þegar menn þurftu að hafa þær við höndina þegar ríkisstjórnin var að fara yfir hvaða skatta skyldi hafa í landinu.
    Ég vil eindregið hvetja hæstv. fjmrh. til að lesa þær ræður sem fulltrúar Sjálfstfl. fluttu um þetta mál, kynna sér efni þeirra, láta ekki eins og það sé ekkert í þessum þingtíðindum nothæft til upplestrar, til fróðleiks fyrir þjóðina annað en það sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hefur sagt hér á undanförnum árum.