Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

34. fundur
Þriðjudaginn 26. nóvember 1991, kl. 15:56:00 (1247)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég sagði ekkert um það hér áðan að hæstv. félmrh. hefði flutt tillögu í ríkisstjórn um að lækka framlagið í Framkvæmdasjóð fatlaðra. Það er því óþarfi fyrir hæstv. félmrh. að koma alvöruþrungin á svip í stólinn og krefjast þess að það verði tilgreint og segja að ég fari með rangt mál. Ég sagði þetta aldrei, hæstv. félmrh. Það sem ég sagði hins vegar var að líkt og í málefnum annarra ráðuneyta hefði félmrn. í tíð fráfarandi ríkisstjórnar, eins og mér skilst að sé einnig í tíð núv. ríkisstjórnar, fengið ráðstöfunarrétt á því að raða fjármagni sem til félmrn. færi í ákveðna forgangsröð. Það er hin almenna vinnuregla. Það hefði þess vegna verið ákvörðun félmrh. sjálfs að vega og meta hvað mikið færi í Framkvæmdasjóð fatlaðra og hvað mikið færi í önnur verkefni innan ráðuneytisins t.d. nýbyggingar í þágu fatlaðra, viðgerðir, starfsmannahald og annað slíkt. Þetta er staðreynd málsins og ég var að mótmæla því áðan að hæstv. félmrh. væri að gera því skóna í lýsingu sinni að það hefði verið fjmrh. einn sem ákvað hvaða upphæðir fóru í Framkvæmdasjóð fatlaðra.
    Ég vil einnig taka fram að mér finnst merkilegt að hæstv. félmrh. lýsir því yfir, ráðherra samtaka launafólks, að ekki sé eining innan samtaka launafólks um þær tillögur sem ég lýsti hér áðan. Ég var að lýsa ályktunum Verkamannasambands Íslands, ályktunum BSRB, ályktunum Kennarasambands Íslands, ályktunum Samtaka iðnverkafólks og ályktunum Alþýðusambandsins. Því væri fróðlegt ef hæstv. félmrh. upplýsti það hér í salnum hverjir það eru innan verkalýðshreyfingarinnar sem eru á móti þessum ályktunum.