Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

34. fundur
Þriðjudaginn 26. nóvember 1991, kl. 15:59:00 (1248)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég held að hv. þm. ætti að vera kunnugt um það --- af því hann talar um forgang innan ráðuneytisins --- að málefni fatlaðra hafa ávallt haft forgang í ráðuneytinu ásamt fjármagni til félagslegra íbúða. Ef hv. þm. spyr hvar hefði átt að taka það fjármagn, þá var a.m.k. ekki hægt að taka það úr Byggingarsjóði verkamanna, sem verulega var skorinn við nögl í tíð hæstv. fjmrh. Hv. þm. nefndi það áðan að ég hefði lagt til að skorið yrði niður fjármagn í Lánasjóð ísl. námsmanna. Það er rangt. Ég gerði oft á tíðum samanburð á því, af því að þetta eru hvort tveggja félagslegir sjóðir, hvað miklu minna ríkisframlag væri ætlað í Byggingarsjóð verkamanna heldur en Lánasjóð ísl. námsmanna. Þetta eru sjóðir sem hafa svipuð útlán og hafa niðurgreitt fjármagn. Ég taldi óeðlilegt hve mikill munur væri gerður á ríkisframlögum í þessa sjóði sem mundi leiða til þess að Byggingarsjóður verkamanna yrði að draga saman sín útlán eða hann stefndi í gjaldþrot eða vaxtahækkanir þyrftu að koma til. Þetta var ég að reyna að leiða hæstv. fyrrv. fjmrh. fyrir sjónir þegar ég gerði samanburð á framlögum til þessara sjóða. En ég var ekki að gera tillögu um að skorið yrði niður heildarfjármagn til Lánasjóðs ísl. námsmanna. Það er hreinlega rangt.
    Hvað varðar aðgerðir sem verkalýðshreyfingin vildi að kæmu fram þá hygg ég að skoðanir séu skiptar um það hvaða aðgerðir mundu skila sér best til launafólks. Eru það húsaleigubætur? Er það hækkun á skattfrelsismörkum eða hvað er það? Ég hygg að hv. þm. geti verið mér sammála um að það er alls ekki eining um það innan verkalýðshreyfingarinnar hvaða aðgerðir skili sér best til láglaunafólks.