Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

34. fundur
Þriðjudaginn 26. nóvember 1991, kl. 18:11:00 (1259)

     Jón Kristjánsson :
     Virðulegi forseti. Ég hafði ætlað mér að leggja nokkur orð í þessa umræðu áður en henni lyki en mér þykir greinilegt að ummæli hafi fallið á þann veg að henni lýkur ekki í bráð. Ummæli forsrh., þar sem hann ber stjórnarmönnum Byggðastofnunar á brýn að þeir hafi ekki farið að lögum um stofnunina og nefnir þar útlán til ákveðinna fyrirtækja, eru mjög alvarleg svo að ekki sé meira sagt. Svona ummæli þótt væru milli hv. þm., hvað þá frá hæstv. forsrh., gefa tilefni til að fara rækilega yfir málið.
    Hins vegar ætlaði ég að hnykkja á nokkrum atriðum í sambandi við þessa umræðu vegna þess að þegar henni var frestað síðast hafði hæstv. forsrh., sem ber ábyrgð á byggðamálum, ekki tekið til máls.
    Í svokallaðri hvítri bók, sem ríkisstjórnin gaf út eftir mikið japl, jaml og fuður er ekki minnst á byggðamál heldur er talað um byggðastefnu í kafla sem heitir ,,Sambúð lands og þjóðar`` og eru þar nokkur atriði sem varða byggðamálin. Þar er þessi fræga setning um vaxtarsvæði. Þar stendur að ríkisstjórnin vilji í samvinnu við heimamenn beita sér fyrir uppbyggingu orkufreks iðnaðar og hlúa að vexti og viðgangi smáfyrirtækja. Ríkisstjórnin muni fylgja eftir áætlunum sínum við jöfnun húshitunarkostnaðar og ríkisstjórnin muni beita sér fyrir flutningi þjónustu.
    Svo mörg voru þau orð. En það er eitt að setja orð á blað í hvítri bók, annað er hverjar hinar raunverulegu aðgerðir og hver hinn raunverulegi vilji er og hvert fyrstu spor ríkisstjórnarinnar vísa í þessum málum. Við hv. þm. höfum ekki neitt í höndunum um fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar nema fjárlögin og menn skyldu þó ætla að í þeim væri myndarlega tekið á þessum málum af hálfu ríkisvaldsins. Við skyldum halda að myndarlega væri tekið á samgöngumálum í fjárlögunum vegna þess að talað er um að tengja vaxtarsvæði saman með góðum samgöngum. Í vegáætlun og framlögum til vegamála er raunverulega dregið úr framkvæmdum þó að leiða megi rök að því að það fjármagn sem er inni á vegáætlun hafi vaxið frá fjárlögum fyrra árs. En þegar nánar er skoðað er um raunverulega minnkun á framkvæmdum að ræða vegna þess að framkvæmdir og greiðslur sem áður hafa verið utan vegáætlunar eru teknar þar inn. Og eftir því sem fréttist úr stjórnarherbúðunum er nú rætt um viðbótarniðurskurð í vegamálum og hafa heyrst þar tölur allt upp í 20%, en þær tillögur hafa ekki séð dagsins ljós enn þá.
    Ef litið er á flugmálaþáttinn og þau mannvirki, sem nauðsynleg eru til þess að efla flugsamgöngur, er einnig lækkun í fjárlögunum. Ef litið er áfram á samgöngumálin, þá er ætlunin samkvæmt fjárlagafrv. að hækka þungaskatt og það eru fleiri atriði varðandi byggðamál í þessum fjárlögum sem athygli vekja. Ég er ekki að segja að við framsóknarmenn séum ekki til viðtals eða viljum ekki skoða sparnað á ýmsum sviðum. Það er víða niðurskurður í þessum fjárlögum sem snertir landið allt. Þau eru til meðferðar og við tökum að sjálfsögðu fullan þátt í því í fjárln. að ræða þau og þá liði. Hins vegar er ýmis glaðningur sem ætlaður er landsbyggðinni sérstaklega og það eru óvenjulega margir liðir í þessum fjárlögum, sem varða landsbyggðina, sem eru beinlínis skornir niður. Þar eru stærstu liðirnir þeir sjóðir sem eiga að veita einhverja vörn í byggðamálum. Það er Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins sem er tekinn í annað og Framleiðnisjóður landbúnaðarins er skorinn verulega niður. Það er sagt í athugasemdum við frv. sem liggur hér fyrir hv. Alþingi um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins, að það sé eðlilegt hlutverk Byggðastofnunar að koma inn og verjast því að kvóti fari úr byggðarlögum og Byggðastofnun eigi að taka að sér það hlutverk sem Hagræðingarsjóði var ætlað, það sé eðlilegt hlutverk hennar. En hvernig skyldi Byggðastofnun vera í stakk búin til að mæta þessu hlutverki samkvæmt frv.? Það er ætlunin að skera niður framlög til Byggðastofnunar um 20% samkvæmt fjárlagafrv. og um leið á stofnunin að taka þetta hlutverk að sér samkvæmt frv. hæstv. sjútvrh. um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins.
    Það mætti lengi telja ef farið væri í gegnum þessa ágætu bók sem heitir Frumvarp til fjárlaga árið 1992. Það er eiginlega það eina sem við hv. þm. höfum handfast um stefnu ríkisstjórnarinnar og fyrirætlanir varðandi byggðamál. Þar eru t.d. áform um að fella algerlega niður framlög til þess umtalaða fyrirtækis Skipaútgerðar ríkisins, svo að við tölum áfram um samgöngumál og hvernig á að tengja saman þessi vaxtarsvæði. Það er alveg ljóst að það fyrirtæki getur ekki veitt þá þjónustu sem ætlast er til af því ef þessi framlög verða felld niður, ef það á annað borð fær að starfa áfram.
    Samkvæmt upplýsingum frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, sem borist hafa félmn. Alþingis, fær Jöfnunarsjóður sveitarfélaga, sem ætlað er mikið hlutverk í því m.a. að stuðla að stækkun sveitarfélaganna í landinu sem mér er kunnugt um að hæstv. ríkisstj. þykir bjargráð í byggðamálum, ekki þau framlög sem eru lögbundin samkvæmt mati Sambands ísl. sveitarfélaga og er þó á því full þörf. Hér hafa verið raktar ýmsar fyrirætlanir um byggðamál sem eru væntanlegar í frumvarpsformi og snerta byggðamál. Það hefur verið rakið að ætlunin er að afnema verðjöfnun á bensíni og olíum, að verð á bensíni og olíum verði misjafnt eftir því hvar er á landinu.
    Þetta er sú mynd sem blasir við og það er alveg sama þó hæstv. forsrh. segi það í tiltölulega hógværri ræðu --- þó að andsvar hans væri ekkert tiltölulega hógvært, þá var ræða hans í upphafi þessarar umræðu í dag tiltölulega hógvær --- að hvergi hafi komið fram í ummælum að draga eigi úr framlögum til byggðamála. Hann sagði eitthvað á þá leið ef ég hef náð hans ummælum rétt niður en þetta var efnisinntak þeirra. Ég held að annað blasi við ef grannt er skoðað.
    Í öðru lagi segir hæstv. forsrh að við þingmenn, sem höfum talað í þessari umræðu, höfum verið með fjandskap í garð höfuðborgarinnar. Þetta er fjarstæða. Ég hef fyrir mitt leyti varað við afleiðingum þess fyrir höfuðborgina að taka við þeim óþægindum sem verða af þeirri byggðarröskun sem óhjákvæmileg er ef svo heldur fram sem horfir. Ég hef varað við þessu, ekki af fjandskap við höfuðborgina heldur vegna þess að ég ann höfuðborgarbúum þess að hér sé gott mannlíf. Ég er einn af þeim sem þarf atvinnu minnar vegna að vera hér meiri hlutann úr árinu þannig að það kemur alveg eins við mig og aðra hvernig er að lifa í höfuðborg okkar. Það er alger fjarstæða að halda því fram að umræðan hafi einkennst af hatri til höfuðborgarinnar. Ég frábið mér slíks. Það hefur ekki komið fram í mínu máli.
    Hæstv. forsrh. sagði að það væru skilyrði fyrir lífvænlegri byggð hvarvetna á landinu. Þar er ég honum alveg sammála. Ég held að þessi skilyrði séu fyrir hendi. Það séu skilyrði til góðs mannlífs um allt land. Hins vegar hafa þau ummæli verið fyrirferðarmikil í umræðunni að það eigi að hjálpa fólki til að flytja burt af svæðum sem standa höllum fæti. Það er ekki að undra þó að þau séu fyrirferðarmikil því að þessi skoðun heyrist víða og ummæli hæstv. forsrh. eru engin tilviljun. Það eru ýmsir á þeirri skoðun að það geri ekkert til þó að ýmsir þéttbýlisstaðir úti á landi fari í eyði.
    Hæstv. forsrh. er ágætur rithöfundur og liðtækur á því sviði. En ég heyrði í öðrum rithöfundi í útvarpsþætti sl. laugardag. Hann var með pistil og kom þar inn á byggðamál í tilefni af umræðum sem hafa verið á hv. Alþingi og í tilefni af ummælum hæstv. forsrh. Í þessum pistli sagði rithöfundurinn eitthvað á þessa leið: Ég harma það ekkert, það skeður ekkert þó að ýmsir þéttbýlisstaðir, sem eiga undir högg að sækja, fari í eyði. Síðan kom skáldlegt framhald. Hornstrandir fóru í eyði fyrir nokkuð mörgum árum. Hvað hefur skeð? Hornstrandir eru sælureitur þar sem grasið og gróðurinn vex upp í mitti og menn geta slappað af, haft það huggulegt og horft upp í loftið og horft á hvönnina sem vex þar yfir mannvirki og hylur þær mannvistarleifar sem þar voru. Er það sú framtíðarsýn sem menn hafa? Er þetta sú framtíðarsýn að grasið vaxi yfir þau mannvirki sem eru úti á landsbyggðinni og hylji þau að lokum? Ég spyr hæstv. forsrh. að þessu af því að hann er skáld eins og sá sem þennan pistil flutti.
    Ég er ósammála þessu. Það má vera að Hornstrandir séu sælureitur, ég hef því miður ekki komið þar enn þá, ég geymi mér það og hlakka til þess þegar ég fæ tækifæri til þess. En ég hef ekki þá skoðun að það sé hin eilífa sæla þar sem grasið vex yfir leifarnar um mannvist. Mér finnst vera sælureitur þar sem er líf og starf og þar sem möguleikar landsins eru nýttir. Mér finnst það sælureitur þar sem menn lifa í sátt við landið og finna fyrir nálægð þess og nýta auðlindir þess á skynsamlegan hátt. Það gerum við með því að halda byggð í landinu sem víðast. Það er langt í frá að nokkur hafi haldið því fram að byggðin breytist ekki í landinu í tímans rás. En mér finnst sú stefna röng og ég get ekki sætt mig við hana að grípa eigi inn í þá þróun með þeim aðgerðum að flytja fólk burt þegar erfiðleikar steðja að.
    Fyrir nokkrum dögum var verið að impra á því að ríkisstjórnin sæti á fundum að ræða um aðgerðir til að bregðast við aðsteðjandi vanda í atvinnulífi landsmanna. Það er nú svo að ekkert hefur heyrst um þær aðgerðir nema að það sé möguleiki að lengja lán Atvinnutryggingarsjóðs. ( ÖS: Það kemur.) Það kemur, segir formaður þingflokks Alþfl. sem hefur tekið sig til og teiknað tillögur sínar upp á blað og veifað þeim blöðum framan í ljósmyndara. ( ÖS: Ertu ekki ánægður með það?) Ég var ánægður með það, jú, ég trúi formanni þingflokks Alþfl. til allra góðra verka enda er hann hreystimenni mikið og hann er sjóaður í pólitík eftir vist sína hjá hv. formanni Alþb., hv. 8. þm. Reykn. En það er eitt

að veifa blöðum, jafnvel þótt menn séu formenn þingflokka og annað að aðgerðir ríkisstjórnar sjái dagsins ljós. Að lengja lán Atvinnutryggingarsjóðs eru sértækar aðgerðir sem hæstv. forsrh. hefur a.m.k. verið að sverja af sér að ríkisstjórnin muni leggja til. Ef það á að lengja lán sjávarútvegsfyrirtækja þá koma fleiri aðgerðir til greina. Það eru t.d. flest sjávarútvegsfyrirtæki með lán í Fiskveiðasjóði. Hefur ríkisstjórnin rætt það að lengja lán í Fiskveiðasjóði? Það eru aðgerðir sem koma nær öllum útgerðarfyrirtækjum til góða. En ekkert hefur sést um þetta. Og aðgerðir til hjálpar atvinnulífinu úti á landsbyggðinni, sem þarf að þola heiftarlegar þrengingar vegna niðurskurðar á fiskveiðiheimildum og framleiðslutakmarkana í landbúnaði, hafa ekki séð dagsins ljós.
    Ég ætla ekki að lengja umræðuna meira. Ég þykist vita að hv. þm. eigi ýmislegt ósagt enn þá. Ég ætla nú að hverfa á fund hjá fjárln. og reyna að aðstoða við það að koma fjárlagafrv. áfram, enda veitir nú ekki af ef það á að afgreiða þennan bálk fyrir jól þar sem það er staðreynd að afar fá fylgifrv. eru komin fram en aftast eða aftarlega í fjárlagafrv. er skrá upp á þrjár og hálfa blaðsíðu yfir þær lagabreytingar sem þurfa að fylgja til að þetta frv. gangi í gegn. En nú er, eins og hefur komið fram í umræðunni, 1. des. á sunnudaginn, ef ég man rétt, og hér á að slíta þingi 14. des. samkvæmt starfsáætlun.