Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

34. fundur
Þriðjudaginn 26. nóvember 1991, kl. 18:54:00 (1261)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
     Herra forseti. Það hefur oft hitnað í kolunum á Alþingi og ýmis orð verið látin falla sem eru þyngri en æskilegt er. En það sækir margt á hugann þegar maður sér að formaður stærsta stjórnmálaflokks landsins kynnti það á sínum tíma undir rós. Með leyfi forseta vil ég geta þess hvað það er sem núv. forsrh. kynnti undir rós á landsfundi. Davíð Oddsson sagði að fyrrv. ríkisstjórn hefði komið óorði á byggðapólitík þannig að orðið byggðastefna væri nánast orðið að skammaryrði og síðan segir hann:
    ,,Margir stjórnmálamenn hafa haft tilhneigingu til þess þegar þeir hafa kosið að úthluta fé, jafnvel með ólögmætum hætti, að vitna til byggðastefnu í því sambandi. Ekki síst er þetta árátta framsóknarmanna.``
    Við búum í réttarríki og þar er það reglan að þeir sem brjóta af sér, vinna verk með ólögmætum hætti, eiga það yfir höfði sér að þeim sé stefnt, þeir sóttir til saka, gefinn kostur á að verja sitt mál og dómstólar kveði úr um það hverjir gangi lausir og hverjir verði að þola þau þungu örlög að verða settir inn í íslensk fangelsi. Þar hafa margir verið settir inn vegna fjármála.
    Nú fer ekki á milli mála að þessi ummæli hlutu að hafa áhrif og þau höfðu mikil áhrif í íslensku þjóðfélagi. Það var ekki litið á þau sem neitt grín. Þegar hv. 4. þm. Norðurl. v. spyr við hvað sé átt með þessum ummælum er hann að leita eftir svari við því á hverja það er borið að þeir hafi úthlutað fé, jafnvel með ólögmætum hætti. Hann fær svarið héðan úr ræðustólnum. Það er átt við lánveitingarnar sem Miklilax hefur fengið og e.t.v. þær eftirgjafir sem þar er um að ræða.
    Mér brá við að heyra þessi ummæli. Mér brá við að heyra þau því að það liggur ljóst fyrir að þegar slíkt kemur upp á og menn eru bornir jafnalvarlegum sökum hlýtur hæstv. forsrh. að hafa legið yfir því eða látið löglærða menn liggja yfir því hvort þessi áburður stæðist. Ég hef ekki nákvæma útskrift undir höndum af andsvari hans. Ég heyrði frammíkall hv. þm. Stefáns Guðmundssonar greinilega þegar hann spurði: ,,Voru þau útlán með ólögmætum hætti?`` Og svar forsrh. var eitthvað á þann veg að hann dró úr því að svo hefði verið, heldur að það væri á mörkunum, heyrðist mér. Ég sé að hann hristir höfuðið þannig að ég ætla ekki að fara lengra út í þá sálma. Það er rétt að það sem er nákvæmlega rétt í þeim efnum komi fram. En nú sitjum við Stefán ekki einir í Byggðastofnun. Þetta er sjö manna stjórn. Á því tímabili sem um ræðir sátu tveir af núv. ráðherrum ríkisstjórnarinnar í þessum sjóði, annar er hæstv. landbrh. og hinn er hæstv. menntmrh. Ég vil að það komi skýrt fram að mér dettur ekki í hug að bera það á þessa menn að þeir hafi brotið lög.
    Forstjóri Byggðastofnunar er lögfræðingur að mennt og við höfum að sjálfsögðu skýr lagafyrirmæli um það hvernig Byggðastofnun eigi að starfa og hverjar séu heimildir hennar. Meginreglan er sú að í 2. gr. laga komi fram markmið stofnana. Með leyfi forseta vil ég lesa upp hvað stendur í 2. gr. laganna um Byggðastofnun:
    ,,Hlutverk Byggðastofnunar er að stuðla að þjóðfélagslega hagkvæmri þróun byggðar í landinu.``
    Það hlýtur, þegar svo er orðað, að vera matsatriði þeirra sem í stjórninni sitja hvernig þeir skilgreina ,,hagkvæma þróun byggðar`` og þeir hafa verið kosnir til þessara starfa af Alþingi Íslendinga í trausti þess að þeir muni að sjálfsögðu vinna eins og samviska þeirra býður.
    Í 12. gr., með leyfi forseta, er fjallað um heimildir sem Byggðastofnun hefur til ráðstöfunar fjár. ,,Byggðastofnun veitir lán eða ábyrgðir í samræmi við hlutverk sitt, sbr. 2. gr. laga þessara. Veiting lána, ábyrgða og óafturkræfra framlaga skal byggjast á umsóknum, nema verið sé að afstýra neyðarástandi í atvinnu- og byggðamálum.
    Stjórn Byggðastofnunar ákveður lánakjör stofnunarinnar. Skal í því efni bæði höfð hliðsjón af fjárhagsstöðu stofnunarinnar á hverjum tíma og tilganginum með lánveitingum hennar.``
    Það fer ekki á milli mála að eitt af því sem Byggðastofnun hefur talið að væri í verkahring hennar er að stuðla að nýsköpun í atvinnuþróun á Íslandi, veita nýjum atvinnugreinum möguleika og vissulega eru menn oft og tíðum að taka áhættu. Þeir eru að leggja mat á möguleika ákveðinnar atvinnustarfsemi í framtíðinni.
    Hv. 4. þm. Norðurl. v. las upp ritstjóragrein þar sem fram kemur í hvaða sýn menn sáu möguleika fiskeldis á Íslandi. Vissulega hafa verðsveiflur í greininni eins og í svo mörgu öðru í þessum heimi skapað þar öldudali og hryggi.
    Ef hæstv. forsrh. hefur verið það ljóst þegar hann lét þessi orð falla á landsfundi Sjálfstfl. hvað raunverulega var sagt, sem ég efa ekki að honum hefur verið, hlýtur honum miklu fremur að hafa verið ljóst hvílíkri sprengju hann varpar inn í salinn með yfirlýsingu sinni að nafngreina Miklalax í þessu sambandi. Þar með er hann að stimpla sjö stjórnendur þessa fyrirtækis alveg sérstaklega og fleiri en sjö einstaklinga því að það hefur verið skipt um suma stjórnarmenn. Jafnframt er hann að vega að samráðherrum sínum með svo sérstæðum hætti að undarlegt má heita. Ég efa það að í nokkru þjóðþingi á Vesturlöndum mundi forsrh. koma með slíkan áburð nema hann væri staðráðinn í að víkja viðkomandi mönnum úr störfum. Svo stór orð eru hér látin falla. Nú trúi ég því ekki að hæstv. forsrh. hafi hugsað þetta á þann veg. Ég held að hér hafi það gerst að reynsluleysi hafi orðið til þess að kappið bar skynsemina ofurliði.
    Hæstv. forseti, ég held að það hafi verið verulegur greiði við Alþingi Íslendinga að gefinn var kostur á því að halda þessari umræðu áfram þannig að menn eigi möguleika á vitsmunalegri lendingu umræðunnar. Ef umræða er rofin undir svona kringumstæðum og fjölmiðlar eru látnir matbúa framhaldið án þess að skýringar komi hlýtur það að kalla á stórátök. Ég tel að sú umræða, sem vissulega hefur staðið lengi um byggðamál, hafi verið málefnaleg. Þar undanskil ég ekki ræðu hæstv. forsrh. sem hann flutti um þessi mál. Ég kalla það ekki þó að hann geri þá athugasemd, sem ég tel í glettni setta fram, að það hafi verið einhver sakamálaumræða í gangi út frá mínum orðum um Vestfjarðaáætlun þegar ég vakti athygli á ýmsum hugmyndum sem þar komu fram, sumum sem höfðu verið framkvæmdar og öðrum sem hafði verið ýtt til hliðar. En umræðan hefur verið málefnaleg og hæstv. forsrh. lýsti undrun sinni á því hvers vegna hún stæði svo lengi nú en hefði verið svo stutt í fyrra. Það er út af fyrir sig nokkurt umhugsunarefni hvers vegna þingmenn og þá trúlega stjórnarandstæðingar stóðu ekki upp í stórum stíl þá og gagnrýndu að eigið fé Byggðastofnunar hefði rýrnað. Hvers vegna skyldi það ekki hafa verið gert? Hver skyldi skýringin vera? Er hugsanlegt að ein af ástæðunum fyrir þessu hafi verið sú að þeir gerðu sér grein fyrir að hv. 1. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, var stjórnarformaður stofnunarinnar og þeir báru traust til hans starfa? Þeir litu ekki svo á að rýrnun á eigin fé Byggðastofnunar væri að kenna mannlegum mistökum þar heldur einfaldlega því að öldurót efnahagsmála gerði það að verkum að stofnun sem öllum lánastofnunum fremur er ætlað að taka áhættur og jafnframt að starfa fyrir opnum tjöldum og því ekki óeðlilegt þó að

þar gefi stundum á bátinn. Hvað með stóru töpin sem orðið hafa í bankakerfinu? Þar ríkir bankaleynd. Þar koma hlutirnir ekki upp á yfirborðið fyrr en eftir á og sumir kannski aldrei.
    Ástæðan fyrir því að umræðan nú um þessa skýrslu er svo löng liggur í tvennu: Í fyrsta lagi að hæstv. forsrh. opnaði þá umræðu með því að ræða á breiðari grundvelli en um skýrsluna og ég ætla ekki að álasa hæstv. forsrh. þó að hann hafi gert það. Við vitum að í dag standa málin þannig að aðalatvinnuvegur landsbyggðarinnar í hinum ýmsu sjávarþorpum er rekinn með halla. Fiskvinnslan er rekin með halla. Ég spyr sjálfan mig að því: Hve lengi þolir atvinnugrein, sem veltir jafnstórum fjárhæðum og íslenskur fiskiðnaður, að vera rekinn með halla? Það hefur komið fram að þetta hafi komið fyrir áður og vissulega er það rétt. Menn hafa deilt um gengisskráningu íslensku krónunnar í þessu sambandi, sérstaklega um það að þegar viðskiptahalli við útlönd verður jafngeigvænlegur og hann stefnir í á þessu ári, upp í 20 milljarða, og aðalútflutningsiðnaður landsmanna er rekinn með halla, fái gengisskráningin ekki staðist. Þá sé raungengi íslenskrar krónu fallið í reynd. En því er haldið uppi og raungengi krónunnar hefur hækkað. Skyldi nokkurn undra þó að byggðunum blæði við þær kringumstæður? Þetta er fljótvirkasta aðferðin til að rústa landsbyggðina.
    Hæstv. forsrh. hefur gefið þær yfirlýsingar að ekki standi til að fara þá braut. Við vitum ekki hvaða braut hæstv. forsrh. ætlar sér að fara. Við vitum heldur ekki hvort hún er fær. Hitt blasir við að fiskvinnslufyrirtækin hringinn í kringum landið eru rekin með halla.
    Eins og ég vakti athygli á í minni fyrri ræðu hefur hv. 3. þm. Reykv. þann hæfileika að í stuttu máli kemur hann oft að mikilli hugsun og hann talar um skýra starfsáætlun stjórnarflokkanna. Það er fyrirsögn á grein, sem hann skrifar, þar sem hann talar um 20 ára valdaferil Framsfl. Það er ekki valdaferill meiri hluta Framsfl. heldur stjórnaraðild Framsfl. að ríkisstjórn. Hann segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Á þessum tíma hafa allir samstarfsflokkar framsóknarmanna orðið að laga sig að þeirri staðreynd að stefna og starfshættir Framsfl. byggjast á því að stjórnmálamenn hafi sem mest afskipti af atvinnulífinu og stjórni með handafli.``
    Ég spyr: Hvers handafl er það í dag sem heldur uppi raungengi krónunnar og ætlast til að atvinnufyrirtækin skili erlendum gjaldeyri, afhendi hann á lægra verði en það kostar að framleiða hann? Hvers handafl er það og á hvers kostnað?
    Við könnumst við Áskel Einarsson og hans skrif. Hann hefur skrifað mikið um byggðamál um dagana. Í einu af hans skrifum telur hann að þyngsta höggið, sem dreifbýli á Íslandi hafi verið greitt, hafi verið þegar ömtin voru lögð niður og framkvæmdarvaldið var allt fært á einn stað. Þar talar hann um norður- og austuramtið sem hafði hvort um sig framkvæmdarvald á sínu svæði. Mér er ljóst að þriðja stjórnsýslustigið hefur ekki verið sett á. Ég er og verð samt þeirrar skoðunar að sá árangur náist ekki í byggðamálum sem ég óska eftir nema þriðja stjórnsýslustiginu verði komið á. Ég ætla ekki að hefja langa umræðu um það. Það er eiginlega miklu skynsamlegra að vísa til skýrslu sem þingmenn eiga að eiga aðgang að, þ.e. nefndarálit byggðanefndar þingflokkanna en Lárus Jónsson stýrði þeirri nefnd. Sú nefnd komst að þeirri niðurstöðu að án þess að þriðja stjórnsýslustigið kæmi til skjalanna mundum við ekki ná því fram að koma nægilegri þjónustu út á land og rétta stöðu byggðanna. En það er eitt að segja að byggðastefnan hafi mistekist, eins og Áskell telur þegar hann sem aldraður maður horfir á taflið og er ekki ánægður með þá þróun sem orðið hefur, eða halda því fram að hún hafi brugðist. Það er ærið umhugsunarefni að átta sig á því hvaða fólksflutningar áttu sér stað á 20 ára tímabilinu á undan, þessu 20 ára tímabili sem nú er verið að tala um og hvaða fólksflutningar áttu sér stað á þessu 20 ára tímabili sem menn halda fram að byggðastefnan hafi brugðist.
    Í desember 1990 eru búandi á Vestfjörðum 9.798 manns. Í desember, þegar þetta 20 ára tímabil hófst 1970, bjuggu á Vestfjörðum 10.050 en 1971 þegar stjórnin komst til valda bjuggu þar 9.925. Á þessu tímabili varð sem sagt örlítil fækkun en engu að síður var hún innan við 200 manns. En hvers vegna skyldu menn hafa leitað eftir að samin yrði byggðaáætlun fyrir Vestfirði? Hvers vegna skyldu þingmenn Vestfjarða, sjálfstæðismenn, hafa talið að þróunin væri gersamlega óásættanleg í byggðarþróun Vestfjarða? Ef við förum aftur til 1950, sem væri þá 20 ára tímabilið frá 1970--1950, kemur í ljós að 1950 bjuggu á Vestfjörðum 11.166 en 1970 var sú tala komin niður í 10.050. Það hafði fækkað um meira en þúsund manns. En sé farið lengra aftur kemur í ljós að fækkunin þar á undan var enn hraðari. Viðspyrnan sem varð m.a. vegna Vestfjarðaáætlunar, sem kom til framkvæmda í lok viðreisnar og náttúrlega ekki aðalatriðið vegna þess að það voru settir fjármunir í atvinnustarfsemi og uppbyggingu fyrir vestan, varð til þess að þróunin stöðvaðist að verulegu leyti á þessum 20 árum. Nú blasir aftur á móti við sem staðreynd og hún er komin á fljúgandi ferð aftur. Menn segja gjarnan í dag: Ekki ber ég ábyrgð á því sem er að gerast eða var að gerast í sumar. Hvað tekur það langan tíma að stranda skipi? var eitt sinn spurt. Ágætur maður sagði að það tæki 15 mínútur og úr sjóslysasögu Íslands er trúlega hægt að fá það staðfest. Sú aðferð að hafa gengisskráninguna ranga eins og hún er í dag og láta stórfyrirtækjum landsbyggðarinnar blæða er svo hraðvirk aðferð til að koma af stað flutningum frá dreifbýli til þéttbýlis að það er alveg með ólíkindum.
    Ég vil leyfa mér, herra forseti, að vitna í grein hv. 3. þm. Reykv. Björns Bjarnasonar ,,Byggðastofnun á röngum forsendum`` þar sem hann segir: ,,Hvarvetna í iðnvæddum og auðugum ríkjum tíðkast að styrkja byggðir sem eiga undir högg að sækja vegna fámennis eða fjarlægða frá þéttbýli. Þessi stefna styðst við góð og gild rök``, góð og gild rök stendur hér. ,,Henni er hrundið í framkvæmd með misjöfnum hætti. Mestu skiptir að sjálfsögðu að þannig sé staðið að tilfærslu þessa fjár skattgreiðenda að það nýtist sem allra best.``
    Á öðrum stað í þessari grein víkur greinarhöfundur að þeirri tilfærslu sem hann segir að hafi orðið frá skattgreiðendum til byggða í landinu. Þar segir svo:
    ,,Ástæða er til að vekja athygli á þessu mati stofnunarinnar um leið og þess er getið, að síðan 1972 hafa 12 milljarðar króna verið fluttir með fjárlögum um Byggðasjóð og Byggðastofnun frá skattgreiðendum til þeirra verkefna sem sjóðurinn og stofnunin hafa sinnt. Hafa upphæðir þá verið færðar til verðlags í nóvember 1991.``
    Gott og vel. Við Íslendingar höfum ekki alltaf unnið eftir áætlun. Það verður að mínu viti gersamlega vonlaust að gera þá kröfu til þessarar þjóðar, þar sem svo lítill hluti trúir á kenningar sósíalisma, að áætlanir séu það eina rétta. Við höfum aftur á móti viljað hafa þær með, hafa þær til hliðsjónar og í Framkvæmdastofnuninni gömlu var áætlunardeild. Byggðasjóður hafði áætlunardeild. Harkan var orðin svo mikil gegn áætlunardeildum og áætlunargerð að þegar Byggðastofnun er stofnsett með lögum er áætlunardeildin tekin út og engin áætlunardeild höfð. Burt með hana, sögðu menn, hún á ekkert erindi í þessa stofnun. Þar var haft þróunarsvið sem kemst kannski næst því að vinna eins og áætlunardeildir störfuðu en þó alls ekki á þann veg heldur miklu meira sem gagnabanki eða upplýsingaaðili.
    Hv. 3. þm. Reykv. Björn Bjarnason er sannfærður um að áætlunarkerfi, eins og við könnumst við frá Sovétríkjunum, fimm ára áætlanir voru þar vinsælar, eigi ekki rétt á sér. Þess vegna má segja sem svo að þær hugmyndir, sem fram komu í uppkasti að reglugerð fyrir stofnunina þar sem hugmyndin var að ekkert fjármagn færi út nema samkvæmt áætlunum, komi eins og þruma úr heiðskíru lofti yfir menn. Við hefðum búist við þessu ef Sósíalistaflokkurinn gamli hefði fengið meiri hluta á Alþingi Íslendinga og væri tekinn við. Þá væri samþykkt að ekkert færi út nema fimm ára áætlun lægi fyrir. En að núv. hæstv. forsrh. léti sér detta í hug að þannig ætti að standa að verki höfum við einfaldlega ekki skilið. Ég verð að segja eins og er að ég tel að það sé til merkis um að þar er ekki um að kenna forheimsku okkar því hv. 3. þm. Reykv. virðist hafa þann skilning á málum að það sé hægt að gera góða hluti án þess að allt sé gert eftir áætlun.
    Nú fer ekki á milli mála ef störf Byggðastofnunar eru skoðuð og sú staðreynd að í stjórn hennar hefur verið kosið hlutfallskosningu á Alþingi að þá hlýtur stærsti stjórnmálaflokkurinn ávallt að hafa haft mikið um það að segja hvernig fjármunum hennar var ráðstafað. E.t.v. er hægt að leiða að því gild rök að hann hafi haft mest um það að segja. En það vekur óneitanlega umhugsun þegar maður sér í sömu greininni viðurkenningu á því að stefna iðnríkjanna, sem hafa lagt stórar fjárhæðir til byggðamál, sé góð og gild en það sem Íslendingar hafa verið að gera sé allt hrein vitleysa. Ég hlýt undir þessum kringumstæðum að spyrja sjálfan mig, hafa þessir menn skoðað þessi mál af þeirri rólegu yfirvegun og með því hlutlausa mati að þeir séu að fara yfir þetta mál sérstaklega en ekki að etja saman byggðum? Ég tek undir með hæstv. forsrh. að það eigi ekki að etja saman byggðum á Íslandi. Við erum ein þjóð og höfum ekki efni á þeim leikaraskap að etja saman byggðum. En er ekki hugsanlegt að eitt af því, sem hafi gert það að verkum að fjármunir Byggðastofnunar fóru á þennan veg, sé sú staðreynd að við höfum oft og tíðum verið að flytja gífurlega fjármuni frá framleiðslusvæðunum með því að skrá gengið með handafli eins og það er gert í dag.
    Ég held að það sé verðugt verkefni að gera sér grein fyrir hvernig stórveldi, tökum Rómarveldi hið forna sem dæmi, stóð að því að viðhalda og efla sínar byggðir. Það fyrsta sem þeir gerðu var að leggja vegi. Þegar Rómverjar lögðu undir sig land þá lögðu þeir vegi. Mörg mannvirki, brýr og fleira, og margir vegspottar sjást enn í Evrópu eftir Rómverjana frá þessum tíma. Hvernig er staðan á Íslandi? Vissulega höfum við verið að leggja vegi. Þannig höfum við viljað færa byggðirnar saman, þ.e. ekki í kílómetrafjölda heldur í tíma. Það er tíminn sem skiptir máli, hvað maður er lengi að fara á milli byggðanna. Í Vestfjarðaáætlun er gengið út frá að hraði á bíl á milli byggða eftir vegakerfinu séu 40--50 km á klst. Auðvitað hefur bætt vegakerfi með bundnu slitlagi tvöföldað meðalhraðanum miðað við 40 km. Þannig höfum við fært byggðirnar saman. Við erum bara ekki búnir að því. Við eigum veruleg verk eftir en við höfum viljað trúa því að Ísland væri ekki það stórt að þegar vegakerfið væri komið í mjög gott ástand, þ.e. vegir með bundnu slitlagi byggðir upp úr snjó hringinn í kringum landið, þá væri komið á það stig að við værum búnir að færa byggðirnar svo mikið saman að búferlaflutningar, sem þýddu að allir íbúarnir þyrftu að flytja sig frá einum stað yfir á annan, mundu ekki eiga sér stað. Það mundi kannski fjölga mjög mishratt á hinum ýmsum stöðum. Við höfum alltaf gert ráð fyrir því. En svo langt gengi ekki að ákveðnar byggðir mundu í stórum stíl leggjast af.
    Annað atriði, sem er ærið umhugsunarefni, er hvernig bæði Rómverjar og allir aðrir skiptu ríkjunum niður í reiti og á hverju svæði átti að vera viss sjálfsstjórn. Hvað gerir land þar sem vagga byltingarkenndra hugmynda um framþróun til lýðræðis stóð, Bandaríkin? Hvað gera þeir til að tryggja að þetta stóra land haldi dreifðum byggðum? Þeir skipta því niður í fylki með mikilli sjálfsstjórn. Hvað gerir Þýskaland? Þar er það þannig að það er ekki toppurinn sem ræður fjárveitingum efsta stigsins í stjórnsýslunni. Skammtað er af stiginu þar fyrir neðan hversu miklir fjármunir eru til ráðstöfunar fyrir þá sem eru í toppnum.
    Þetta segi ég vegna þess að við höfum bæði mátt heyra það í fjölmiðlum og eins

af vörum hæstv. forsrh. að hann sé með óskrifað blað sem hann hafi ætlað að skrifa á stefnumörkun í byggðamálum ef einhver stefnumörkun kæmi fram í umræðunum. Að mínu viti eru samgöngurnar grundvallaratriði og að skipta landinu í það stórar stjórnsýslueiningar að þær hafi burði til sjálfsstjórnar og á þeirri forsendu hef ég verið stuðningsmaður þriðja stjórnsýslustigsins. En það verður líka að vera á því skilningur að heiðarlegar leikreglur um skráningu krónunnar verða að vera til staðar. Viðreisnarstjórnin sýndi að því leyti kjark í lok síns ferils þegar hrundar byggðir Íslands blöstu við, ef ekki væri farið í aðgerðir, skráðu þeir gengi krónunnar rétt. Það var engin smáræðis skekkja sem hafði verið komin á skráninguna. Þeir höfðu nefndir sem unnu að því að skipta fjármunum til að koma atvinnulífinu aftur af stað. Einn af þeim þingmönnum, sem hér situr í salnum, á sæti á Alþingi Íslendinga enn, hv. 4. þm. Reykv., hefur sagt mér frá því hvernig þeir unnu að því að koma atvinnulífinu aftur af stað með þessari skiptingu fjármunanna. Þetta fé sem var lánað út var svo seinna vistað í Framkvæmdastofnun Íslands. Hugmyndin að Framkvæmdastofnuninni kemur fram í fimm ára áætluninni fyrir Vestfirði. Í hinum erlendu leiðbeiningum sem Íslendingar höfðu fengið samkvæmt sérstökum samningi --- það má deila um það hvort þessir leiðbeinendur hafi haft einhverjar stjórnmálaskoðanir á þann veg að þarna sé um einhverjar kenningar frá sósíalistum að ræða. Það má vel vera að svo sé. Þetta voru norskir menn. En ég hef þó ekki hugmynd um hvaða skoðanir þeir höfðu á stjórnmálum. En ég hef litið svo á að þeir hafi á þeim tíma verið með hugmyndir sem þeirra samtíð taldi að væru réttar. Ég tel að umræðurnar, sem hafa orðið hér á Alþingi og mjög margir hafa tekið þátt í, undirstriki það að þegar jafnmargir stjórnarþingmenn hafa staðið upp og talað um byggðamál eins og hér hefur gerst, að vísu verður að segja það Sjálfstfl. til hróss að hann á hlutfallslega fleiri sem vilja ræða byggðamál en Alþfl. Það kemur okkur framsóknarmönnum ekkert á óvart. Við höfum ávallt gengið út frá því sem vísu að innan Sjálfstfl. væri þó nokkuð stór hópur sem hefði ákveðnar skoðanir á byggðamálum. Ég held að það hljóti að vera umhugsunarefni þegar bæði hv. 1. þm. Vestf. og hv. 3. þm. Austurl. tala jafnákveðið um þessi mál án tillits til þess að þeir eru stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar og hv. 3. þm. Austurl. hefur sérstaklega lagt mikið upp úr því að vekja athygli íslenskrar þjóðar á því að Sjálfstfl. réði öllum mikilvægustu ráðherraembættunum og bæri því höfuðábyrgð á byggðamálum á Íslandi í dag. Hann hefur undirstrikað þetta. Hann hefur fagnað þessu vegna þess að hann trúir því að þetta verði til framþróunar fyrir byggðirnar. En um leið og hann hefur sagt þetta spyrjum við hinir: Hvernig fara þá átökin um hin stóru mál sem hljóta að eiga sér stað innan þingliðs Sjálfstfl. þegar farið er yfir fjárlög og aðra þætti?
    Mér er ljóst, alveg eins og kemur í greinargerð Byggðastofnunar sem hún sendir allshn., að það eru einmitt hinar almennu aðgerðir í fjármálum sem hljóta að skipta höfuðmáli um þróun byggðar. Við verjum fjármagni til að byggja félagslegar íbúðir og ég er hlynntur því að það sé gert að vissu marki. Þær eru vissulega stuðningur við það fólk sem á eftir að búa í þeim en þær er líka stuðningur við þau byggðarlög sem fá þessar íbúðir. Ég held að umhugsunarefni væri að skoða hvert þetta fjármagn hefur runnið. Hvaða byggðir Íslands höfum við verið að styrkja með þessum peningum? Hvað eru þær upphæðir stórar á núvirði? Væri það ekki verðugt verkefni fyrir hv. 3. þm. Reykv. sem er áhugamaður um að kafa djúpt í hlutina að skoða hvert þessir fjármunir hafa farið og hvaða styrkir það eru sem þessar byggðir hafa fengið.
    Ég segi þetta vegna þess að fyrstu aðgerðir, sem ég man eftir að hafa lesið um á prenti um byggðamál hjá þessari þjóð voru þær ákvarðanir, sem teknar voru í tengslum við það að Innréttingarnar hjá Skúla fógeta voru staðsettar í Reykjavík, að styrkja þá Íslendinga til íbúðarhúsabygginga sem vildu setjast að í Reykjavík. Þannig taldi sú samtíð að

auðveldast væri að stuðla að byggðarþróun á ákveðnum stað. Ég tel að þetta hafi verið skynsamleg aðgerð. Hún stuðlaði að því að Íslendingar byrjuðu að búa í þéttbýli, ekki aðeins dreift um sveitir landsins. En þessi aðgerð hófst með því að veittur var styrkur til að byggja hús í Reykjavík. Þeir sem hér vildu byggja fengu styrk til þess.
    Ég held að það hljóti að ræðast af fullri alvöru að ýmis ummæli ráðherra Sjálfstfl. um byggðamál hafa komið við okkur sem erum fulltrúar fyrir jafndreifða byggð og Vestfirði. Hæstv. sjútvrh. hefur boðað það að flytja eigi aflaheimildir frá smærri byggðarlögum til stærri byggðarlaga. Þetta kom fram í ræðu í Vestmannaeyjum og þessi boðskapur hefur verið endurtekinn. Verði þetta gert er í reynd verið að leggja því máli lið að fækka skuli sjávarþorpum á Íslandi. Vel má vera, kæmum við að óbyggðu landi og vildum raða niður byggð, að við mundum standa öðruvísi að en þróunin hefur orðið í dag. En það þarf þó nokkra hörku til þess að boða þetta sem blákalda stefnu. Umhugsun vekur vissulega hvernig hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. tóku á málum Stokkseyrar. Það sækir á mann hvort búið sé að velja þorpin sem menn telja að eigi að afleggja? Er búið að velja þau? Er einhvers staðar til áætlun, vel geymd, þar sem einhverjir sérfræðingar hafa lagt fram hugmyndir um að stefnt skuli að því að fækka þorpum á Íslandi og sett á blað hvaða þorp það eru sem þeir telja að ekki eigi að hafa heils árs byggð í framtíðinni?
    Verulega athygli vekur líka að hæstv. fjmrh., sem þekkir of vel til atvinnulífs á Íslandi til þess að hann gangi þess dulinn að sjávarútvegurinn á við mikla erfiðleika að etja miðað við þá gengisskráningu sem er, býður að rétta af kompásinn í rekstri fyrirtækjanna, rétta af grundvöllinn eins og hann segir, ef menn samþykkja auðlindaskatt. Það nákvæmlega sama segir hæstv. viðskrh. Ef menn samþykkja auðlindaskatt er hann reiðubúinn að leggja til breytingar á gengi krónunnar. En hæstv. iðnrh. talar um að það þurfi að koma upp sveiflujöfnunarsjóðum. Það vekur þá spurningu hvort hugmyndir séu uppi um það í þeirri lægð sem íslenskt efnahagslíf er í í dag að safna eigi í stóra sveiflujöfnunarsjóði? Við höfum Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins. Þrátt fyrir allar yfirlýsingar um það að fyrrv. ríkisstjórn hafi skilið alla sjóði eftir tóma, þá hefur það verið upplýst að í þeim sjóði eru um 2,6 milljarðar og það er út af fyrir sig sveiflujöfnunarsjóður. En sá sjóður hefur engan styrkleika til þess að hægt sé að setja hér á fast gengi með tengingu við mynt Evrópubandalagsins.
    Ég held að einnig sé hollt að hugleiða það sem kom fram hjá hv. 5. þm. Norðurl. v. sem hefur þann eiginleika að hann getur verið svo barnslega einlægur að manni finnst að hann hafi aldrei kynnst neinu öðru en að búa við skjólbelti sem ég vil nú ekki trúa að sé rétt. Ég hygg að hann hljóti að hafa orðið að takast á við lífið eins og aðrir. Hann talar um það sem speki að gjaldþrot sé tæki til að koma rekstri aftur af stað. Það er eins og það sem mest hafi skort hér að undanförnu séu gjaldþrot. Gjaldþrotum hefur nánast rignt yfir íslenska þjóð, bæði á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi. Gjaldþrot er ekkert annað en það að ákveðnir aðilar fá ekki greiddar réttmætar kröfur. Sá sem skuldar greiðir þeim ekki réttmætar kröfur. Vissulega koma bankar og aðrir aðilar oft fyrirtæki af stað aftur á rústum þess sem varð gjaldþrota. En þeir sem ekki fengu greiddar réttmætar kröfur þola ekki nema takmarkaðan skammt og Verslunarráðið hefur gefið það út hvað kaupmannastéttin hefur tapað miklu vegna þess að hún hefur ekki fengið greiddar réttmætar kröfur. Það er umhugsunarefni þegar menn setja það fram nú að í kreppunni í Þýskalandi voru gjaldþrotin svo hröð og keðjuverkanirnar það miklar að þeir sem ekki fengu greiddar réttmætar kröfur hrundu þar til hlutafélagsbankar Þýskalands hrundu. Hvað þolir Íslandsbanki? Hvað þolir Landsbankinn eða aðrir bankar og sparisjóðir þessa lands stór áföll án þess að að því komi að þeir fari sömu leið?
    Íslandsbanki er ekki nafn á banka sem er að taka til starfa í fyrsta skipti. Fróðlegt

er að lesa skýrsluna um afmælisritið sem Útvegsbankinn gaf út þar sem gerð er grein fyrir sögu Íslandsbanka, gerð er grein fyrir Milljónafélaginu sem fór af stað í Viðey og athafnamenn á Vestfjörðum veðsettu eignir á Bíldudal og Patreksfirði af því að hér átti að fjárfesta til þess að græða og svo hrundi allt. Það var ekki bara Milljónafélagið sem hrundi heldur fleiri fyrirtæki. Svo stórt var gjaldþrotið að forráðamenn íslenskrar þjóðar treystu sér ekki til þess að verja bankann. Gjaldþrot hans var staðreynd. Þetta var hlutafélagsbanki og þeir sem áttu innstæður í þessum banka, m.a. í mínu kjördæmi, Ísfirðingar, töpuðu sínu sparifé. Hins vegar þegar kom að erlendum kröfum ákvað íslenska ríkið að semja, greiða skuldir sem það bar ekki ábyrgð á vegna þess að þeir töldu að álitshnekkir Íslendinga út á við yrði svo mikill að þeir yrðu að gera þessa hluti. Ætli það færi ekki eins í dag ef hlutafélagsbanki eins og Íslandsbanki færi á höfuðið? Ætli það yrðu ekki hinir mörgu og smáu sem mundu tapa? Aftur á móti ef skuldbindingar næðu út fyrir landsteinana yrðu þeir greiddir til þess að verða ekki fyrir álitshnekki. Ég verð að segja eins og er að ég hef ekki áhuga á að snúa út úr ummælum hv. 5. þm. Norðurl. v. þegar hann talaði um gjaldþrotin. En greinilegt var að hv. 3. þm. Austurl. sá stóra hættu í þeim ummælum sem hér höfðu fallið.
    Matthías Bjarnason, hv. 1. þm. Vestf., bar saman framlög til byggðarlaga á seinasta áratugi og áratuginum þar á undan, m.a. vegna þess að framlög voru mjög myndarleg þegar Framsfl. og Sjálfstfl. voru saman í ríkisstjórn undir forustu Geirs Hallgrímssonar. Framlög til byggðamála voru mjög myndarleg þar á undan undir forustu ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar. Hins vegar, þegar hv. 1. þm. Vestf. bar þetta saman, gleymdi hann því að á þessum áratug höfum við verið að veita mjög há framlög til byggðamála í gegnum Framleiðnisjóð landbúnaðarins. Ef þetta er skoðað í samhengi kemur í ljós að við höfum ekki veitt minni framlög á þessum áratugi en á hinum til byggðamála. Við höfum aftur á móti staðið frammi fyrir meiri erfiðleikum vegna þess að sóknin til sjávarins gat verið svo hörð 1970--1980.
    Ég held líka að það hljóti að vera umhugsunarefni og vil þar taka undir með hv. 1. þm. Vestf. hvort hægt sé að fara jafnblint eftir hugmyndum fiskifræðinga og við gerum. Það er merkileg grein í sjómannablaðinu Víkingi sem segir frá því þegar farið var yfir ákveðna kenningu sem bandarískur vísindamaður setti fram. Skólastúlka gagnrýndi hana fyrst og var náttúrlega kveðin í kútinn. En löngu seinna þegar farið var að skoða málið í botn kom í ljós að hún hafði rétt fyrir sér en vísindamaðurinn ekki.
    Við vitum ekki jafnmikið og við þyrftum að vita um hafið og kannski er það hættulegra en allt annað ef vísindamenn telja sig vita meira en þeir raunverulega vita. Eitt er víst, þeir skulda íslenskri þjóð skýringu á því hvers vegna við getum ekki veitt meiri þorsk en þeir segja að óhætt sé að veiða í dag. Er skýringin úr Vestmannaeyjum rétt að 100 þúsund tonnum af fiski sé fleygt í hafið? Er sú skýring rétt? Eru það drauganetin við Reykjanes og víða annars staðar, sem halda áfram að veiða ár eftir ár, sem valda því að við getum ekki landað meiri fiski? Eða er það vegna þess að við erum farnir að nýta svo mikið aðra fiskstofna sem eru æti þorsksins eða er það vegna þess að einhver skilyrði í hafinu hafi versnað? Þeir hafa ekki sagt okkur hvað þeir telja í þessum efnum. En íslenska þjóðin hlýtur að fara að krefja vísindamenn sína um skýringar.
    Ég held að það sé umhugsunarefni þó að menn segi að sú kvótaskerðing sem er ákveðin komi ekki til með að hafa áhrif í dag. Fiskveiðiárið byrjar 1. sept. og um leið og tilkynningin kom um það að veiðiheimildirnar væru skertar svona mikið fóru allar lánastofnanir að endurmeta hver væri staða þeirra, hvort þetta eða hitt fyrirtækið, miðað við þann aflakvóta sem það hefði, gæti staðið við skuldbindingarnar og hvert einasta fyrirtæki fór að skipuleggja sínar veiðar miðað við það að dreifa þeim þannig að áhrifin komu strax

fram. Það er mikill misskilningur að áhrifin af þessari tilkynningu um veiðiheimildirnar hafi ekki haft áhrif.
    Ég varð hissa þegar hv. 5. þm. Austurl. kom með þá samlíkingu að framsóknarmenn væru að þvo hendur sínar af því að hafa komið nálægt byggðamálum síðustu 20 árin. Þessi samlíking er tekin úr Biblíunni og allir vita hver það var sem þvoði hendur sínar eftir að hafa staðið að ákveðnum dómi. Ég held nú satt best að segja, þó að ég efi ekki að þessi ungi þingmaður Austfirðinga hafi jákvæðar hugsanir til byggðamála og jákvæðari en almennt gengur og gerist í hans flokki að hann hafi ekki efni á svona yfirlýsingum. Ég tek undir það sem hv. 4. þm. Norðurl. v. sagði. Við framsóknarmenn höfum ekkert að fela í þessum efnum. Við getum með sanni sagt að við höfum barist fyrir byggðamálum síðustu 20 árin og lengur. Og hvað sem hver segir, þá er enginn stjórnmálaflokkur sem hefur stöðugt legið undir harðari gagnrýni þeirra manna sem hafa viljað etja saman þéttbýli og dreifbýli í þessu landi. Enginn stjórnmálaflokkur hefur verið rægður eins í þéttbýli á Íslandi, hér í höfuðborginni, vegna þess að allir vissu það að þessi flokkur vildi byggja landið allt. Það var gamla stefnuskráratriði Framsfl. að vinna að framför landsins alls. Þeir sem vildu vinna að framför landsins alls vildu ekkert síður vinna að framför Reykjavíkur en annarra svæða. En þeir vildu vinna að framför landsins alls. Aftur á móti kom fram hjá hv. 5. þm. Austurl. að ríkisstjórnin verður að hafa afskipti af atvinnulífinu. Ég hef aldrei borið það á forustumenn Sjálfstfl. að þeir væru kommúnistar. En hvernig má það vera að þeir ráku bæjarútgerð ár eftir ár --- og hvað skyldu þeir vera með mörg fyrirtæki núna? Þeir hafa byggt mjög myndarlega yfir veitingahúsarekstur hér í bænum og afhent hann síðan til rekstrar. Hvað borgar leigjandinn mikið? Borgar hann eitthvað upp í fjármagnskostnað vegna þess húsnæðis? Borgar hann reksturinn, þ.e. kostnaðinn sem menn hafa af ræstingu, upphitun og öllu slíku? Nei. Hér gerist það að peningar greiðenda, sem reka hér veitingastofur í bænum, fara í að greiða þetta. Hvað væri þetta kallað annars staðar? Væri þetta ekki kallað sósíalismi?
    Reykjavíkurborg stendur að Landsvirkjun, stóru orkufyrirtæki sem á eignir í öllum kjördæmum landsins. Þetta eru ekki bara hagsmunir Reykjavíkur sem verið er að tala um. Þarna er verið að tala um atvinnurekstur, orkubúskap. Hvað er það kallað erlendis þegar menn standa að slíku? Hafa einhverjar hugmyndir komið fram hjá sjálfstæðismönnum um að selja eigi hlut Reykjavíkur í Landsvirkjun á þeirri forsendu að borgin eigi ekki að standa í svona löguðu? Aðeins einn sjálfstæðismaður hefur talað á þann veg þann tíma sem ég hef verið á Alþingi. Það var hv. þm. Albert Guðmundsson. Hinir hafa talað um það að ríkið eigi að selja sinn hluta, ekki að Reykjavíkurborg eigi að selja. Hvernig kemur þetta heim og saman við kenningarnar um það að allir aðrir séu að vinna að sósíalisma í landinu? Mér sýnist það vera út og suður.
    Ég held að rétt sé hjá hv. 5. þm. Austurl. að núv. ríkisstjórn kemst ekkert undan því að skipta sér af atvinnumálum frekar en aðrar ríkisstjórnir, hvort sem þær hafa verið leiddar af sjálfstæðismönnum, framsóknarmönnum eða alþýðuflokksmönnum, hafa komist undan því í gegnum árin.
    Hv. 3. þm. Austurl. bar félögum sínum í Sjálfstfl. sérstaklega gott orð. ( Forseti: Forseti vill aðeins fá að trufla hv. þm. í ræðu sinni og spyrja hvort hann þurfi langan tíma til að ljúka henni. Það var meiningin að gera kvöldverðarhlé á þessum fundi eins og áður hefur komið fram, en ef hv. þm. á ekki mikið eftir vill hann kannski ljúka henni en annars gera hlé.) Þannig stendur af sér að ég á þó nokkuð langan tíma eftir þannig að ef það er ákvörðun forseta að hafa hlé mun ég ekki setja mig upp á móti því, sérstaklega með tilliti til þess hve forseti var liðlegur að verða við því að láta þessa umræðu halda áfram. --- [Fundarhlé.]