Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

34. fundur
Þriðjudaginn 26. nóvember 1991, kl. 21:58:00 (1269)

     Kristinn H. Gunnarsson :
     Virðulegi forseti. Hér hafa farið fram mjög fróðlegar umræður um þennan skatt, eðli hans og tilgang og afstöðu manna til hans í gegnum tíðina sem hefur verið breytileg hjá býsna mörgum núverandi stjórnarliðum.
    Ég tek undir það með hv. 5. þm. Reykv. að mér þykir það skrýtin skilgreining á kjarki og dug að svíkja sína stefnu og stóru orðin sem menn viðhöfðu meðan þeir voru í stjórnarandstöðu og mér þykir þeir menn að meiri sem standa við sína sannfæringu án tillits til stjórnaraðildar eða ekki.
    Hvað varðar þá brtt. sem ég hef flutt þá lýtur hún að þeirri viðleitni að dreifa þessum skatti á verslunargeirann nokkurn veginn eftir efnum. Auðvitað er hugsanlega hægt að gera það með öðrum hætti og jafnvel betri nálgun en þetta er svona viðleitni til þess að menn séu nokkuð jafnbærir á að greiða þennan skatt því afkoma fyrirtækisins, veltan eða tekjurnar, er nokkur mælikvarði á það hvernig menn eru til þess búnir að borga skatt af þessu tagi. Það er óumdeilanlegt að tekjur per rúmmetra eða fermetra eru ákaflega mismunandi eftir því hvar verslunin er staðsett.
    Að því leyti er ég að reyna að koma í veg fyrir það með þessari brtt. að landsbyggðarversluninni verði íþyngt umfram þéttbýlisverslunina sem óhjákvæmilega verður ef sama prósenta er látin ganga yfir allt landið, þar sem við höfum það fyrir okkur að skattstofninn, fasteignamatið, er orðið samræmt um allt land.
    Ég hafði líka hugsað mér annan tilgang sem þessi skattur gæti þjónað og það er að vera hagstjórnartækni, vera bremsa á frekari fjárfestingar á þeim stöðum þar sem næg er fjárfestingin fyrir í þessari atvinnugrein. Það er út af fyrir sig rétt að svo virðist sem skatturinn hafi ekki verið það hér á höfuðborgarsvæðinu á undanförnum árum, eins og hann hefur verið lagður á, þannig að það má draga þá ályktun að hann hafi verið of lágur og vilji menn nota skattheimtu sem tæki til þess að koma í veg fyrir frekari fjárfestingu en nauðsynlegt er þá er trúlegt að hann yrði að vera eitthvað hærri.
    Hv. 5. þm. Reykv. spurði hvers vegna ég og aðrir þingmenn vildum ekki leggja skattinn niður og stuðla þannig að því að flytja verslunina inn í landið. Ég er ekki viss um að það hafi nokkur áhrif á það hvort verslunin flytjist inn í landið eða ekki, þótt þessi skattur verði felldur niður. Raunar getur maður bent á þá þróun innan lands að verslunin hefur verið að flytjast frá dreifbýlisversluninni yfir á höfuðborgarsvæðið þrátt fyrir að þessi sami skattstofn sé í Reykjavík. Það hefur ekki komið í veg fyrir að verslunin hér á höfuðborgarsvæðinu gæti boðið betur í samkeppninni.
    Ég held líka að skatturinn sé þrátt fyrir allt það lágur að upphæð í samanburði við

þann verðmismun sem virðist vera á vöru erlendis og innan lands að þótt hann yrði felldur niður hefði það ekki nein merkjanleg áhrif á samkeppnisstöðu innlendrar verslunar gagnvart hinni erlendu.
    Ég held að það væri meira þarfaþing fyrir verslunina á Íslandi að reyna að gera sér grein fyrir því hvernig á því stendur að svona mikill verðmismunur er á vöru hér innan lands borið saman við t.d. Írland eða England. Ég held að það besta sem við gerðum fyrir verslunina væri að reyna að draga fram skýringar á þessum mun, í hverju hann er fólginn því þá eru menn frekar til þess bærir að grípa til aðgerða sem skila árangri.
    Ég vil nefna eitt atriði sem ég tel að skipti verulegu máli, og reyndar var það að nokkru leyti verið dregið fram fyrir nokkrum árum, og það er flutningskostnaður á vöru til landsins sem er nokkuð mikill og að mínu mati óeðlilega hár og er m.a. um að kenna miklum skorti á raunhæfri samkeppni í siglingum til og frá landinu með vörur. Það er einmitt ágætt tækifæri fyrir þann flokk, Sjálfstfl., sem helst hefur lagt fyrir sig, a.m.k. í orði, að vera flokkur sem berst fyrir samkeppni, að beita sér fyrir því af einhverjum krafti að brjóta upp þá einokun sem Eimskipafélag Íslands hefur í millilandasiglingum hér á landi. Ég held að það væri það þarfasta verk sem menn geta unnið fyrir íslenska verslun.
    Ég hef þá farið nokkuð yfir þau rök mín fyrir tillögunni og svarað þeim sjónarmiðum sem fram komu í máli hv. 5. þm. Reykv. og tel í sjálfu sér ekki ástæðu til að hafa mörg fleiri orð um þetta mál annað en að ítreka að ég geng út frá því að ef það er niðurstaða manna að leggja á skatt af þessu tagi, þá er eðlilegt að það sé framkvæmt þannig að hann leggist ekki misþungt á fyrirtæki eftir staðsetningu þeirra á landinu eins og hann óhjákvæmilega gerir ef um er að ræða eina óbreytanlega prósentutölu fyrir alla.
    Hitt er svo mál sem menn geta svo sem rökrætt lengi hvort skatturinn eigi að vera, hvort hann sé réttlátur eða ranglátur, en ég vil þó segja um þennan skatt að það er býsna margt hér í þjóðfélaginu sem mér finnst ranglátara heldur en þessi skattur. Og ég er ekki tilbúinn til að byrja herferð hinna réttlátu á því að fella niður þennan skatt. Við ættum þá að bera niður annars staðar áður.