Seðlabanki Íslands

34. fundur
Þriðjudaginn 26. nóvember 1991, kl. 23:00:00 (1273)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
     Virðulegi forseti. Hér er til umræðu stórt mál, miklu stærra heldur en umfang þess frv.í máli sem hér er fram borið. Ég fór fram á það þegar þessi umræða var í gangi fyrir helgina að henni yrði frestað þar til hæstv. sjútvrh. gæti tekið þátt í henni. Ég tel að þetta mál tengist sjávarútveginum meira en nokkrum öðrum atvinnuvegi okkar.
    Hv. 4. þm. Norðurl. e. varð tíðvitnað til hinnar rauðu bókar sem kemur frá Þjóðhagsstofnun. Ekki veit ég hvort það á eitthvað skylt við litinn á bókinni en ég hef tilhneigingu til að grípa hér ofan í bláa ritið, ekki síst vegna þess að þar fer mjög vel saman hið pólitíska litróf ríkisstjórnarinnar og málflutningur í þeirri skýrslu. Það á kannski ekki síst við þar sem mjög lítið fer fyrir hinum rauða lit Alþfl. í þeirri stjórn sem nú situr. Mér finnst einkenna þessa umræðu, og einkennir of mikið stjórnmálaumræðu hjá okkur í dag og e.t.v. ekki síst hjá hæstv. núv. ríkisstjórn og hæstv. núv. viðskrh., að það er gripið til hinna einföldu aðgerða. Menn sjá lausnirnar í samningnum um Evrópskt efnahagssvæði, menn sáu lausnirnar í samningnum um álver og nú sjá menn enn eitt lausnarorðið í tengingu krónunnar við ECU. Þess vegna er það athyglisvert sem kemur fram í skýrslu Þjóðhagsstofnunar, og þeir segja beinum orðum, að tengingin við ECU sé í raun og veru einungis táknræn aðgerð til staðfestingar á markmiðum sem hægt er að ná eftir öðrum leiðum og þurfi ekki að viðhafa neina ákveðna tengingu við ákveðinn gjaldmiðil eða körfugjaldmiðla. Mér finnst áhyggjuefni að svo er komið. Framsóknarmenn, nokkrir góðir framsóknarmenn, unnu heilt sumar fyrir tveimur árum í efnahagsnefnd og komust að þeirri niðurstöðu að eitt af því sem við þyrftum að breyta væri að gera gengisstefnuna frjálsari þar sem verð gjaldmiðilsins réðist af framboði og eftirspurn og í gegnum það væri hægt að skapa frumframleiðslugreinunum eðlilegan skerf eða þann skerf sem þeim ber af þjóðartekjunum.
    Mér sýnist að það sem hér er lagt til sé að þessum frjálsa gjaldeyrismarkaði eigi að setja mjög þröngar skorður. Og þar með er tekið frá okkur hagstjórnartæki sem hlýtur að vera nauðsynlegt hjá þjóð sem býr við eins sveiflukennda atvinnuvegi og við. Ég vil bara minna á að þetta er ekkert einsdæmi hjá okkar þjóð. Ég minni á það sem hefur verið að gerast í Finnlandi síðustu mánuðina þar sem þeir hafa vegna ytri aðstæðna gengið í gegnum mikla efnahagskreppu og hafa þurft, eftir mjög skamman tíma, að víkja frá ákvörðun sinni um tengingu finnska marksins við ECU.
    Ég ætla í upphafi að vitna aðeins í bláu bókina. Ég ætla fyrst að bera niður á bls. 48. Þar kemur kafli sem heitir ,,Upphafsstaða við fastgengistengingu``, með leyfi forseta. Þar stendur þetta: ,,Til þess að unnt sé að taka ákvörðun um fasta tengingu krónunnar við ECU, eða aðra gjaldmiðlasamsetningu þarf ekki aðeins að sannreyna, að þjóðarbúið geti tekið á sig þær sveiflur, sem vænta má, að gangi yfir það, heldur verður upphafsstaðan að vera traust og samsvara þeim meðalskilyrðum þjóðarbúsins, sem sveiflurnar hverfast um. Ekki má treysta á grundvallarskilyrði fiskistofna, viðskiptakjara og framleiðni, er séu betri en að jafnaði til langs tíma litið.`` Nú hefur, virðulegi forseti, verið svo komið að alveg hefur gengið fram af þeim sem þetta semur, þannig að hann botnar málsgreinina: ,,Þetta mætti einnig orða svo, að meta þurfi, hvort gengi krónunnar verði að breyta, svo að það fái staðist slíka tengingu til lengdar.`` Þetta vekur upp ýmsar spurningar og m.a. um málfar á slíkum opinberum plöggum sem okkur eru fengin í hendur. Ég vorkenni ekki okkur þingmönnum að sitja yfir því að þýða slíkar skýrslur en mér finnst það hins vegar meira áhyggjuefni, hæstv. viðskrh., þar sem þetta kemur frá ráðuneyti sem fellur undir þann ráðherra, ef svo er komið að málfar á opinberum skýrslum hjá þjóð okkar sé orðið þannig að ekki sé hægt að ætlast til þess að hinn almenni bogari skilji hvað verið er að ræða um.
    Virðulegi forseti. Ég vil fara fram á að sjútvrh. komi í salinn þar sem kemur nú að þætti sjútvegsins í þessu máli.
    Hér segir einnig í skýrslu Seðlabankanns, með leyfi forseta, á bls. 60. ,,Loks er nauðsynlegt að meta upphafsstöðu fastgengistengingar með hliðsjón af því, hvort tilefni sé til kerfislægrar gengisbreytingar, sem þyrfti að ljúka af, áður en tengingin sé afráðin. Með kerfislægri gengisbreytingu er átt við þá, sem framkvæmd sé í eitt skipti fyrir öll til þess að veita svigrúm fyrir skynsamlegrar innbyrðis afstöður í framleiðslukerfinu, en án tilefnis ytri áfalla eða innri þenslu. Kerfislæg gengisaðlögun getur þó fallið saman við þá, sem gerð er í framvindusamhengi, og getur þá orðið örðugt um trúverðuga aðgreiningu þar á milli.`` Ekki er nema von að hæstv. sjútvrh. hristi höfuðið. En ég skil þessa langloku þannig að Seðlabankinn sé að segja að gengið sé rangt skráð, þannig að eigi að festa það til lengri tíma þurfi fyrst að eiga sér stað gengisfelling. Nú vil ég biðja hæstv. sjútvrh. og hæstv. viðskrh. að greina mér frá því í svörum sínum á eftir hvernig þeir túlka þessa málsgrein.
    Síðan er haldið áfram: ,,Gengisskráning krónunnar hefur að miklu leyti tekið mið af rekstrarafkomu sjávarútvegsins, ýmist beint eða í krafti hins mikla vægis hans í útflutningstekjum. Hann hefur þá sérstöðu að nýta afgjaldsfrjálsa sameiginlega og takmarkaða auðlind. Af því leiðir, að hagur einkaaðila af að nýta þessa auðlind gengur mun lengra og nær fiskstofnum heldur en svarar til þjóðhagslegrar hagkvæmni. Þegar þannig er komið að mörkun afrakstursgetu veiðistofnanna og veita þarf frekari hvatningar til þróunar atvinnuvega, á sú hvatningarþörf ekki við um sjávarútveginn, sem þá mundi eyða meiri verðmætum til að sækja óbreyttan afla eða gengi á sjálfa stofnana. Leiðin til lausnar þessum vanda er að jafna metin með sérstöku gjaldi á veiðarnar, svo sem fiskihagfræðin leggur áherslu á, eða takmarka veiðarnar með aflakvótum eða sóknarmarki. Fyrri leiðin samrýmist frjálsræði í athöfnum og jafnræði til tekjuöflunar, en hin síðari byggist á úthlutun verðmætra réttinda til sumra umfram aðra.``
     Það kemur mjög greinilega fram í skýrslu Seðlabankans að þeir setja tengingu krónunnar við ECU í samhengi við upptöku auðlindaskatts á sjávarútveginn. Ég mun í framhaldi af þessu varpa fram þeirri spurningu til hæstv. ráðherranna beggja hvort þeir séu sammála þeirri skoðun sem hér er sett fram að gengið hafi um árabil miðast við þarfir sjávarútvegsins. Ég sé að hæstv. sjútvrh. hristir höfuðið og ég er honum alveg sammála. Ég held ef við skoðum framvindu sögunnar að gengið hafi því miður miklu oftar miðast við neysluna og þarfir innflutnings og þjónustu. Síðan er önnur spurning sem ég ætla að varpa fram til hæstv. viðskrh.: Hvaða trygging er fyrir því að áhrif kerfislægrar gengisaðlögunar, eins og Seðlabankinn nefnir hér, eyðist ekki í tímans rás eins og áhrif annarra gengisfellinga sem hér hafa verið gerðar?
    Ég mun næst vitna í ræðu hæstv. viðskrh. á iðnþingi nú fyrir nokkru. Þar kemur einmitt fram þessi skoðun hans að hægt sé að aðlaga rekstrarskilyrði sjávarútvegsins í eitt skipti fyrir öll.
    Ég gríp, með leyfi forseta, niður í ræðu hæstv. viðskrh. þar sem hann hefur rætt um breytingar í efnahagslífi okkar og segir síðan: ,,Núv. ríkisstjórn hefur haldið og mun halda þessu starfi áfram. Tekin hefur verið ákvörðun um að stefna þegar á þessum vetri að myndun virks gjaldeyrismarkaðar hér á landi. Gerðar verða ráðstafanir til að hægt verði að tengja íslensku krónuna við ECU til að staðfesta stefnu stöðugleika í gengi. Á það mun reyna á næstu missirum hvort þetta tekst. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að dregið verði úr vægi verðtrygginga fjárskuldbindinga jafnfram opnun fjármagnsmarkaðarins`` o.s.frv. Síðan kemur fram í næsta kafla ræðunnar að hæstv. viðskrh., eins og Seðlabankinn, setur þetta í samhengi við upptöku veiðileyfagjalds. Ég ætla ekkert að þreyta hæstv. viðskrh. með því að lesa hér millikafla sem er um uppbyggingu álvera. Síðan kemur aftur, með leyfi forseta:
    ,,Í því sambandi er að mínu áliti einna mikilvægast að jafna til frambúðar það misvægi milli atvinnuvega sem felst í starfsumhverfi þeirra hér á landi. Meðan sjávarútvegurinn fær endurgjaldslausan aðgang að þeim ríkulegu sjávarauðlindum mun þetta misvægi haldast.
    Ég vona að núverandi ríkisstjórn og Alþingi beri gæfu til að jafna stöðu atvinnuveganna með veiðileyfagjaldi eða leigu í einhverri mynd. Slíkt leigugjald er unnt að taka upp í áföngum án þess að íþyngja í raun sjávarútveginum. Sé tekið tillit til hennar í gengisskráningu og öðrum ákvörðunum stjórnvalda, sem áhrif hafa á sjávarútveginn, getur gjaldtakan í raun verið hlutlaus gagnvart fjárhagsstöðu sjávarútvegsins. Veiðileyfagjald mun færa ríkissjóði tekjur sem m.a. mætti nota til að lækka virðisaukaskattinn sem aftur mundi auka viðskipti og veltu innan lands.``
    Nú vil ég spyrja hæstv. sjútvrh., er hann sammála þeirri skoðun hæstv. viðskrh., að hægt sé að leggja á veiðileyfagjald sem í raun sé hlutlaust og muni ekki íþyngja sjávarútveginum? Þetta virðist byggja á þeirri skoðun, sem fram kemur í skýrslu Seðlabankans,

að með kerfislægri gengisaðlögun, ef ég man rétt, sé hægt að aðlaga þannig starfsskilyrði sjávarútvegsins í eitt skipti fyrir öll, að þaðan í frá muni veiðileyfagjald ekki vera íþyngjandi fyrir hann. En það kemur þrátt fyrir þetta fram í sömu málsgrein hjá hæstv. viðskrh. í þessari ræðu að veiðileyfagjaldið á að færa ríkissjóði tekjur til að hægt sé m.a. að lækka virðisaukaskatt. Hér er komið að einhverri hagfræði sem mér er ómögulegt að skilja. Það er hægt að leggja skatt á heila atvinnugrein til að standa undir sameiginlegum sjóðum þjóðarinnar án þess að það sé íþyngjandi fyrir hana. Ég ítreka þessa spurningu til hæstv. sjútvrh.: Telur hann að þetta standist í raun?
    Ég vil í framhaldi af þessu fara fram á við hæstv. viðskrh. að hann útfæri fyrir okkur í þessari umræðu eða sýni okkur útfærðar hugmyndir sínar um upptöku veiðileyfagjalds. Flóran er nefnilega nokkuð fjölskrúðug þegar að því kemur að menn fari að rökstyðja sitt mál. Ég vil varpa hér fram örfáum spurningum.
    Í fyrsta lagi. Á að leggja veiðileyfagjaldið á við núverandi aðstæður, þ.e. með gjaldtöku á þær aflaheimildir sem nú eru við lýði eða er meiningin að aflaheimildirnar séu settar á uppboð og það sé hæstbjóðandi sem hljóti hnossið og á þann hátt eigi að pína fram hagræðingu í sjávarútvegi? Það er algerlega nauðsynlegt að það komi fram hvora leiðina hæstv. viðskrh. vill fara.
    Í öðru lagi. Hvað með skiptahlut sjómanna? Eiga sjómennirnir að taka þátt í veiðileyfagjaldinu út frá þeirri röksemdafærslu að þetta gjald sé ekki íþyngjandi fyrir sjávarútveginn? Þá væri rökrétt að þeir ættu að borga sinn skref af sínum aflakvóta. Ef ekki og til ætti að koma, áður en til þessara aðgerða er gripið, kerfislæg gengisaðlögun sem ég þýði sem gengisfellingu og síðan ætti aflagjaldið ekki að vera tekið af aflahlut sjómanna eins og útgerðarinnar, þá þýddi það að þarna væri verið að raska verulega tekjuskiptingunni á milli sjómanna og hins vegar landverkafólks sem yrði að bera kostnaðinn eins og aðrir af gengisfellingunni.
    Ég spyr líka hæstv. viðskrh.: Hvaða gróði það er sem sægreifarnir eru að sækja. Sægreifarnir eru væntanlega þeir sem eru að selja aflaheimildir. Hvað eru þessir aðilar í raun að framselja? Eru þeir ekki að framselja skuldbindingar sem þeir hafa óhjákvæmilega þurft að taka á sig til að geta nytjað þessa auðlind?
    Ég sé að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hristir höfuðið. ( Gripið fram í: Ég heyrði það.) Ekki sagði ég að ég hefði heyrt að hann hristi höfuðið, en við gætum farið yfir þessi dæmi. Vissulega er hægt að finna dæmi þess að einhver hafi komist yfir einhverjar eignir í tengslum við hagræðingu í sjávarútvegi vegna sölu veiðiheimilda. En ég held hins vegar að hitt sé miklu algengara að salan hafi verið jöfnuð út með þeim skuldbindingum sem menn væru búnir að taka á sig áður.
    Ég vil einnig spyrja hæstv. viðskrh.: Hvað með þá aðra aðila sem nýta íslenskar auðlindir? Hvað með Kísiliðjuna í Mývatnssveit? Á hún ekki að borga fyrir sitt hráefni? Hvað með þá sem byggja á ferðaþjónustu? Eiga þeir ekki að borga fyrir afnot af auðlindum landsins? Hvað með íslenska bændur? Eiga þeir ekki að borga auðlindaskatt fyrir afnot af landinu? Þannig mætti lengi spyrja.
    Ég ætla í þessu sambandi að koma að eilítið annarri hlið þegar rætt er um gjaldtöku á sjávarútveginn. Það er þáttur Efnahagsstofnunar Háskóla Íslands en það er að mínu mati áhyggjuefni hvern málflutning forstöðumenn svo virðulegrar stofnunar leyfa sér að hafa frammi þegar kemur að umræðum um atvinnulíf þjóðar okkar. Sá málflutningur, sem fulltrúar hennar hafa haft uppi í þessu máli, er ekki sæmandi svo virðulegri stofnun. Þetta hefur líka verið áberandi í málflutningi þessarar stofnunar, Efnahagsstofnunar Háskóla Íslands, gagnvart íslenskum landbúnaði. Ég hef séð fulltrúa Háskóla Íslands, virðulegur mann, prófessor við Háskóla Íslands, halda því fram í greinaskrifum um íslenskan landbúnað að

reiknuð markaðsvernd, það er tala sem er mismunurinn á innlendu framleiðsluverði búvara og því sem væri hægt að fá slíkar vörur á lægstu spottmörkuðum á heimsmarkaði, sé peningar sem komi úr sameiginlegum sjóðum landsmanna, úr ríkissjóði. Því miður er það svo að málflutningurinn gagnvart auðlindaskattinum frá þessum aðilum er ósköp svipaður. Ég man eftir nokkrum þessara manna úr skóla norður frá Akureyri fyrir 20 árum síðan. Þeir gengu þá með svartar ,,spanjólur`` og trúðu á Marx og Lenin. Það segir kannski sína sögu. Þeir menn hafa yfirleitt ekki færst til þroska með árunum heldur hefur það oftast gerst að þeir hafa á einhverjum tímapunkti umpólast.
    Ég ætla í þessari umræðu um auðlindaskattinn og hvernig menn tengja hann upptöku ECU að fara örfáum orðum um ræðu hæstv. sjútvrh. sem hann flutti á aðalfundi LÍÚ, með leyfi forseta:
    ,,Síðustu mánuði hefur umræðan um skattheimtu í sjávarútvegi verið fyrirferðarmikil í þjóðfélaginu. Að baki búa að mestu leyti ólík tilfinningasjónarmið og þekkingarskortur. Hugmyndir þessar eru bæði sundurlausar og óljósar. Það eina sem virðist sameina fylkingar hinna nýju skattheimtumanna Íslands eru slagorðin eins og sægreifar og samlíking um það hverjir ferðist á fyrsta farrými og hverjir í gripalest. Fjölmiðlar hafa meiri áhuga á gaspri af því tagi en raunverulegum efnahagslegum staðreyndum og rökum í málinu. Það lýsir best veikum málflutningi nýskattheimtumanna þegar kennarar við Háskóla Íslands treysta sér ekki til að fá athygli fjölmiðlanna nema byggja málflutning sinn á slíkum slagorðum.``
    Hæstv. sjútvrh. segir: ,,Fjölmiðlar hafa meiri áhuga á gaspri af því tagi en raunverulegum efnahagslegum staðreyndum.`` Þess vegna spyr ég hæstv. sjútvrh.: Flokkar hann málflutning hæstv. viðskrh. í ræðu sem hann flutti á iðnþingi sem gaspur af þessu tagi eða gerir hann einhvern greinarmun á málflutningi hæstv. viðskrh. um upptöku veiðileyfagjalds og annarra í okkar þjóðfélagi?
    Seinna í ræðu sinni segir hæstv. sjútvrh., með leyfi forseta:
    ,,Þannig kemur í ljós þegar farið er yfir málflutning nýskattheimtumannanna að hann er ýmist órökstuddur með öllu eða illa grundaður. Augljóst er að röksemdir ganga út og suður og þvert á aðrar. Hér er því hvergi heila brú að finna.``
    Þetta er þungur dómur yfir skoðunum samráðherra um málaflokk þess hæstv. ráðherra sem þessi orð lét falla.
    Að lokum, virðulegi forseti, ætla ég að vitna í ræðu hæstv. sjútvrh. þegar hann dregur saman mál sitt í lokin. Þá segir hann:
    ,,Í fyrsta lagi væru þeir`` það eru þeir sem vilja taka upp auðlindaskattinn, ,,að veikja undirstöðu verðmætasköpunar og velferðar í landinu. Í öðru lagi að stuðla að ójöfnuði á milli fólks í framleiðslu annars vegar og neyslu og þjónustu hins vegar og í þriðja lagi að breikka gjána milli þéttbýlis og dreifbýlis.``
    Nú vil ég spyrja hæstv. viðskrh. hvort hann sé sammála þessum samandrætti samráðherra síns, hæstv. sjútvrh. um afleiðingar upptöku veiðileyfagjalds í sjávarútvegi? Ég held að við þingmenn eigum fulla heimtingu á því að þessir hæstv. ráðherrar geri þingheimi grein fyrir skoðunum sínum á Alþingi en láti ekki við sitja að lýsa þessum skoðunum á ársfundum hagsmunasamtaka úti í bæ.
    Það er ýmislegt sem mætti tína til til viðbótar varðandi tenginguna við ECU. Ég ætla að lokum að koma að einu atriði og þar minni ég fyrst á þá skoðun Þjóðhagsstofnunar að hér sé einungis um að ræða táknrænt atriði. Það sem ég ætla að koma að er að samkvæmt báðum skýrslunum er verið að breyta áhættuþættinum í utanríkisverslun okkar á þann hátt að áhættan í verslun við Evrópuríkin minnkar eðlilega þar sem gjaldmiðill yrði tengdur við Evrópugjaldmiðla en áhættan við utanríkisviðskipti og útflutningsverslun við

aðra heimshluta mundi aukast eins og þar væru menn að taka áhættu vegna sveiflna sem á gjaldmiðli þeirra mundi ganga í aðra átt en í Evrópu. Ég hef alla tíð verið Evrópusinni. Ég held að menningarlega eigum við þar samleið miklu frekar en annars staðar í heiminum. Hins vegar er ég líka þeirrar skoðunar að við eigum að búa þannig um hnútana að við eigum sem auðveldast með að stunda útflutning okkar, sem er okkur svo mikilvægur, hvert sem er í heiminum. Þess vegna sé ég ekki í fljótu bragði rökin fyrir því að fasttengja krónuna við ECU ef það er bara táknræn aðgerð, ef það getur haft skaðvænleg áhrif gagnvart viðskiptum okkar við aðra heimshluta. Og ég veit og hef fyrir því heimildir að þeir, sem eru að vinna fyrir okkur í útflutningsverslun vestur í Bandaríkjunum, hafa af þessu miklar áhyggjur.
    Þetta er líka áhyggjuefni að mínu mati ef svo fer að ekki næst sá árangur í alþjóðaviðræðum um tollamál sem vænst er núna og sú staða kemur upp að heimsbyggðin skiptist í þrjár viðskiptablokkir. Í þeirri stöðu verðum við að hafa aðstöðu til að geta stundað okkar viðskipti í hvaða átt sem er.
    Virðulegi forseti. Ég fer að ljúka máli mínu en ég ætla að lokum að minnast örfáum orðum á þau óbeinu orðaskipti hæstv. forsrh. og hæstv. sjútvrh. í útvarpsfréttum í kvöld þar sem kom fram verulegur skoðanaágreiningur um stöðu sjávarútvegsins og þörfina á því að grípa til aðgerða. Þetta vekur margar spurningar og áleitnar hugsanir og það er eftirtektarvert að hæstv. forsrh. situr hér þolinmóður undir ræðum okkar stjórnarandstæðinga en virðist síðan nota hvert tækifæri sem býðst til að berja á stjórnarliðum og jafnvel sínum samráðherrum. Virðulegi forseti. Ég verð eiginlega að segja að mér finnst þetta ekki vænlegt til árangurs og við þurfum ekki að búast við miklum árangri af ríkisstjórn sem lýtur slíkri forustu. Því miður datt allt of mörgum það í hug á sl. vori en það er nú væntanlega ekki lengur.
    Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu, í það minnsta fyrri ræðu við þessa umræðu.