Seðlabanki Íslands

34. fundur
Þriðjudaginn 26. nóvember 1991, kl. 23:34:00 (1274)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
     Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að fara aðeins aftur í aldir til að byrja með eins og ég geri oft að vana mínum. Íslendingar hafa löngum verið forlagatrúar en í því felst að allt sé fyrir fram ákveðið og að ekki verði vikist undan örlögunum. Nú falla öll vötn til Dýrafjarðar, sagði Vésteinn í Gísla sögu Súrssonar er honum var ljóst að skapanornir höfðu ofið honum örlög. Dýrafjörður hæstv. ríkisstjórnar er Evrópa, gott ef ekki Evrópubandalagið. Þangað falla nú öll vötn og engu líkara en hæstv. ríkisstjórn trúi því statt og stöðugt að undan aðlögun að öllu því sem evrópskt er verði ekki vikist. Að sjálfsögðu þarf að þróa atvinnulíf, bankastarfsemi, viðskipti og laga þessa þætti þjóðlífsins að nútímaviðskiptaháttum eftir því sem okkur hentar best. En mér virðist sem Evrópu-hugsjónin sé þar alls ráðandi og fullmikil einstefna ráði för. Það er margt gott til Evrópu að sækja og þær þjóðir sem þar búa eru okkur skyldastar í menningu og lifnaðarháttum. En heimurinn er stærri og hefur upp á fleiri kosti að bjóða.
    Hvert frv. á fætur öðru berst inn í þingsali undir þeim formerkjum að nú eigi að laga lög, reglur og stofnanir að evrópskum veruleika löngu áður en hið háa Alþingi hefur tekið afstöðu til samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði. Að vísu geta stjórnvöld ákveðið að tengjast Evrópu þótt enginn samningur komi til, einfaldlega vegna þess hve vægi Evrópu er mikið í viðskiptum Íslendinga nú um stundir. En það er alveg ljóst hvað er á ferð.
    Í grg. þess frv. sem hér er til umræðu segir, með leyfi forseta: ,,Til að skapa nauðsynlegar forsendur fyrir því á fjármagns- og gjaldeyrismarkaði að unnt sé að tengja gengi

krónunnar við ECU með trúverðugum hætti þurfa að koma til veigamiklar skipulagsbreytingar. Þar er um að ræða nauðsyn þess að rýmka reglur um skilaskyldu á erlendum gjaldeyri til að unnt sé að byrja að þróa gjaldeyrismarkað, styrkja stjórntæki Seðlabankans í peningamálum og afla lagaheimilda til að gengi krónunnar geti ráðist af framboði og eftirspurn á markaði.``
    Af þessu orðum má ljóst vera að stefnan hefur verið tekin á tengingu við hina evrópsku gjaldmiðla ECU. Er þar fetað í fótspor annarra þjóða á Norðurlöndum. Ég tel vel koma til greina að skoða ECU-tengingu rétt eins og aðra möguleika sem snúa að því að koma skikki á gengisskráningu íslensku krónunnar. Með slíkri tengingu er hugsanlegt að skapa aukinn stöðugleika og aga með því atvinnulífið. En áður en það verður gert þurfa að koma til ákveðin skilyrði. Í mínum huga snýst sú umræða sem þarf að fara fram um þetta mál ekki um réttmæti ECU-tengingar eða annarrar tengingar íslensku krónunnar við erlenda gjaldmiðla heldur um það hvort sú lagaheimild sem farið er fram á í þessu frv. sé tímabær og hvort það sé rétt af Alþingi að veita ríkisstjórninni og Seðlabankanum það vald að ákveða gengi íslensku krónunnar með þessum hætti við þær aðstæður sem nú ríkja í þjóðfélaginu og fram undan eru. Treystum við hæstv. ríkisstjórn til að fara með þetta vald?
    Í sumar er leið bað hæstv. viðskrh. Seðlabankann og Þjóðhagsstofnun um álit á hugsanlegri ECU-tengingu. Niðurstaða beggja þessara stofnana var sú að ECU-tenging væri ekki tímabær að sinni. Í skýrslu Seðlabankans var nefnt árið 1993 en tekið fram að áður yrðu að eiga sér stað veigamiklar breytingar á gjaldeyrismálum og í hagstjórn. Í skýrslu Þjóðhagsstofnunar segir, með leyfi forseta: ,,Stjórn efnahagsmála þarf að gerbreyta. Stefnan í ríkisfjármálum og peningamálum verður að styðja fastgengisstefnuna með því að tryggja að heildareftirspurn í efnahagslífinu samrýmist hverju sinni stöðugleika í verðlagsmálum. Þetta yrði mikil breyting frá þeirri stefnu sem fylgt hefur verið undanfarna áratugi.`` Það er sem sagt kallað á gagngera stefnubreytingu í efnahagsstjórn landsins eigi ECU-tenging að koma til greina.
    Þá er á það bent í skýrslu Þjóðhagsstofnunar að koma verði á fót markaði með erlendan gjaldeyri eins og stefnt er að í því frv. sem hér er til umræðu. En jafnframt segir þar, með leyfi forseta: ,,Rétt er að vekja athygli á því að Norðmenn, Svíar og Finnar höfðu mikla reynslu af þessu fyrirkomulagi áður en þeir tóku ákvörðun um að tengja gjaldmiðla sína ECU.`` Enn fremur er á það bent í skýrslu Þjóðhagsstofnunar að áður en kemur að ECU-tengingu þurfi að eiga sér stað breyting í launamálum. Í skýrslunni segir, með leyfi forseta: ,,Að baki ákvörðuninni um almenn laun og kjör verður að liggja raunsætt mat á efnahagslegum forsendum. Í þessu felst í stórum dráttum að almennar launabreytingar (í krónum talið) verða að vera í hátt við þróun þeirra í helstu viðskiptalöndum ef hagvöxtur er svipaður. Þegar skilyrði þjóðarbúsins eru óhagstæð er hins vegar óhjákvæmilegt að almenn laun hækki minna en í viðskiptalöndum og jafnvel lækki í krónum talið ef þjóðarbúið hreppir mikinn andbyr.`` Enn segir í skýrslu Þjóðhagsstofnunar, með leyfi forseta: ,,Trúverðug fastgengisstefna gerbreytti starfsskilyrðum sjávarútvegsins.`` Nokkru síðar segir: ,,Til þess að fastgengisstefna geti talist raunhæf er hins vegar óhjákvæmilegt að skapa þau skilyrði að sjávarútvegsfyrirtækin verði almennt rekin með verulegum hagnaði í góðæri og geti þolað tap í hallæri.`` Þetta þýðir að áður en ECU-tenging kemur til greina þarf að gjörbreyta hagstjórn, koma á jafnvægi og stöðugleika í efnahagslífinu, koma á fót gjaldeyrismarkaði, laga launamarkaðinn að því sem gerist í helstu viðskiptalöndum og sjá til að sjávarútvegsfyrirtækin verði almennt rekin með verulegum hagnaði. Þetta er ekkert smáverkefni í litlu landi. Ég vil spyrja hæstv. viðskrh. hvort hann sé sammála þessari greiningu Þjóðhagsstofnunar á þeim skilyrðum sem þurfi að vera til staðar.

    Það tekur tíma að breyta rótgrónum hagstjórnaraðferðum hvort sem þær hafa reynst vel eða illa. Skýrsluhöfundar mæla með því að góður tími verði tekinn í að þróa gjaldeyrismarkað. Við hljótum að spyrja hvort hið íslenska hagkerfi með öll sín smáu fyrirtæki og 255.000 manns sé nógu burðugt til að halda uppi þeim frjálsa gjaldeyrismarkaði sem krafist er. Hvað þarf til að slíkur markaður gangi upp?
    Ég get ekki gert mér grein fyrir því hver stærðargráðan þarf að vera, þ.e. gjaldeyrisveltan, en reynslan kennir okkur að markað sem stjórnast af framboði og eftirspurn þarf að undirbúa afar vel og kynna rækilega. Reynslan af húsbréfakerfinu ætti að vera okkur víti til varnaðar. Þar hefur hin ósýnilega hönd markaðskerfisins verið upptekin við eitthvað allt annað en að stýra markaðnum og hluti viðskiptavinanna bara kaupir og kaupir og tapar og tapar þegar þeir ættu að halda að sér höndum. Þetta segir mér að Íslendingar kunna ekkert á svona kerfi. Verulegt uppeldisstarf þarf að eiga sér stað bæði meðal atvinnurekenda og launafólks áður en eðlilegt ástand skapast. Við gætum nefnilega staðið frammi fyrir því að gjaldeyrinn færi eitthvert allt annað en inn á hinn frjálsa galdeyrismarkað. En slíkt er vel þekkt frá ríkjum þar sem stöðugleiki efnahagslífsins er ekki allt of mikill.
    Varðandi vinnumarkaðinn er hollt að minnast þess að á undanförnum áratugum hefur hann einkennst af miklum óróa. Kjararýrnun hefur verið veruleg ef horft er nokkur ár aftur í tímann og allsendis óljóst á þessu augnabliki hvert stefnir í þróun kjarasamninga. Þá er Bleik brugðið ef samtök launafólks á Íslandi sætta sig við launalækkanir og betur heima setið en af stað farið ef ECU-tenging kemur í veg fyrir þá nauðsynlegu uppstokkun á íslensku launakerfi sem þarf að eiga sér stað, einkum í þágu kvenna. Það er því miður harla fátt sem bendir til verulegs eða nokkurs hagnaðar í íslenskum sjávarútvegi á næstunni, með undantekningum þó. Af þessu öllu mál ljóst vera að það þurfa að líða meira en eitt ár eða tvö áður en ECU-tenging reynist raunhæf.
    Skýrslur Seðlabankans og Þjóðhagsstofnunar voru gefnar út í september áður en ljóst var að um verulegan aflasamdrátt yrði að ræða á næsta ári og áður en því var lýst yfir að ekkert yrði úr byggingu álvers að sinni. Það má því ljóst vera að þegar Seðlabankinn lét í ljós þá skoðun að hugsanlega yrði tímabært að tengja íslensku krónuna við ECU árið 1993 byggðist sú skoðun á öðrum efnahagsforsendum en nú blasa við. Við erum því miður enn á leið niður í öldudal og því fátt sem bendir til þess að hér takist að skapa nauðsynlegar forsendur á næstu árum sem leyfa jafngagngerar breytingar og lagðar eru til í þessu frv.
    Frá stríðslokum hefur íslenskt efnahagslíf einkennst af miklum sveiflum. Þær eiga rætur að rekja til ýmist mikils afla eða aflabrests, til þess að verð á fiskafurðum hefur verið í hámarki eða tekið miklar dýfur eftir ástandi heimsmála, framboði keppinauta og eftirspurn á heimsmarkaði. Þá hefur brokkgeng stjórn efnahagsmála heima fyrir iðulega haft miður góð áhrif á ástandið. Því miður bendir fátt til þess að sá tími sé runninn upp er þjóðlífið líði áfram í hægum jöfnum straumi þess stöðugleika sem ríkisstjórnin segir hornstein stefnu sinnar. Þvert á móti horfum við fram á samdrátt, versnandi kjör, gjaldþrot og nauðsynlega sameiningu fyrirtækja sem sennilega mun leiða af sér tilfinnanlegt atvinnuleysi. Sjávarútvegurinn stendur víða höllum fæti og það er afar ólíklegt að á næstu árum takist að mynda þá sveiflujöfnunarsjóði sem nauðsynlegir eru eigi ECU-tenging að koma til greina. Á slíkum tímum, sem ég hef hér verið að lýsa, verður tenging við ECU því harla fjarlæg. Það væri mjög óráðlegt af stjórnvöldum að lýsa opinberlega yfir því markmiði sínu að tengjast ECU fyrr en ljóst verður að íslenskt efnahagslíf er á leið upp úr öldudalnum og slík tenging nálgast það að verða raunhæf. Það yrði mikið áfall fyrir íslenskt efnahagslíf ef krónan okkar stæðist ekki þau mörk sem sett yrðu og við megum ekki við

fleiri áföllum. Þegar við okkur blasir betri tíð með blóm í haga þarf svo að skoða málið upp á nýtt. Það getur heldur ekki verið rétt af stjórnvöldum að afsala sér því hagstjórnartæki sem gengisstýring er meðan svo dökkt er fram undan. Með þessum orðum er ég ekki að mæla með gengisfellingu og vona svo sannarlega að til hennar komi ekki. Við skulum hins vegar minnast þess að fyrir aðeins fáeinum dögum urðu Finnar að láta undan síga. Gengi finnska marksins féll verulega vegna þeirra þrenginga sem yfir Finna hafði gengið í kjölfar breytinganna miklu í Sovét, hvort sem orsakir þeirra má rekja til síðari byltingarinnar svokölluðu eður ei. Gengisfelling finnska marksins er verulegt áfall fyrir finnskt efnahagslíf og sýnir að í raun stóðst tengingin við ECU ekki þegar á reyndi. Mín niðurstaða er því sú, virðulegi forseti, að þrátt fyrir að tenging við ECU þarfnist verulegs undirbúnings sé þetta frv. ekki tímabært. Ég tel affarasælast að bíða átekta, sjá hverju fram vindur í efnahagsmálum og gæta þess að gefa ekki út neinar ótímbærar yfirlýsingar um okkar viðkvæmu krónu.
    Ég vil því beina þeirri spurningu til hæstv. viðskrh. hvort hann telji að nauðsynlegar aðstæður muni verða til staðar eftir u.þ.b. tvö ár og hvort hann telji raunhæft að fylgja málinu fast eftir við núverandi aðstæður. Ég vil einnig beina þeirri spurningu til hæstv. sjútvrh. hvort hann telji að staða sjávarútvegsins leyfi þá breytingu sem hér er lögð til. Við skulum ekki gleyma því að í frv. einu og sér felst ákveðin yfirlýsing af hálfu stjórnvalda. Ég tel ekki rétt að Alþingi veiti ríkisstjórninni og Seðlabankanum það mikla vald sem farið er fram á í frv. því sem hér er til umræðu við þær aðstæður sem nú ríkja. Þótt hæstv. viðskrh. sé maður rólegur og kurteis og ólíkur sumum samráðherrum sínum að því leyti sýnist mér á framsögu hans í málinu að hann sé býsna ákveðinn í að koma því í gegn. Róa niður ána og út á Dýrafjörð hvað sem tautar og raular. Ég held að við hin, sem hér sitjum ættum að taka af honum bátinn áður en lagt verður upp í ótímabæran róður á meðan veður eru válynd. Öll él birtir upp um síðir og þegar það gerist skulum við sjá hvort við getum ekki sameinast um gengisstefnu sem horfir til framfara og styrkir jafnt stöðu atvinnurekstrar sem launafólks hvort sem þá verður horft til Evrópu eða út í hinn stóra heim.