Tilkynning um utandagskrárumræður

35. fundur
Miðvikudaginn 27. nóvember 1991, kl. 13:32:00 (1277)

     Steingrímur J. Sigfússon (um þingsköp) :
     Hæstv. forseti. Þegar ég óskaði eftir umræðu utan dagskrár um breytt viðhorf í samningaviðræðum EFTA-ríkjanna og Evrópubandalagsins um Evrópskt efnahagssvæði gerði ég það á grundvelli þeirra frétta sem fyrir lágu í gærkvöldi um breyttar forsendur í málinu. Síðan hefur enn dregið til tíðinda og nú síðast í hádegisfréttum var upplýst að mikilvægustu hagsmunasamtök sjávarútvegsins í þessu sambandi hefðu formlega afturkallað stuðning sinn eða meðmæli með samningnum. Í ljósi þessa og enn fremur hins að samkvæmt blaðafréttum í morgun er fullyrt að hæstv. utanrrh. hafi þegar veitt samningamanni Íslands heimild til að undirrita samningana hlýt ég, í ljósi þessara breyttu aðstæðna, að fara fram á það við forseta og hæstv. utanrrh. að það verði athugað á þeim tíma sem til stefnu er hvort ekki er óhjákvæmilegt að umræðan verði ótímabundin þar sem nægur tími gefist til þess að ræða þá mjög svo alvarlegu stöðu sem er í málinu eins og ég hef gert grein fyrir. Ég fer sem sagt fram á það að hæstv. forseti athugi hvort ekki er óhjákvæmilegt að verða við óski minni um að þetta breytist í ótímabundna umræðu.