Ummæli forsætisráðherra í fjölmiðlum um umræður á Alþingi um þyrlukaup

35. fundur
Miðvikudaginn 27. nóvember 1991, kl. 13:36:00 (1279)

     Ingi Björn Albertsson :
     Hæstv. forseti. Sá leiði atburður átti sér stað í gær að hæstv. forsrh. ræddi við útvarpsstöðvar og sjónvarpsstöðvar um umræðurnar sem fram fóru á mánudaginn varðandi þyrlukaup. Í þeim útvarps- og sjónvarpsviðtölum viðhafði hæstv. forsrh. afar óviðurkvæmileg orð og ódrengileg og ósmekkleg að mínu viti. Hann vó þar að æru nokkurra þingmanna sem töluðu í því máli og þó alveg sérstaklega að æru þess sem hér stendur.
    Það kom fleira fram í viðtölunum. Það kom berlega fram að það er stefnubreyting í þyrlukaupamálum hjá ríkisstjórninni þar sem hæstv. forsrh. viðraði ákveðnar hugmyndir sem ekki komu fram daginn áður þegar fagráðherra fjallaði um málið.
    Í morgun fór ég þess á leit við hæstv. forseta að ég fengi að eiga orðastað við

hæstv. forsrh. og krefja hann svara á þessum tveimur þáttum, annars vegar á þeim ærumeiðandi ummælum er hann viðhafði og hins vegar um þá nýju stefnu sem hann er að boða í þyrlukaupamálum. Það er skemmst frá því að segja að hæstv. forseti samþykkti þessa utandagskrárumræðu en hæstv. forsrh. hafnaði henni. Nú tel ég að samkvæmt þingskapalögum sé það ótvíræður réttur þingmanna að geta átt orðastað við ráðherra ef hann á annað borð getur verið viðstaddur, en eins og þingheimur sér er hæstv. forsrh. í salnum í dag. Því miður hlýtur sú spurning því að vakna hver stýrir. Í mínum huga er það forseti þingsins sem stýrir því hvort utandagskrárumræður eru leyfðar eða ekki en ekki einstaka ráðherrar og það fordæmi sem er verið að setja er ekki gott. Ég vil í því tilefni, hæstv. forseti, fá að rifja upp 50. gr. þingskapalaga en hún hljóðar svo að hluta til:
    ,,Í allt að hálftíma á venjulegum fundartíma geta þingmenn fengið tekið fyrir mál utan dagskrár, hvort heldur er í formi yfirlýsingar eða fyrirspurnar til ráðherra. Skal þá þingmaður bera fram við forseta ósk sína hér um eigi síðar en tveimur klukkustundum áður en þingfundur hefst.``
    Þessum skilyrðum var fullnægt.
    Ég skil því miður ekki hvers vegna hæstv. forsrh. treystir sér ekki í umræðuna. Ég mundi skilja það ef hæstv. forsrh. bæði afsökunar á ummæluunm í þeim fjölmiðlum þar sem hann lét þau falla og þá væri málið búið hvað mig varðar. Ég vil trúa því að þetta hafi verið mistök og ég vona að það komi fram því að þjóðin á ekki skilið slíkan málflutning eins og þarna fór fram.
    Hæstv. forseti. Ég vil fá úr því skorið hvort ég hef þann almenna rétt þingmanna að fá að ræða þetta mál við hæstv. forsrh. eður ei. Hafi ég hann ekki og fái ég það ekki mun ég nýta mér þingskaparétt minn til að ræða það frekar hér á eftir.