Ummæli forsætisráðherra í fjölmiðlum um umræður á Alþingi um þyrlukaup

35. fundur
Miðvikudaginn 27. nóvember 1991, kl. 13:43:00 (1282)

     Hjörleifur Guttormsson :
     Virðulegur forseti. Ég blanda mér í umræðuna eingöngu vegna þingskapa. Ég held að það sé mikill misskilningur á ferðinni hjá hæstv. forseta að ráðherra þurfi að fallast á þátttöku í umræðu utan dagskrár. Ég les ekkert út úr þeirri grein þingskapalaga sem fjallar um þetta og varðar styttri form utandagskrárumræðu sem gerir það skilyrt að ráðherra fallist á þátttöku í viðkomandi umræðu. Það er þingmaðurinn sem hefur réttinn til þess að taka upp hvaða mál sem er til umræðu utan dagskrár. Síðan verður það að ráðast hvort viðkomandi ráðherra eða aðrir ráðherrar blanda sér í þá umræðu. Þetta held ég að sé alveg skýlaust samkvæmt þingskapalögum.
    Ég taldi óhjákvæmilegt að nefna þetta vegna þeirrar umræðu sem fram hefur farið og vegna orða hæstv. forseta nú rétt áðan.