Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

35. fundur
Miðvikudaginn 27. nóvember 1991, kl. 14:47:00 (1291)

     Halldór Ásgrímsson :
     Virðulegur forseti. Við þingmenn Framsfl. ásamt öðrum þingmönnum stjórnarandstöðunnar óskuðum eftir upplýsingum um skattastefnu ríkisstjórnarinnar að öðru leyti, sérstaklega að því er varðaði aðstöðugjald og hækkun tekjuskatts. Þessi skattur tengist að sjálfsögðu annarri skattlagningu að því er varðar tekjuöflun fjárlaganna. Þar sem þessar upplýsingar hafa ekki borist munum við ekki taka þátt í þessari atkvæðagreiðslu og munum sitja hjá við hana, m.a. í þeirri von að við fáum frekari upplýsingar frá hæstv. ríkisstjórn milli 2. og 3. umr.