Breytt viðhorf í samningum um Evrópska efnahagssvæðið

35. fundur
Miðvikudaginn 27. nóvember 1991, kl. 15:13:00 (1297)

     Halldór Ásgrímsson :
     Virðulegur forseti. Það alvarlega í þessu máli er að það var kynnt sem niðurstaða að 70% af þessum aflaheimildum yrðu langhali og það var þannig sem samstarfsnefnd atvinnurekenda í sjávarútvegi skildi þetta mál. Þess vegna er það mjög undarlegt að það skuli nú koma fram í fjölmiðlum að þessi niðurstaða hafi alls ekki verið fengin. Ég minni m.a. á umræður hér á Alþingi þar sem m.a. þingflokksformaður Alþfl. sagði að við hefðum fengið allt fyrir ekkert. ( ÖS: Það er rangt.) Ætli það geti ekki verið að sú umræða sem þá fór fram hafi haft neikvæð áhrif á stöðu okkar Íslendinga. Ég er ansi hræddur um það. Og það ætti að kenna hæstv. utanrrh. að tala af meiri varúð um þessi mál.
    Ég vil spyrja hann: Er það hugsanlegt að næstu fréttir verði þær að það hafi ekki verið niðurstaða að því er varðar saltsíldarflök? Það hefur verið kynnt sem niðurstaða og við höfum gengið út frá því að tollfrelsi kæmi á saltsíldarflök. Ég vil spyrja hæstv. utanrrh.: Hefur verið gengið frá því eða getum við átt von á því að slíkar upplýsingar komi?
    Ég vil jafnframt spyrja hæstv. sjútvrh.: Hvaða rannsóknir hafa farið fram á langhalastofninum eftir að þessi möguleiki kom inn í umræðuna? Og hvaða rannsóknir eiga eftir að fara fram nú á næstunni til að styrkja stöðu okkar Íslendinga í þessu sambandi?