Breytt viðhorf í samningum um Evrópska efnahagssvæðið

35. fundur
Miðvikudaginn 27. nóvember 1991, kl. 15:40:00 (1307)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
     Virðulegi forseti. Nokkrir þeirra hv. þm. sem hér hafa talað hafa látið gamminn geisa og það væri synd að segja að þeir væru gæddir því æðruleysi hugans sem þarf til þess að fjalla um alvörumál.
    Hér hafa verið hafðar uppi fullyrðingar. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) --- Virðulegi forseti. Þessi tími framíkallanna dregst auðvitað ekki af mínum tíma. --- Fullyrðingarnar hafa verið þessar: að veittar hafa verið rangar upplýsingar, að hafðar hafi verið í frammi blekkingar, að hv. utanrmn. hafi verið veittar rangar upplýsingar og að málið hafi verið kynnt sem endanleg niðurstaða fyrir hagsmunaaðilum. Allar eru þessar fullyrðingar rangar. Allar. Staðreyndirnar eru þessar, eins og reyndar hv. 10. þm. Reykv. sagði og er sannleikanum samkvæmt: Þegar þetta mál var kynnt í utanrmn., í ríkisstjórn og á Alþingi var sagt að því er varðaði tvíhliða samninginn að hann væri ófrágenginn. Það voru engar niðurstöður kynntar að því er hann varðaði. Þær lágu ekki fyrir. En það er rétt sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún sagði. Í utanrmn. var af minni hálfu sagt: Það liggur nú þegar fyrir af hálfu Evrópubandalagsins að þeir munu sækja það fast að fá langhalann út, einfaldlega vegna þess að það stendur upp á okkur að færa sönnur á það að hann sé ekki sýnd veiði. Ef menn vilja rengja það er hér skjal frá hæstv. sjútvrh., dags. 22. okt. og dreift til hagsmunaaðila í sjávarútvegi, þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Af hálfu Íslands hefur verið lagt til að 70% af veiðiheimildum bandalagsríkjanna verði langhali en 30% karfi. Eftir er að ganga endanlega frá samningnum að þessu leyti en bandalagið hefur látið í ljós ósk um að veiða einungis karfa.`` Þannig var málið kynnt. Það voru engar blekkingar, þvert á móti voru menn varaðir við því að við gætum átt í erfiðleikum með það mál. Það stæði upp á okkur að færa sönnur á niðurstöður rannsókna. Ég vísa þess vegna á bug öllum þessum gífuryrðum um rangar upplýsingar, villandi upplýsingar eða að þetta hafi verið kynnt sem niðurstöður. Það er einfaldlega ekki byggt á staðreyndum.
    Spurt var var: Hvenær verður gengið frá þessu máli? Ég segi: Af Evrópubandalagsins hálfu hefur orðið bið á því að ganga frá endanlegum textum í þessu viðamikla máli. Það varðar aðallega Evrópudómstólinn þannig að meiri tími gefst til þess að fjalla um þetta. Ég ætla hins vegar ekki að draga neina dul á það að eftir að við höfum þæft þetta mál í fjórar vikur verður það mjög erfitt fyrir okkur Íslendinga að halda Evrópubandalaginu að þessu tilboði okkar, einfaldlega vegna þess að á árinu 1993 getum við hugsanlega ekki verið búnir að færa sönnur á það að upphaflegt tilboð sé í veiðanlegu ástandi. Ögrunarorð eða frýjuorð um að láta nú ekki kúga sig læt ég sem vind um eyru þjóta vegna þess að staðreyndirnar eru þessar: Við erum að reyna að ná endanlegri niðurstöðu í þessum samningi. Það hefur ekkert breyst í grundvallarstærðum samningsins eða þeim reglum að öðru leyti hafa verið kynntar. Það hefur ekki verið farið með neinar blekkingar í þessu máli. Spurningin er einfaldlega um þessa samningsstöðu og það gefst tími til að fjalla betur um það.
    Virðulegi forseti. Það er rétt að fram komi að slíkt tilboð hefur áður verið gefið í viðræðum við Evrópubandalagið, í viðræðum við fulltrúa sjávarútvegsdeilda bandalagsins, þ.e. hins svokallaða DG 14. Áður hefur verið gefið tilboð af hálfu fyrrv. ríkisstjórnar um nákvæmlega allt að 3.000 tonna karfaígildi í skiptum fyrir tollaívilnanir og það bætti náttúrlega ekki samningsstöðuna.