Breytt viðhorf í samningum um Evrópska efnahagssvæðið

35. fundur
Miðvikudaginn 27. nóvember 1991, kl. 15:46:00 (1309)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Mér finnst mjög leitt og dapurlegt að þurfa að segja það hér að vegna þess að hæstv. utanrrh. hefur farið með rangt mál svo oft í seinni ræðu sinni og gefið svo villandi mynd af því sem sagt hefur verið og gert í þessu máli, bæði á vettvangi utanrmn. og í samskiptum við þingið og þjóðina, að ég verð því miður, virðulegi forseti, að óska eftir því formlega að á morgun, í síðasta lagi á föstudag, fari fram utandagskrárumræða með ótakmörkuðum ræðutíma svo að hægt sé að ræða sannleikann í þessu máli. Það getur ekki gengið að utanrrh. láti gamminn geisa í síðustu ræðu í þessari umræðu með rangfærslum af því tagi sem hér kom fram. ( Forseti: Forseti vill biðja hv. þm. um að halda sig við að gera athugasemdir við þingsköp. Ef hann óskar eftir utandagskrárumræðu að gera það þá utan ræðustólsins.) Já, ég er að gera það, virðulegi forseti, vegna þess að það kom fram formleg ósk hjá málshefjanda, hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, þar sem beðið var um að umræðan yrði lengri en hálftími og ræðutími manna lengri en tvær mínútur. Alþb. óskaði eftir því. Forseti varð ekki við þeirri ósk, en nú, þegar í ljós er komið með hvaða hætti utanrrh. heldur á málunum og flytur hér hverja rangfærsluna á fætur annarri og svarar síðan ekki lykilspurningum eins og þeirri hvaða önnur atriði það eru sem vikið er að í yfirlýsingu samtaka í sjávarútvegi, ítreka ég, virðulegi forseti, þá ósk sem kom fram hjá hv. málshefjanda að lengri umræða yrði og fer formlega fram á að forseti skoði tímatöflu þingsins á morgun eða föstudag til að fá lengri umræðu um þetta mál svo að hægt sé að ræða sannleikann í málinu.