Breytt viðhorf í samningum um Evrópska efnahagssvæðið

35. fundur
Miðvikudaginn 27. nóvember 1991, kl. 15:48:00 (1311)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
     Virðulegi forseti. Ég hef sagt það áður að ég hef lítt á liðinni tíð tekið þátt í þessum þingskapaleik hv. þm., sumra hverra, og mér þykir það afar leitt þegar menn misnota þingskapaákvæði hvað eftir annað til þess að veitast að öðrum þingmönnum með getsökum og dylgjum sem þeir ekki rökstyðja.
    Hv. þm. sem hér talaði áðan fullyrti enn og aftur að utanrrh. hefði veitt rangar upplýsingar. Ég svaraði þeim ásökunum sem fram komu um slíkt í mínum ræðum og vísaði til bæði utanrmn., staðfestingar hv. þm. sem þar á sæti og greinargerðar sjútvrh. og ég vísa slíkum getsökum og dylgjum á bug. Ég mælist til þess við hv. þm., ef þeir telja sig þurfa að eiga orðastað við mig um slíka hluti, að þeir geri það að siðaðra manna hætti, misnoti ekki þingsköp daginn út og daginn inn, heldur ræði málefnin eins og menn og þá á réttum vettvangi.