Breytt viðhorf í samningum um Evrópska efnahagssvæðið

35. fundur
Miðvikudaginn 27. nóvember 1991, kl. 15:49:00 (1312)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (um þingsköp) :
     Frú forseti. Þegar ég barði í borðið áðan var það í raun til að gera athugasemd við málflutning hæstv. utanrrh. hér í pontunni, en þar sem búið var að loka utandagskrárumræðunni átti ég ekki annars kost en að taka þátt í þingskapaumræðu. Ég hlýt að mótmæla því, hér undir þessari þingskaparumræðu, að utanrrh. skuli afflytja mín orð eins og raun bar vitni áðan. Ég sagði það aldrei að utanrrh. hefði borið það inn í utanrmn. að EB sækti það fast að fá langhalann út. Ég sagði að hann hefði upplýst að EB sækti það fast að karfi yrði stærri hlutur einhvern tímann á því tíu ára tímabili sem tvíhliða samningurinn tæki til. Þetta voru mín orð.