Breytt viðhorf í samningum um Evrópska efnahagssvæðið

35. fundur
Miðvikudaginn 27. nóvember 1991, kl. 15:52:00 (1315)

     Steingrímur J. Sigfússon (um þingsköp) :

     Hæstv. forseti. Aðeins örstutt. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að leyfa þessa umræðu og þolinmæði sem hún hefur sýnt hér við stjórnina. En ég hlýt að leyfa mér að vekja athygli á því, þar sem ræðutími minn og hæstv. utanrrh. er úti í þessari umræðu, að hæstv. ráðherra svaraði ekki þeirri grundvallarspurningu sem ég lagði fyrir hann í seinni ræðu minni. Hæstv. utanrrh. skaut sér á nýjan leik á bak við tafir Evrópudómstólsins og svaraði því ekki hvort af Íslands hálfu yrði skrifað undir samninginn ef á hann kæmi grænt ljós Evrópubandalagsmegin. Það er mjög vont að fara frá þessari umræðu hafandi ekki fengið skýr svör við því frá hæstv. utanrrh. hvort þingið megi jafnvel búast við því ef svo ber undir að samningurinn verði undirritaður af Íslands hálfu á næstu dögum.