Ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum

35. fundur
Miðvikudaginn 27. nóvember 1991, kl. 16:07:00 (1323)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
     Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umræðu, þ.e. efnahagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar og í hvern hnút þær ráðstafanir eru komnar, er að mínu mati einungis angi af miklu stærra vandamáli. Vandamálið er og það hefur berlega komið í ljós síðustu daga að í hinum stærstu málum er engin forusta í ríkisstjórninni til þess að takast á við þau. Það kom berlega í ljós hér áðan í umræðu um EES-samningana að þar hefur utanrrh. farið offari. Það hefur komið í ljós þegar kemur að umræðu um efnahagsmál að þar er engin forusta af hálfu forsrh. Hann var fyrir rúmri viku píndur til að segja að gefnar yrðu yfirlýsingar eftir fund í Ráðherrabústaðnum. Hann snýr aftur við blaðinu í útvarpsviðtali í gær um leið og hann hirtir hæstv. sjútvrh., samflokksmann sinn og samráðherra. Því miður er svo komið að þjóðin hefur algerlega misst trúna á að þessi ríkisstjórn sé fær um að leysa úr aðsteðjandi vanda. Þetta endurspeglast líka í þingsölum og utan þings í samskiptum stjórnarliðanna þar sem hæstv. forsrh. notar hvert tækifæri sem gefst til að hirta þá og auðmýkja á opinberum vettvangi eins og svo berlega kom hér í ljós í gær á þrennan hátt. Gagnvart ummælum 5. þm. Reykv., gagnvart Byggðastofnun og þar af leiðandi tveim ráðherrum í sinni ríkisstjórn og svo síðast í kvöldfréttum varðandi ummæli um þörf á aðgerðum í efnahagsmálum sem sjútvrh. hafði lagt fram í ríkisstjórninni.