Ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum

35. fundur
Miðvikudaginn 27. nóvember 1991, kl. 16:15:00 (1326)

     Stefán Guðmundsson :
     Virðulegi forseti. Hér er hreyft þarfri umræðu. Getuleysi núv. ríkisstjórnar veldur okkur áhyggjum því það þarf að taka á vandamálum atvinnulífsins og þá einkanlega sjávarútvegsins sem stefnir örugglega í a.m.k. 9--10% halla ef svo heldur fram. Veikleiki ríkisstjórnarinnar er áhyggjuefni, ekki aðeins okkar sem hér sitjum, heldur þjóðarinnar allrar því hér er stefnt í fjöldaatvinnuleysi.
    Á sama tíma sem við fréttum að ríkisstjórnin sé að fást við vanda sjávarútvegsins lesum við út úr þeim skjölum sem við sjáum og fáum að líta í frá ríkisstjórninni að stefnt er að því m.a. að fella niður verðjöfnunargjald á olíu. Taka á upp nýjan skatt, svokallaðan hafnarskatt. Er meiningin að skattleggja umferð um hafnirnar? Er meiningin að taka upp svokallaðan aflaskatt og íþyngja enn sjávarútveginum? Það lesum við ef við förum yfir fjárlögin, þar stendur það nokkurn veginn berum orðum. Er meiningin einnig að fella niður sjómannaafsláttinn eins og hæstv. fjmrh. hefur sagt og bæta þar með 1,5 milljörðum kr. á sjávarútveginn til viðbótar? Er ekki meiningin að standa við það og aðstoða hæstv. sjútvrh. til þess að staðið verði við 10. gr. Verðjöfnunarsjóðsins sem kveður á um að heimilt sé að fella niður inngreiðslur í Verðjöfnunarsjóðinn meðan svo stendur á? Á virkilega ekki að lækka vexti í þessari atvinnugrein og annarri í landinu?
    Og svo að lokum hefur ríkisstjórnin ákveðið að taka upp þá stefnu að innleiða auðlindaskatt og selja veiðileyfin. Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins skal tekinn til að fjármagna ríkissjóð.