Ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum

35. fundur
Miðvikudaginn 27. nóvember 1991, kl. 16:19:00 (1328)

     Halldór Ásgrímsson :
     Virðulegur forseti. Ég hafði satt best að segja vonað að þessari umræðu gæti lokið með þeim hætti að eitthvað meira væri vitað um það sem er fram undan og forsrh. mundi nota tíma sinn til að eyða óvissu. Hann sagði í gærkvöldi: Það er ekkert sérstakt sem knýr á um skjóta lausn vandans --- ef fréttamaðurinn hefur þá haft rétt eftir honum.
    Hann sagði hér áðan: Vandinn er töluverður. --- Síðan fór hann út í gömlu plötuna sem gengur út á það að tala um hvað hinir skildu illa við. Hvað ætlar hæstv. forsrh. að nota þessar setningar lengi? Hyggst hann vera allt kjörtímabilið í forsrn. og svara ávallt svo til þegar hann er spurður um alvarleg mál?
    Hér er um mjög alvarleg mál að ræða. Fjöldi sjávarútvegsfyrirtækja um allt land standa frammi fyrir stöðvun. Það er enginn að halda því fram að það sé hæstv. forsrh. eða hæstv. ríkisstjórn að kenna. Það er aflaleysið, það eru kostnaðarhækkanir og nú hefur verið upplýst að það sé samdráttur í þjóðartekjum um jafnvel allt að 6% milli ára. Þetta eru mikil áföll og þá þarf að bregða við. Það þýðir ekkert að vera alltaf að tala um liðna tíð og fortíðarvanda. Það er þá miklu betra að hafa það endanlega í nefnd heldur en að vera alltaf að skipa nýjar og nýjar nefndir í þann vanda sem er bráðastur. Það er allt í lagi mín vegna að hafa þennan fortíðarvanda sem lengst í nefnd og hún getur haldið blaðamannafundi annað slagið ef það getur létt á hæstv. forsrh. og hann getur farið að snúa sér að því sem skiptir máli. Það þarf að sjálfsögðu að lengja lánin í sjávarútveginum og það þarf að aðstoða sjávarútveginn við það að lækka kostnað sinn. Það er nýbúið að hækka rafmagnið. Vextirnir eru allt of háir. Hæstv. ríkisstjórn ætti að sjá sóma sinn í því að draga það frumvarp sem liggur fyrir um Hagræðingarsjóð til baka við núverandi aðstæður og auðvitað ætti hæstv. forsrh. að lýsa því yfir að hann hyggist beita sér fyrir því nú alveg á næstunni að lækka aðstöðugjaldið. Það væri mikilvæg yfirlýsing fyrir atvinnuvegi landsins. Það er eitt af því sem þarf að gera. En auðvitað er það vitað mál að atvinnuvegirnir sjálfir þurfa að takast á við þennan vanda. Það verður ekki allt gert af hálfu hins opinbera. Þar er margt hægt að gera en hæstv. forsrh. verður að koma upp og tala með öðrum hætti til atvinnulífsins í landinu en hann hefur gert hér í dag og í fréttatíma í gærkvöldi.