Þingleg meðferð EES-samnings

36. fundur
Fimmtudaginn 28. nóvember 1991, kl. 10:33:00 (1338)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
     Virðulegi forseti. Hv. fyrirspyrjandi spyr í hvaða formi og innan hvaða tímamarka ríkisstjórnin hyggist leita staðfestingar Alþingis á EES-samningnum og leggja fram og fá samþykkt frumvörp til breytinga á íslenskri löggjöf vegna reglugerða, tilskipana og annarra reglna sem leiðir af samningnum.
    Eins og fram hefur komið í fréttum var ákveðið að fresta fyrirhugaðri áritun aðalsamningamanna á fyrirliggjandi samningsdrög hinn 18. nóv. sl. vegna innri vandamála í EB gagnvart athugasemdum Evrópubandalagsdómstólsins. Ný dagsetning hefur ekki verið ákveðin. Ekki er útilokað að áritun dragist fram yfir áramót ef ákveðið yrði að bíða eftir endanlegri meðferð dómstólsins. Undirritun samningsins gæti átt sér stað stuttu síðar, þannig hefur verið rætt um febrúar, þegar búið er að ganga frá textum samningsins á öllum tungumálum aðildarríkjanna.
    Ég geri ráð fyrir því að frv. verði lagt fram um aðild Íslands að Evrópsku efnahagssvæði fljótlega eftir að þing kemur saman eftir jól, enda verði búið að undirrita samninginn og nauðsynlegri þýðingarvinnu lokið. Frv. verður með hefðbundnu sniði. Í því verður heimild til þess að fullgilda samninginn fyrir Íslands hönd og ákvæði um lögfestingu meginmáls samningsins sem er 135 greinar. Tæknilegum frágangi frv. er ekki lokið. Frv. verður samið með það fyrir augum að hin ráðuneytin hvert á sínu sviði leggi fram frv. til laga um staðfestingu á öðrum þáttum samningsins, þar á meðal reglugerðum og tilskipunum, sem þar er vitnað til eftir því sem þörf er á. Utanrrn. mun fyrir sitt leyti leggja til að þessi frv. verði lögð fram um svipað leyti og frv. utanrrn., staðfestingarfrv. Þess ber þó að geta að á mörgum sviðum samningsins höfum við fengið aðlögunarfrest til margra ára, t.d. varðandi hlutafélög svo að dæmi sé nefnt. Ekki er víst að öll lagafrumvörp verði tilbúin á þessum sviðum í vor heldur gæti framlagning sumra þeirra dregist fram á haust. Ef þessi staða kemur upp yrði gerð grein fyrir væntanlegu innihaldi þessara frv. við afgreiðslu aðalfrv.
    Hvert er umfang þeirra lagabreytinga sem leiða af EES-samningnum? Ég hef þegar gert Alþingi grein fyrir þessum breytingum í riti sem var lagt fram haustið 1990 og nefnist Samanburður á íslenskri löggjöf og samþykktum Evrópubandalagsins sem lagðar eru til grundvallar í samningnum um Evrópskt efnahagssvæði, öðru nafni Bláskinnu. Þar má sjá hvaða lögum og reglugerðum þarf að breyta til þess að uppfylla ákvæði samningsins. Lög sem þarf að breyta eru ekki ýkja mörg. Eitt af því sem verður að gera er að breyta ákvæðum sem binda atvinnurekstur skilyrðum um ríkisfang, búsetu eða heimili eins og t.d. var gert á síðasta þingi við samþykkt nýrra laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, laga nr. 34/1991. Því frv. fylgdi svokallaður bandormur sem breytti 27 lögum á þessu sviði.
    Nú er í athugun hvaða leið verður farin í tengslum við EES-samninginn. Einn möguleiki er að gera svipaðan bandorm en aðrar leiðir eru einnig til skoðunar.
    Unnið er að því í utanrrn. í samvinnu við önnur ráðuneyti að gera nýtt yfirlit um laga- og reglugerðarbreytingar sem leiðir af EES-samningnum. Ráðuneytin hafa öll verið beðin um að skila inn upplýsingum um það fyrir 9. des. nk. Þessu yfirliti verður dreift á Alþingi, væntanlega um svipað leyti og EES-frv. og verður nokkurs konar framhaldsútgáfa á Bláskinnu sem ég nefndi áðan.
    Varðandi tímasetningu, hvenær þingið mundi fjalla um þau frv. sem leiðir af EES-samningnum, þá veltur það á því hvenær frv. verða fullbúin. Ég leyfi mér að vona að flest þeirra verði komin fram snemma á vorþingi. Ekki er óeðlilegt að umfjöllun um þau fari fram, en endanleg afgreiðsla bíði í ýmsum tilvikum þar til seint á næsta ári, rétt fyrir gildistöku samningsins sjálfs. Í þessu sambandi mun þingið verða að ákveða hvort EES-samningurinn verði til umfjöllunar hjá öllum þingnefndum á þeim sviðum sem hann nær til eða hvort sett verður á stofn sérstök þingnefnd sem fjalli um hið Evrópska efnahagssvæði.