Vegrið

36. fundur
Fimmtudaginn 28. nóvember 1991, kl. 11:12:00 (1354)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
     Hæstv. forseti. Við höfum auðvitað öll áhuga á því að reyna að fyrirbyggja slys á vegum landsins. Það er nú svo að sums staðar hafa vegrið reynst vel, á öðrum stöðum eru dæmi um það að vegrið hafi verið fjarlægt vegna þess að það eitt út af fyrir sig skapaði slysahættu, er mér sagt af einum alþingismanni.
    Ég vil vekja athygli á að hér er um verulegan kostnað að ræða, 3 millj. á km er auðvitað verulegur kostnaður þegar við höfum það í huga að víða um land eru vegir óviðunandi og valda í sjálfu sér slysahættu. Ég vil minna á kaflann milli Arnarbælis og Dýrastaða sem nú er til allrar hamingju búið að byggja upp. Það var mikill slysakafli. Hið sama er í raun og veru að segja um kaflann fyrir neðan Fornahvamm, Hellistungur má ég segja að hann heiti sá kafli. Og víðar á landinu eru slysagildrur, þar sem ræsi eru of mjó, brýr mjóar, þar sem lýsing er nauðsynleg á vegum vegna fjölda skólabarna meðfram einhverri tiltekinni leið þar sem þung umferð liggur, t.d. í Kræklingahlíð fyrir norðan svo að ég taki dæmi af því.
    Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð en veit að Vegagerð ríkisins vinnur að því að reyna að láta þá kafla sitja fyrir sem hættulegastir eru. Ég veit að hv. þm. gefa Vegagerðinni leiðbeiningar ef þeir telja að einhverjir sérstakir kaflar á vegakerfinu séu hættulegri en aðrir og þar sé brýnna en annars staðar að setja upp vegrið.