Opinber réttaraðstoð

36. fundur
Fimmtudaginn 28. nóvember 1991, kl. 11:41:00 (1365)

     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
     Virðulegi forseti. Lögfræðiaðstoð er þjónusta sem flestir óska sér sjálfsagt að þurfa aldrei á að halda. Því miður reynir þó oft á að leita þurfi aðstoðar lögmanna og er þá ekki alltaf spurt hvort þeir þurfi á að halda sem efni hafa á að greiða fyrir þessa þjónustu. Því hefur allnokkrum sinnum verið tekið fyrir á Alþingi með hvaða hætti eðlilegt væri að ríkisvaldið greiddi fyrir nauðsynlega lögfræðiþjónustu, bæði með því að bjóða upp á gjafsókn og gjafvörn og einnig með annarri lögfræðiaðstoð. Hefur þá bæði verið fjallað um lögfræðiaðstoð við efnalítið fólk og annað. Ég vil geta í þessu sambandi þáltill. hv. þm. Ragnars Arnalds og Svövu Jakobsdóttur sem þau fluttu á Alþingi veturinn 1974--1975 um lögfræðiaðstoð fyrir efnalítið fólk, svo og þess frv. um opinbera réttaraðstoð sem ég hér spyr um en slíkt frv. kom fram á tveimur þingum, 112. og 113. löggjafarþingi.
    Síðast en ekki síst vil ég geta þess að skömmu áður en frv. um opinbera réttaraðstoð var kynnt á 112. löggjafarþingi fluttum við kvennalistakonur frv. um hliðstætt efni, en það frv. varðaði þó einungis hluta málsins, að vísu nokkuð stóran hluta. Það var frv. um lögfræðiráðgjöf og aðstoð vegna hjúskapar-, sambúðar- og sifjaréttarmála. Það var hv. þáv. þm. Málmfríður Sigurðardóttir, þingkona Kvennalistans sem flutti það mál ásamt okkur kvennalistakonum.
    Skemmst er frá því að segja að vel var tekið í það af hálfu dómsmrn. þá að taka tillit til þeirra hugmynda sem fram komu í okkar tillögum og sameina þær frumvarpi um opinbera réttaraðstoð þó það hafi raunar síðar ekki verið gert. Ég legg því áherslu á að ef frv. um opinbera réttaraðstoð verður endurflutt núna í vetur, þá verði tekið tillit til þessara athugasemda, enda held ég að góður grunnur sé fyrir því.
    Ég hef í framhaldi af þessum orðum mínum leyft mér að bera fram eftirfarandi fsp. á þskj. 146 til hæstv. dómsmrh. og hljóðar hún svo, með leyfi forseta:
    ,,Hyggst dómsmrh. leggja fram frv. um opinbera réttaraðstoð á yfirstandandi þingi?``