Opinber réttaraðstoð

36. fundur
Fimmtudaginn 28. nóvember 1991, kl. 11:45:00 (1367)

     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
     Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir mjög skýrt svar. Hins vegar þótti mér það efnisrýrt þótt afdráttarlaust væri og þætti mér vænt um að hann notfærði sér síðari ræðutíma sinn til þess að skýra frá því hvers vegna ekki verður lagt fram slíkt frv. á þessu þingi. Mig langar í því sambandi að benda honum á að þetta frv. fékk býsna góðar undirtektir þegar það var lagt fram í fyrsta sinn á 112. löggjafarþingi. Og ég held ég verði að benda á t.d. ræðu hv. 6. þm. Reykv., Sólveigar Pétursdóttur, en hún tók afskaplega vel í mörg efnisatriði þessa frv. Langar mig í því sambandi einkum að minna á er hún fjallaði sérstaklega um ákvæði í IV. kafla frv. og ætla að grípa niður í ræðu hennar, með leyfi forseta, þar sem hún segir og vitnar þá fyrst í greinargerð:
    ,,Eins og vikið er að hér er hér um nýmæli að ræða en nauðsyn þykir bera til þess að þeir sem hafa orðið fyrir tilteknum refsiverðum brotum njóti lögmannsaðstoðar við kærumeðferð og gerð bótakröfu. Þetta á við um ýmis kynferðisafbrot, grófar líkamsárásir eða ólögmæta frelsisskerðingu. Ég tel ástæðu til þess``, segir Sólveig síðan, ,,að fagna þessum reglum sérstaklega, enda hafa þessi brot og meðferð þeirra verið mikið til umræðu eins og hæstv. dómsmrh. gat um hér áðan.``
    Ég tel því fulla ástæðu til þess að við fáum hér upplýst hvers vegna hæstv. dómsmrh. hyggst ekki flytja þetta frv. og hvort það sé e.t.v. vegna þess að þessi mál eigi einhvers staðar annars staðar að fá úrlausn.