Raforkuverð

36. fundur
Fimmtudaginn 28. nóvember 1991, kl. 12:01:00 (1373)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
     Virðulegi forseti. Hv. 5. þm. Suðurl. beinir til mín tveimur spurningum. Hin fyrri er: Hefur ríkisstjórnin uppi einhver áform um það að jafna raforkuverð í landinu? Og hin síðari: Hvernig ætlar ríkisstjórnin að jafna þann aðstöðumun sem nú kann að vera á milli almenningsveitna eftir því hvort þær kaupa raforku frá Landsvirkjun eða Rafmagnsveitum ríkisins?
    Svarið við fyrri spurningunni er já. Ríkisstjórnin hefur uppi áform um jöfnun raforkuverðs. Í stefnuyfirlýsingu hennar er gert ráð fyrir því að lífskjör verði jöfnuð, m.a. með lækkun húshitunarkostnaðar þar sem hann er mestur. Ríkisstjórnin ákvað á fjórða fundi sínum í maímánuði sl. að auka niðurgreiðslur á raforku til húshitunar frá og með 1. júní. Við þetta lækkaði hitunarkostnaður ,,vísitölufjölskyldu á köldu svæðunum``, svo maður noti nú hversdagslegt málfar, um u.þ.b. 10 þús. kr. á ári. Miðað við algengasta hitunartaxta hjá Rafmagnsveitum ríkisins lækkaði kostnaðurinn úr um það bil 90 þús. kr. á ári í um það bil 80 þús. kr. á ári og þá miða ég við það varmamagn sem reiknað er með í grunni framfærsluvísitölunnar.
    Með þessari aukningu niðurgreiðslna var náð fyrsta áfanga af þremur í tillögum orkuverðsjöfnunarnefndar sem skilaði áliti sínu á sl. vetri, en í henni áttu sæti fulltrúar allra þingflokka sem áttu sæti á 113. þingi.
    Ég vil líka benda hv. fyrirspyrjanda á það að í frv. til fjárlaga fyrir árið 1992 er gert ráð fyrir því að unnt verði að halda svipuðu niðurgreiðslustigi á því ári og gilt hefur á síðari hluta þessa árs.
    Að öðru leyti vil ég leyfa mér, virðulegur forseti, að vísa til fyrirspurnatíma hér í síðustu viku þar sem mjög ítarlega var um þetta mál fjallað, enda fyrirspurn því nær sama efnis þá til umræðu.
    Til að svara síðari spurningunni um aðstöðumun þeirra sem kaupa beint af Landsvirkjun og hinna sem kaupa af Rarik, þá vil ég láta það koma fram að sex almenningsveitur af sextán tengjast beint afhendingarstöðum Landsvirkjunar og kaupa raforku beint af því fyrirtæki í heildsölu, á sama verði allar sex. Hinar tíu kaupa raforku í heildsölu af Rafmagnsveitum ríkisins sem aftur kaupa 85--90% af þeirri orku sem þær selja af Landsvirkjun. Það liggur í augum uppi að Rafmagnsveiturnar þurfa tekjur til að standa undir kostnaði við flutning orkunnar frá afhendingarstöðum Landsvirkjunar að afhendingarstöðum Rafmagnsveitnanna. Og það er reyndar álit Rafmagnsveitna ríkisins að þær þyrftu hærri álagningu á heildsöluna en þær í raun taka til þess að standa undir öllum kostnaði við þennan flutning.
    Ég vil leyfa mér að benda á, virðulegi forseti, að það er veruleg verðjöfnun sem á sér stað á heildsölustiginu, m.a. með því að selt er sama verði á öllum afhendingarstöðum Landsvirkjunar og með því sem ég þegar hef nefnt um heildsöluverðmyndun hjá Rafmagnsveitum ríkisins.
    Þessi skipan hefur bæði kosti og galla sem hér gefst ekki tími til að ræða en þær veitur sem skipta við Rafmagnsveitur ríkisins eru óánægðar með þetta fyrirkomulag og benda á að þær taki fyrst þátt í þeirri verðjöfnun sem á sér stað á heildsölustiginu hjá Landsvirkjun og svo aftur á heildsölustiginu hjá Rafmagnsveitum ríkisins. Hér er að sjálfsögðu um þær veitur að ræða sem telja sig bera skarðan hlut frá borði í þessum skiptum.
    Ég bendi líka á að í sameignarsamningi milli ríkisstjórnar Íslands, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar um Landsvirkjun og lögunum um Landsvirkjun, sem grundvallast á þessum samningi, er kveðið á um að fjölgun og breyting afhendingarstaða sé háð ákvörðun stjórnar Landsvirkjunar og að sama gjaldskrá skuli gilda um afhendingu rafmagns til almenningsrafveitna á afhendingarstöðum.
    Vorið 1989 sendi ég erindi til stjórnar Landsvirkjunar þar sem ég óskaði eftir viðræðum við fyrirtækið um fjölgun afhendingarstaða þannig að almenningsveiturnar ættu yfirleitt kost á beinum skiptum við fyrirtækið. Stjórn Landsvirkjunar synjaði þessu erindi í mars árið 1990 og var þá ekki tilbúin til að fjölga afhendingarstöðum. Í desember á sl. ári sendi ég að tillögu orkuverðsjöfnunarnefndar stjórn Landsvirkjunar nýtt erindi þar sem óskað var eftir því að fyrirtækið veitti Rafmagnsveitum ríkisins sérstakan afslátt sem næmi kostnaði við flutning raforku til bæjarveitna Vestmannaeyja umfram meðalkostnað við flutning til annarra bæjarveitna sem kaupa rafmagn af Rafmagnsveitum ríkisins. Stjórn Landsvirkjunar hefur enn ekki afgreitt þetta erindi. (Forseti hringir.)
    Virðulegi forseti. Ég er alveg að ljúka máli mínu. Í gjaldskrá Rafmagnsveitna ríkisins sem tók gildi um sl. áramót var veitt heimild til þess að fyrirtækið gæti gert sérsamninga við almenningsveiturnar og hafa sjö af tíu veitum gert slíka samninga um orkukaupin.
    Vegna þess sem hér kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda um afltaxtana og umframorkukaup miðað við þá vil ég taka það fram að það mál var hér ítarlega rætt í fyrirspurnatíma þingsins í síðustu viku og leyfi ég mér að vísa til þeirra svara sem þá voru gefin.