Raforkuverð

36. fundur
Fimmtudaginn 28. nóvember 1991, kl. 12:08:00 (1375)

     Fyrirspyrjandi (Guðni Ágústsson) :
     Hæstv. forseti. Ég þakka iðnrh. svör hans sem að vísu gefa ekki tilefni til mikillar bjartsýni, hægt hefur miðað í þessu mikla deilumáli þjóðarinnar nú á síðustu árum. Ég vakti athygli á þeim ójöfnuði sem hefði þróast á þessu ári þar sem þessar tíu veitur hafa orðið að hækka sitt raforkuverð um 24% umfram það sem Landsvirkjunarfyrirtækin sex

hafa orðið að gera. Þetta er náttúrlega slíkt ójafnræði að við verður ekki unað. Það streyma til okkar kvartanir frá bæjarfélögum sem búa við þetta óréttlæti. Ég hef t.d. fengið frá Hveragerðisbæ og Selfossbæ umkvartanir þar sem vakin er athygli á þessu. Hér segir, með leyfi forseta, í nefndaráliti frá Selfossi:
    ,,Jafnframt telur bæjarstjórn óeðlilegt að Rarik leggi þessa hækkun beint ofan á sinn heildsölutaxta þar sem það hefur í för með sér meiri hækkun í krónutölu pr. orkueiningu til þeirra almenningsveitna sem kaupa raforku í heildsölu af Rarik en hinna sem kaupa beint af Landsvirkjun.
    Af þessu tilefni ítrekar bæjarstjórn Selfoss þá skoðun sína að endurskipuleggja beri heildsölufyrirkomulag raforku í landinu.`` --- Sama gera þeir í Hveragerði.
    Ég sagði frá því að nú hygðust menn fara að nota olíuofna og kol. Hugsið ykkur fyrirtæki sem statt er á orkusvæðinu á Suðurlandi, við skulum taka bakarí, þar fær það orkutaxtann á 5,25 kr. á kwst. en hér á Reykjavíkursvæðinu á 2,53 kr. Er þetta jöfnuður? En taki þetta fyrirtæki upp olíuofn sem það hugleiðir nú þá kostar kwst. þar 1,30 kr.
    Ég held að það sé nú svo, hæstv. iðnrh., að þessi lítifjörlegu svör um síðari hluta spurningarinnar eða fyrirheit sem engin komu fram að þjóðin verði að treysta því að Alþingi og ríkisstjórn taki á þessu máli. Misrétti sem felst í heildsölukerfi raforku er slíkt að alþingismenn geta ekki boðið þjóðinni slíkt. Aðstaða, búseta og athafnalíf víða um land líður fyrir þetta kerfi. Lítill meiri hluti landsmanna gengur í orkuauðlindina sem sína eign og kúgar hinn hlutann til að nota olíu, kol eða grípa til örþrifaráða.
    Ég treysti því að alþingismenn reyni að stöðva þá óheillaþróun sem magnast hefur á þessu ári á milli rafveitna í landinu, hvort þeir eru kaupendur frá Rafmagnsveitum ríkisins eða Landsvirkjun, að menn reyni að höggva á þennan hnút áður en gripið verður til örþrifaráða að kaupa hér inn gasolíu og kol til að framleiða orku í sínum fyrirtækjum.