Raforkuverð

36. fundur
Fimmtudaginn 28. nóvember 1991, kl. 12:12:00 (1376)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
     Frú forseti. Fyrst vegna þess sem kom fram í athugasemd hv. 3. þm. Vesturl. þá vil ég enn benda á að það er röng fullyrðing að niðurgreiðslurnar sem ákveðnar voru 1. júní hafi á einhvern hátt verið uppurnar frá því að þær voru settar á. Vegna þeirra er orkuverðið þessum mun lægra eins og margoft hefur komið fram. Eins vildi ég benda á það að styrking dreifikerfa í sveitum er verkefni sem nú er í meira mæli en fyrr á ábyrgð orkufyrirtækjanna, Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða, m.a. reikna þau með endurnýjun á þessum kerfum í sínum afskriftarstofni. Ég held því ekki fram að þar sé til skila haldið hverri krónu. Það þarf að kanna betur mörkin á milli þess sem á að styrkja af almannafé eða gjöldum af almennri orkunotkun og þess sem fyrirtækin eiga sjálf að bera, og það val mætti gjarnan endurskoða. Ég tel það æskilegt að þau beri sem mest af þessu. Vil svo benda á að fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Þau miklu línutjón sem orðið hafa á undanförnum vetrum hafa knúið fram mikla endurnýjun með sérstökum fjárframlögum sem að hluta til hafa styrkt þessi dreifikerfi. Einkum á þetta við á Norðurlandi vestra. Þetta segi ég sem dæmi úr veruleikanum um það hvernig þetta gerist.
    Ég vil líka benda á að það er rangt að halda því fram að á þjóðarsáttartímanum hafi orkuverð frá Landsvirkjun hækkað umfram verðbreytingar. Því er öfugt farið, það hefur hækkað minna.
    Að lokum, vegna þess sem kom fram í máli hv. 5. þm. Suðurl., þá vil ég taka undir það með honum að orkuauðlindirnar í fallvötnum okkar, á almenningum og í iðrum jarðar eru auðvitað þjóðareign. Ég vona að þingið sameinist um að festa þetta í lög.
    Ég vil líka taka undir það með hv. 5. þm. Suðurl. að mikil ástæða er til þess að

líta að nýju á það hvernig verð er ákveðið í viðskiptum almenningsveitna og Landsvirkjunar. Ég er ekki sannfærður um að gjaldskrá, einhliða útgefin af orkusölufyrirtækinu, sé heppilegasta formið. Þarna þurfa að vera samningar í meira mæli en verið hefur. Þetta er mín skoðun í þessu máli og ég vonast til að fá henni framgengt í einhverjum mæli. Það er líka rétt að það þarf að huga mjög vandlega að þeim töxtum sem byggja á afltaxta, bæði gagnvart almenningsveitum og iðnaði og yfir það mál allt þarf að fara vandlega.
    Að lokum, virðulegi forseti, þá vil ég taka undir það með hv. fyrirspyrjanda að orkuverðsjöfnun og orkuverðmyndun eru málefni sem ég vona að þingið og stjórnin nái vel saman um á þessum vetri.