Súrálsverksmiðja á Íslandi

36. fundur
Fimmtudaginn 28. nóvember 1991, kl. 12:19:00 (1378)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
     Frú forseti. Hv. 1. þm. Norðurl. e. hefur lagt fyrir mig þrjár spurningar. Ég mun leitast við að svara þeim í þeirri röð sem þær voru upp bornar.
    Í fyrsta lagi var spurt um athuganir eða starf sem fram hefði farið af hálfu iðnrn. vegna hugsanlegrar súrálsverksmiðju á Íslandi. Ég get svarað því að á árinu 1974 fóru fram rækilegar athuganir á þeim möguleikum að stofna til slíkrar verksmiðju á Reykjanesi og var þá miðað við að nýta jarðgufu frá Trölladyngjusvæðinu við framleiðsluna. Þessi athugun var á vegum Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNIDO og að henni starfaði einkum ungverskur sérfræðingur, dr. Sigmond. Þá var miðað við að í verksmiðjunni yrðu framleidd 300 þús. tonn af súráli í fyrstu með stækkunarmöguleika upp í 600 þús. tonn. Það varð niðurstaða þessarar skýrslu að verksmiðja með 300 þús. tonna ársafköstum gæti orðið arðbær í rekstri miðað við þær forsendur sem þá voru lagðar til grundvallar. En þrátt fyrir það þótti þetta ekki álitlegur iðnaðarkostur, einkum vegna mengunar, vegna úrgangsins sem framleiðslunni er samfara. En ég get tekið það fram að við framleiðslu á 300 þús. tonnum af súráli myndast 360 þús. tonn af hálffljótandi úrgangsefni, svonefndri rauðri leðju eða leir sem er menguð vítissóta og hefur 50% rakainnihald. Í UNIDO-skýrslunni var reiknað með því að safna þessum úrgangi í gryfjur eða bak við uppfyllingar og leiða affallsvatnið aftur til verksmiðjunnar til að endurvinna vítissótann. Að öðru leyti var ekki fyrirhugað að gera annað við rauða leirinn en að láta hann safnast fyrir enda mun það algengast þar sem slíkar verksmiðjur eru starfræktar. Náttúruverndarráð og fleiri aðilar mótmæltu slíkum áformum harðlega.
    Á árinu 1984 var gerð forathugun á hagkvæmni súrálsverksmiðju hér á landi í kandídatsritgerð Hallgríms Ingólfssonar viðskiptafræðings. Niðurstaðan varð sú að ekki væri arðbært að byggja hér súrálsverksmiðju með 300 þús. tonna framleiðsluafköstum við þáverandi aðstæður. Markaðsskrifstofa iðnrn. og Landsvirkjunar hefur fylgst með þessum athugunum og haft samband við aðila í þessari starfsgrein og nú er almennt talið af sérfræðingum að minnsta hagkvæma stærð á súrálsverksmiðju sé verksmiðja með 1 milljón tonna framleiðsluafköstum á ári og þá er fljótlegt að reikna hversu mikill úrgangurinn, rauði leirinn frá þeirri starfsemi yrði því hann yrði væntanlega þá um 1.200 þús. tonn. Þá er líka að nefna að miðað við núverandi aðstæður í áliðnaði og súrálsframleiðslu eru horfurnar ekki vænlegar. Það kann að vera að markaðsaðstæður geti og muni innan skamms gera þetta fjárhagslega hagkvæmt en þá komum við aftur að umhverfisvandanum.
    Síðan spurði hv. fyrirspyrjandi hvaða hugmyndir væru uppi um staðsetningu slíkrar verksmiðju. Því get ég svarað þannig að staðsetningin, ef menn réðust í þetta, þyrfti að fullnægja tveimur skilyrðum að mínu áliti. Í fyrsta lagi þarf að vera fyrir hendi stórskipahöfn eða aðstaða fyrir hana og í öðru lagi þyrfti að vera háhitasvæði í nágrenninu svo byggja mætti verksmiðjuna á notkun jarðgufu sem orkugjafa. En það er einmitt það sem gefur staðsetningu á Íslandi sérstaka möguleika. Þetta leiðir auðvitað hugann beint að tveimur landshlutum. Annars vegar er um að ræða Reykjanesskagann, bæði Trölladyngjusvæðið og Reykjanestána, og hins vegar svæði við Skjálfandaflóa og Öxarfjörð í námunda við háhitasvæðin þar.
    Í þriðja lagi var spurt hvort iðnrn. hefði athugað sérstaklega skýrslu Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga. Það hefur verið gert. Ráðuneytið hefur óskað eftir umsögn markaðsskrifstofu iðnrn. og Landsvirkjunar um þessa skýrslu. Sú umsögn er nú á lokastigi. Ég

á ekki von á því að hún leiði til annarrar niðurstöðu en áður hefur fengist, þ.e. að bygging súrálsverksmiðju sé nú ekki arðbær framkvæmd á Íslandi. Jafnvel þótt fram kæmi að reka mætti súrálsverksmiðju hér á landi með hagnaði þá eru alvarleg úrgangsvandamál samfara framleiðslunni og þyrfti að finna fyrir fram lausn á þeim áður en hægt væri að leyfa slíka verksmiðju. En við skulum bíða umsagnar markaðsskrifstofunnar þar sem einnig er ætlunin að gera grein fyrir fræðilegri athugun Orkustofnunar á áætluðu kostnaðarverði jarðgufu, sem leidd yrði frá háhitasvæðinu á Þeistarreykjum til strandar við Skjálfandaflóa. Slík athugun getur haft úrslitaþýðingu fyrir hagkvæmnikönnun á fleiri framleiðslugreinum en súrálsbræðslu sem hugsanlega gætu nýtt jarðgufuna.
    Ég vona, frú forseti, að þetta hafi svarað þeim þremur spurningum sem til mín var beint.