Súrálsverksmiðja á Íslandi

36. fundur
Fimmtudaginn 28. nóvember 1991, kl. 12:28:00 (1380)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
     Virðulegi forseti. Ég vildi fyrst nefna, vegna þess sem fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda, 1. þm. Norðurl. e., um háhitasvæðin, að það er mjög mikilvægt að þau verði á næstu árum vandlega könnuð. Mig langar til að rifja það upp að á fjárlögum yfirstandandi árs var einmitt veitt 8,5 millj. til að kanna háhitasvæðið í Öxarfirði, bæði eiginleika þess sem jarðhitasvæðis en einnig til þess að reyna að kanna setlögin sem þarna búa undir, m.a. vegna gass sem hafði komið upp í fyrri borunum. Þetta fé mun ekki reynast nægilegt, en ég hef hins vegar ákveðið að verja allt að 2,7 millj., e.t.v. hærri fjárhæð, af ráðstöfunarfé iðnrn. til að halda þessu verki áfram því það er mjög mikilvægt að kanna þetta svæði. Háhitasvæðin eru orkulindir, auðlindir sem við þurfum að huga vandlega að á næstu árum.
    Í öðru lagi vegna spurningarinnar um báxítbræðslu, því að slípiefnaframleiðslan sem hv. fyrirspyrjandi vék að í sínu máli byggist á því að bræða í rafbogaofni báxít, þ.e. frumjarðefnið sem súrálið er unnið úr en ekki súrál. Þessi bræðsla er að eðlisfræðinni til mjög skyld þeirri framleiðslu sem fram fer á Grundartanga þar sem kísilmálmur, grjót og járn er brætt í rafbogaofni. Þarna er framleitt slípiefni sem m.a. er notað í sandpappír, smergel og þess háttar hluti. Það er rétt að það hafa staðið yfir ítarlegar viðræður við bandarískt fyrirtæki sem starfar á þessu sviði og hefur áhuga á að hasla sér enn frekar völl í Evrópu, á reyndar fyrirtæki í þessari starfsgrein á Englandi, hefur sýnt Íslandi mikinn áhuga sem staðsetningarmöguleika. Þær umræður standa yfir og beðið eftir tillögum frá okkar viðmælendum vestan hafs. Þar er verið að tala um verksmiðju af þeirri stærð sem hv. fyrirspyrjandi nefndi, 30.000 tonna framleiðslu á ári, 40--50 starfsmenn, einkum hugsað til Evrópumarkaðsþarfa. Þetta virðist nokkuð efnilegt mál en ég ætla ekki að fullyrða um úrslit í því eða um staðsetninguna því hún fer að sjálfsögðu eftir því hvar þetta er best sett í flutningakerfi. En mengunarvandi er þarna miklu minni en í ýmsum greinum málmiðnaðarins og efnaiðnaðarins, þó þannig að til fellur ryk líkt og fellur til við járnblendiframleiðsluna á Grundartanga, en eins og menn kannast við hafa fundist not fyrir þann úrgang með mjög heppilegum hætti í Sementsverksmiðjunni á Akranesi. Því mun þó varla til að dreifa með það ryk sem þarna myndast, en ég hef sannspurt að það megi nota í einhverju öðru skyni.
    Vegna þess sem fram kom í þriðja lagi hjá hv. fyrirspyrjanda í hans seinni athugasemd, um staðsetningu slíkrar iðnaðarstarfsemi og annarrar, því að stöðugt stendur yfir leit að vænlegum iðnaðarkostum, ekki síst af þessari stærð eða minni, þá hef ég í hyggju að markaðsskrifstofan og iðnrn. taki upp sérstakt samstarf við landshlutana. Það samstarf hefur eiginlega þegar stofnast með Eyjafjarðarsamtökum, þ.e. með héraðsnefndinni og Akureyrarbæ og með Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar. Við hyggjum gott til þess að starfa þannig með mönnum í landshlutum um iðnaðarverkefni og ákaflega mikilvægt að frumkvæðið komi ekki síður heiman úr héraði heldur en frá stjórnarstofnunum í Reykjavík.