Seðlabanki Íslands

37. fundur
Fimmtudaginn 28. nóvember 1991, kl. 13:15:02 (1383)

     Kristinn H. Gunnarsson :
     Virðulegi forseti. Það hefur ýmislegt gengið á síðan ég bað um orðið í þessu dagskrármáli. Fyrir það fyrsta var samið um það að ég talaði stutt í þessari lotu, 10--15 mín., og ég mun að sjálfsögðu standa við það samkomulag. En vegna þeirra ummæla sem hæstv. forsrh. hefur viðhaft um Alþingi og alþingismenn og líkt þeim við gagnfræðaskóla eða klúbb og felst í því sú meining að mínu mati að honum þyki umræður ekki vera marktækar eða mikils virði, þá hlýt ég að velta því fyrir mér hvort það sé yfir höfuð nokkur tilgangur í því hjá okkur þingmönnum að vera að taka þátt í umræðu um mál frá hendi stjórnarinnar ef það er viðhorf oddvita ríkisstjórnarinnar að menn séu í einhverjum stráksskap og gagnfræðaskólaleikjum.
    Ég vildi gjarnan fá að heyra viðbrögð hæstv. viðskrh. og vildi gjarnan að það kæmi fram í hans máli á eftir hvort hann líti svo á að umræður um hans mál hér séu gagnslausar eða tímasóun eða hvort hann fylgist með þeim með því hugarfari að taka það til athugunar sem fram kemur í ræðum manna og ræða þau efnisatriði með rökum og gagnrökum. En ég tel óhjákvæmilegt að það komi fram að á meðan Alþingi og þingmenn hafa þá einkunnagjöf sem hæstv. forsrh. veitti þeim hér í morgun, þá sé ég ekki neina forsendu fyrir frekari samningum milli ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðu um það að menn takmarki mál sitt í umræðum um stjfrv. Það er alveg lágmarkskrafa af minni hendi að það sé gagnkvæm virðing í þessum efnum.
    Ég vil rifja það upp að hæstv. forsrh. viðhafði ummæli í garð þeirra þingmanna, sem tekið hafa þátt í byggðaumræðunni, sem mér féllu illa og tel ómakleg. Hann lýsti því að hann hefði ákveðið að skrifa í minnisblokk sína allar þær hugmyndir og tillögur sem þingmenn kynnu fram að færa í byggðaumræðunum en eftir þriggja sólarhringa umræðu væri minnisblaðið tómt. Þetta þykir mér ómaklegt því að ég lagði töluvert á mig við undirbúning minnar ræðu í þeirri umræðu og flutti fjölmargar tillögur um það sem ég vildi að menn gerðu í byggðamálum og sérstaklega sjávarútvegsmálum. Ég er ekki að fara fram á það að hæstv. forsrh. sé sammála mínum skoðunum í þeim efnum, en ég fer þó fram á það að mönnum sé sýnd sú virðing að því sé ekki slengt framan í menn að það sem þeir segja sé einskis virði og ekki einu sinni hugmyndir eða tillögur.
    Ég vil þá í örstuttu máli, virðulegur forseti, til að halda mig við mitt samkomulag fjalla um þetta frv. Almennt um lög um Seðlabanka Íslands vil ég segja að ég tel nauðsynlegt að endurskoða þau í heild sinni með það að markmiði að skera niður stofnunina, draga úr umsvifum hennar og ég tel ákaflega auðvelt að færa rök fyrir því að það megi sameina sum af þeim verkefnum, sem hún er að vinna við, verkefnum sem aðrar stofnanir eru að sinna, t.d. Þjóðhagsstofnun og aðrar slíkar. Ég held að menn eigi í þeirri endurskoðun að nálgast viðfangsefnið með þeirri spurningu: Er það nauðsynlegt að Seðlabankinn sé svo stór stofnun eins og hann er í dag? Ég held að svarið við því hljóti að vera að það megi verulega hagræða á þessu sviði sem Seðlabankinn og aðrar opinberar stofnanir eru að sinna. Ég held að menn eigi að hafa það viðhorf að leiðarljósi að leita að endurskoðun og hagræðingu á þessu sviði, alveg eins og menn eru með stífar kröfur um hagræðingu á sviði sjávarútvegsins. Að mínu mati er ekki boðlegt að leggja mikla áherslu á það, eins og fram kemur í ræðum margra ráðherra og jafnvel fleiri, að finna knýjandi nauðsyn á hagræðingu í sjávarútvegi en snerta ekki á sjálfu bákninu. Ég held að það sé mun þarfara verkefni. Í það minnsta eigi menn að fara í það samhliða hinu.
    Það sem mér hefur orðið starsýnast á er 18. gr. í lögum um Seðlabanka Íslands eins og hún er nú og eins og lagt er til að hún verði. Í meginatriðum er breytingin sú að í stað þess að Seðlabankinn ákvarði hvert gengið eigi að vera eigi hann að ákvarða hvernig það skuli ákveðið. Í þessu er töluverð breyting fólgin og þegar maður reynir að leggja mat á þessa breytingu þá hlýtur maður að spyrja sig: Er hin nýja tillaga að 18. gr. líklegri til að ná fram þeim markmiðum sem eru í núverandi 18. gr.?
    Ég bendi á það í 2. mgr. 18. gr. segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Ákvarðanir um gengi íslensku krónunnar skulu miðast við að halda sem stöðugustu gengi og ná jöfnuði í viðskiptum við útlönd en tryggja jafnframt rekstrargrundvöll útflutningsatvinnuvega og samkeppnisgreina.``
    Þetta er lögbundið. Að Seðlabankinn eigi að ákvarða gengið að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar til að ná þessum markmiðum. Hver skyldi staðan vera núna í jöfnuði í viðskiptum við útlönd og hver skyldi staðan vera í rekstrargrundvelli útflutningsatvinnuvega? Það er alveg ljóst að mikið vantar á að þeirri lagagrein sem er í gildi hafi verið fylgt eftir og ég vil biðja hæstv. viðskrh. að gera grein fyrir því, eftir því sem hann getur, hvernig á því stendur að þessum lögboðnu skyldum hafi ekki verið náð. Hvers vegna Seðlabankinn hafi ekki getað uppfyllt þessa lögboðnu skyldur. Ég vil líka biðja ráðherra að fara yfir það með hvaða rökum hann telji að nýja 18. gr. sé líklegri til að ná fram þessum markmiðum en sú gamla sem nú er í gildi. Þetta er í raun og veru hornsteinninn í öllu efnahagslífi, að útflutningsatvinnuvegirnir geti búið við einhvern viðunandi rekstrargrundvöll og gengið er sá þáttur sem ein mest áhrif hefur á það.
    Ég vil, virðulegi forseti, láta þessu lokið og vænti þess að hæstv. ráðherra hafi náð og skilið þær skoðanir og þær spurningar sem ég setti fram þó ég hafi talað í knöppu máli.