Seðlabanki Íslands

37. fundur
Fimmtudaginn 28. nóvember 1991, kl. 14:08:00 (1386)

     Steingrímur Hermannsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Hæstv. iðnrh. taldi um misskilning hjá mér að ræða þegar ég taldi frv. stefna að tengingu við ECU. Þetta kom mér nokkuð á óvart. Að vísu er frv. í heimildarformi, Seðlabankanum er heimilt að tengjast ECU eða öðrum gjaldmiðlum. Hins vegar kemur mjög skýrt fram í greinargerð Seðlabankans að hann gerir tillögu um það að tenging við ECU verði ekki síðar en 1993 og ég man ekki betur en hér á vorþingi hafi þetta komið fram í ræðu hjá hæstv. viðskrh. --- eða var það forsrh., kannski sama hvor er --- og var nokkuð rætt. Og ég man ekki betur en að á fréttamannafundi hafi það komið fram að ráðherrann taldi rétt að tengjast ECU. Ég tel það alrangt og þessi heimild er þannig orðuð að ég get ekki treyst því að veita slíka heimild á þessari stundu.