Seðlabanki Íslands

37. fundur
Fimmtudaginn 28. nóvember 1991, kl. 14:16:00 (1392)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
     Herra forseti. Ég vil byrja á að lýsa ánægju minni með það að hæstv. viðskrh. hefur í efnahagsþrengingum núv. ríkisstjórnar farið að lesa hin nytsömustu plögg og m.a. nefndarálit það sem við fjórir framsóknarmenn unnum að og skiluðum frá okkur. Það er á hverjum tíma virðingarvert þegar menn viða að sér þekkingu með þessum hætti og að sjálfsögðu er það svo að menn sitja ekki heilt sumar yfir samningu slíks nefndarálits nema þar sé alvara á bak við hvað menn meina.
    Ég hef verið gagnrýninn á það hvernig Seðlabankinn hefur framkvæmt 18. gr. seðlabankalaganna. Núv. fyrirmæli sem Seðlabankinn fær eru á þann veg, með leyfi forseta:
    ,,Ákvarðanir um gengi íslensku krónunnar skulu miðast við að halda sem stöðugustu gengi og ná jöfnuði í viðskiptum við útlönd en tryggja jafnframt rekstrargrundvöll útflutningsatvinnuvega og samkeppnisgreina.``
    Það gerist ærið oft að þessi markmið stangast á. Þannig er ástandið í dag. Stöðugleikanum er viðhaldið, viðskiptahallinn stefnir í 20 milljarða og rekstrargrundvöllur atvinnuveganna, aðalgreinanna í sjávarútveginum, er brostinn. Seðlabankinn fylgir sem sagt einu markmiðinu fast eftir, hin mega fara lönd og leið. Þetta vekur þá umhugsun þegar menn fá misjöfn fyrirmæli eins og maður sem stendur við stjórnvöl á skipi að hann skuli sigla ákveðinn veg en ekki sigla á neinn, þá er gert ráð fyrir þeim vitsmunum að menn breyti þá stefnunni frekar en til árekstrar komi. Sagan segir aftur á móti að Staðarhóls-Páll hafi viljað halda stefnunni forðum og það var orðað svo:
        Ýtar sigla austan sjó,
        unnar jónum káta.
        Skipið er nýtt og skerið er hró
        og skal því undan láta.
    Auðvitað var skerið gamalt. Það vissi Staðarhóls-Páll, en hitt reyndist aftur á móti staðreynd að það var sterkara en skipið. Og þeir sem nú tala hvað grimmast um að það þurfi að aga íslenskt atvinnulíf með því að víkja hvergi frá settu marki í gengisskráningu, um stöðugleikann, taka ákvörðun um það að virða að engu hin tvö fyrirmælin sem eru í 18. gr. Það er þess vegna ömurleg staðreynd að helstu úrræði íslenskrar þjóðar undir þessum kringumstæðum til þess að varðveita gjaldeyrisvarasjóð sinn er einfaldlega að taka erlent lán. Þegar hæstv. forsrh. gerir grín að kvennalistakonum fyrir þær hugmyndir að þær tali um að það eigi að taka erlent lán til þess að tryggja atvinnu gleymir hann því að það er alger einhugur á milli ríkisstjórnar Íslands og Seðlabankans um að taka almenn neyslulán til þess að hægt sé að viðhalda viðskiptahalla upp á 20 milljarða. Það er þess vegna veruleg hræsni í slíkum yfirlýsingum og mikil spurning hvort sá sem þær gefur frá sér hafi yfir höfuð skilning á efnahagsmálum.
    Nú er það svo að enn er farið hér af stað með nýjan texta og Seðlabankanum ætlað skv. 2. gr. hins nýja frv. verulegt hlutverk. Það er ekki í þessum texta sagt hverjar eigi

að vera leikreglurnar sem eigi að gilda þegar gengi krónunnar verður skráð í framtíðinni.
    Ég veit að þeir eru margir sem vildu gjarnan að við hefðum stöðugleika og auðvitað er gott að hafa stöðugleika. Það er jafnglæsilegt markmið hjá viðskrh. að hafa stöðugleika eins og hjá heilbrrh. ef hann vildi tryggja mönnum eilíft líf. Það færi ekki á milli mála að það væri göfugt markmið að setja slíkt inn og segja að þetta sé markmiðið þó að því miður sé ekki hægt að ná því. En spurningin er einfaldlega þessi: Hver er raunveruleikinn í þessum efnum?
    Það var farið til sögunnar. Við höfðum gullfót, Íslendingar, hún var gulltryggð, íslenska krónan. Það er ekki dónalegt að geta talað um gulltryggða krónu og ég man ekki betur en Nóbelsverðlaunaskáldið okkar hafi einu sinni notið þess á Ítalíu að krónan var gulltryggð og það voru gullkrónur sem honum bárust. En niðurstaðan varð sú að þessi mikla fastengisstefna sem viðhöfð var á fyrstu áratugum í sögu þessarar aldar leiddi m.a. til gjaldþrots Íslandsbanka. Það væri nú fróðlegt ef hæstv. viðskrh. tæki sig til og læsi afmælisrit Útvegsbankans sem dr. Ólafur Björnsson samdi á sínum tíma þar sem það kemur fram hvers vegna Póstmeistarasjóðurinn danski sem átti að fá sitt fé greitt í dönskum krónum stóð svo vel að vígi í þessari stöðu en hinir sem þurftu að greiða voru í vonlausri aðstöðu, einfaldlega vegna þess að gengisskráningin var orðin snarvitlaus í reynd. Ég held nefnilega að til þess séu vítin að varast þau og ef menn vilja ekki aftur gera íslenskt atvinnulíf og fyrirtæki að tilraunadýrum hlýtur það að vera spurning hvort við ætlum aftur að sigla inn í það ástand að hér skuli fastgengisstefna viðhöfð, hvort sem það leiðir til hruns atvinnuveganna eða hruns bankakerfisins. Þess vegna vekur það undrun mína að í 2. málsl. 2. gr. frv., sem er breyting við 18. gr. laganna, skuli lagt til að Seðlabanka Íslands verði veitt heimild til að ákveða að gengi krónunnar miðist við einn erlendan gjaldmiðil, samsettan gjaldmiðil, eins og ECU eða SDR. Það er að vísu talað um með eða án fráviksmarka. Það væri náðugt líf hjá seðlabankastjórum okkar ef þeir þyrftu að mæta á einn fund í ársbyrjun og tilkynna það að þeir hefðu ákveðið að það skuli bundið fast og svo gæti liðið allt yfirgefið bankann þess vegna. Þeir þyrftu ekki að mæta fyrr en í byrjun næsta árs. Nú eiga þeir eftir áratug. Það væri alveg eins eftir því hvað samþykktin væri langt fram í tímann. Halda menn að nokkurs staðar í veröldinni sé ætlunin að þannig sé staðið að málum?
    Auðvitað veit hæstv. viðskrh. að ef efnahagslíf Íslands er í lagi breytist ekki gengi krónunnar, þá helst það. Það þarf enga samþykkt. En það er enn þá verið að leika sér að því að annars vegar eigi að vera hægt að ráða gengi krónunnar með einhverjum ákvörðunum og samþykktum og hins vegar eigi gengi krónunnar að lúta efnahagslögmálum. Um þetta tvennt getur aldrei orðið eining. Annað er rétt, hitt er vitlaust. Svo einfalt er það mál. Það er ekki bæði hægt að skrá sjúklinginn lifandi og dauðan. Annaðhvort er hann lífs eða liðinn og það er makalaus þráhyggja að vilja halda því fram að það sé samræmi í því að biðja um slíka heimild og biðja um það að standa eigi að málum á þann veg að nú eigi markaðurinn að fara að hafa meiri áhrif á gengi krónunnar. Auðvitað er ekkert um annað ræða en það að verðgildi íslenskrar krónu verður að fara eftir því hver verðmætasköpunin er í samfélaginu. Allt annað er draumsýn, allt annað er rugl. Það gengur einfaldlega ekki upp að segja: Við ætlum að aga íslenskt atvinnulíf, festa gengi krónunnar við einhverja gjaldmiðla sem við höfum mikið ástfóstur á og segja: Gott og vel, þetta skal blífa. Það verður þá bara að hausa liðið eins og það leggur sig, þetta forstjóralið í landinu sem stýrir fyrirtækjunum. Einfalt mál. Aga liðið. ( Gripið fram í: Hvað gerðu Finnar?) Hér er spurt utan úr salnum við mikla eftirtekt formanns þingflokks Alþfl.: Hvað gerðu Finnar? ( Gripið fram í: Drífðu þig frá gagnfræðaskólastiginu.) Ég veit nú ekki, herra forseti, hvort þessi umræða um gagnfræðaskólastigið er á dagskrá, ég hef ekki hafið þá umræðu eða þá

skilgreiningu en það væri hægt að taka þá umræðu upp og þá ekki við bjölluhljóm. En Finnar settu gengið fast og þeir forðuðu sér á handahlaupum frá þeirri hringavitleysu alveg eins og þegar þeir hafna inni í gufubaði og hitinn er orðinn slíkur að þar er ekki líft. Þá leggja menn á flótta þar út í skaflana, kviknaktir. Þeir játuðu mistök sín og björguðu sér. Og ég vil nú eindregið að hæstv. viðskrh. --- því að ég skil ekki annað en hann telji að markaðurinn eigi að ráða og það sé það sem hann vilji nú viðurkenna í fræðikenningunni --- taki þessa heimild út vegna þess að hún þarf ekki að vera inni ef markaðurinn ræður og ástandið í efnahagsmálunum er það gott að gengi krónunnar haldi velli. Ekki væri það nú alvarlegt eða slæmt ef hér væri vel stjórnað að okkar gjaldmiðill tæki bara upp á því eins og í Þýskalandi og Japan að fara að styrkjast og fara upp á við. Nei, menn verða að gera það upp við sig í þessum efnum hver stefnan er.
    Það þýðir ekki að afla heimilda í sömu lagagreininni til að fara bæði til hægri og vinstri og mæta svo Jóni Jónssyni á göngunum og segjast ætla að fara til hægri, en Pétri Péturssyni þegar komið er inn í forstofuna og segjast ætla að fara til vinstri. Það er ekkert traust á slíkri stefnumörkun. Það verður að vera vitað hvorn kostinn menn ætla að taka. Þess vegna vil ég hvetja hæstv. viðskrh. til þess að afhenda þeirri nefnd sem fær frv. til meðferðar hinar hugsuðu leikreglur sem eru á bak við fyrstu setninguna. Hvernig hugsar Seðlabankinn sér að verðgildi íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum skuli ákveðið? Afhenda leikreglurnar. Auðvitað mundi þetta kalla á það að menn þyrftu að fara að hugsa niðri í Seðlabanka og taka um það ákvörðun hvað þeir væru að biðja um. Þeir yrðu að koma með það alveg skýrt hvað þeir væru að biðja um. Eru þeir að biðja um það að þeir samþykktu ákveðið hlaup á íslensku krónuna sem leitað yrði samþykkis ríkisstjórnar fyrir og svo mundi markaðurinn algerlega ráða því hvort þar yrði verðgildið í miðjunni á því hlaupi, í toppnum eða neðst? Ef þeir ekki treystu sér til að verja þá stöðu sem þeir hefðu lagt til mundu þeir koma með nýja tillögu. Ef það er þetta sem verið er að biðja um, þá erum við að færa okkur í áttina til markaðsins og markaðurinn ákveði þetta.
    Auðvitað get ég tekið undir það með hæstv. viðskrh. að það vilja allir að hér ríki stöðugleiki. Hver vill ekki að gott ástand sé í efnahagsmálum sinnar þjóðar? Hver vill það ekki? Auðvitað vilja það allir. Auðvitað viljum við líka að þannig sé staðið að málum að það sé einhver sveiflujöfnunarsjóður sem taki þátt í því að koma í veg fyrir að gengi krónunnar sveiflist frá degi til dags til skiptis mjög miklum sveiflum þannig að gjaldeyrisseljandinn sem þarf að selja sinn gjaldeyri í dag geti átt von á því að það séu stórkostleg mistök að hafa ekki beðið til morguns. Auðvitað viljum við að þetta gerist með einhverri sveiflujöfnun. En ef Seðlabankinn á aftur á móti að hafa ótakmarkaðar heimildir til þess að taka erlend lán, til þess að pína þá sem eru að afhenda gjaldeyri sinn til að afhenda hann á lægra verði en það kostar að framleiða gjaldeyrinn, þá erum við ekki að vinna fyrir þjóðarhag.
    Ég er sannfærður um það að sá reginmunur sem er í dag á efnahagsstjórn Þýskalands og Japans, þar sem seðlabankar þessara landa hafa lagt á það höfuðkapp að koma í veg fyrir það að gjaldmiðlarnir séu ekki of hátt skráðir og að þeir hafi sölumöguleika fyrir útflutningsgreinar sínar, þessi stefna ein er sú stefna sem í reynd styrkir gjaldmiðil þjóðar. Engin stefna er líklegri til þess að valda hruni á gjaldmiðli hjá nokkurri þjóð en að skrá gengi hennar of hátt. Það er vísasti vegurinn niður á við. Og það vil ég að hæstv. viðskrh. viti að ég er stuðningsmaður þess að hér verði tekin upp sú stefna að gjaldmiðill íslensku þjóðarinnar sé ákvarðaður með sama hætti og gjaldmiðill þeirra þjóða þar sem markaðurinn ræður verðinu og þar sem á bak við hann er framleiðslugeta þjóðarinnar.
    Við getum deilt um marga hluti, á hvaða sviðum menn segja að markaður, lögmál framboðs og eftirspurnar gildi og á hvaða sviðum ekki. Það er hægt að deila um það fram

og til baka. Það er hægt að veita einhverjar heimildir til þess að hafa þar áhrif en þegar verið er að takast á um það grundvallaratriði hvort við ætlum að verja efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar eða ekki þá verður það ekki varið nema menn hafi vit á því að raungengi íslensku krónunnar sé skráð lágt. Það er ekki hægt að verja það öðruvísi. Ef við skráum raungengi krónunnar lágt þá mun það verða til þess í framtíðinni að krónan mun styrkjast því þá munu útflutningsatvinnuvegirnir halda velli og þá mun samkeppnisiðnaðurinn íslenski halda velli og þá munu menn styrkja íslenskan iðnað þegar þeir fara og versla vegna þess að það er hagkvæmt að kaupa íslenskar vörur. Þetta er grundvallaratriðið til þess að um efnahagslegt sjálfstæði þessarar þjóðar verði að ræða í framtíðinni.
    Ég vil þess vegna skora á hæstv. viðskrh. að beita sér fyrir því að draumsýnin um fasta gengið fari hér út, veruleikinn einn verði hafður í þessari grein og að menn geri sér grein fyrir því að við höfum ekki efni á neinum leikaraskap, neinni tilraunastarfsemi manna sem við höfum falið mikil völd, engri tilraunastarfsemi eins og gerð var í upphafi þessarar aldar þegar menn ætluðu að setja hlutina hér fasta og settu á sínum tíma Íslandsbanka á höfuðið og stóðu að stórgjaldþrotum sem hér voru um svipað leyti.