Ummæli forsætisráðherra í fjölmiðlum um starfshætti á Alþingi

37. fundur
Fimmtudaginn 28. nóvember 1991, kl. 16:23:00 (1399)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
     Ég þakka hv. 4. þm. Norðurl. e. fyrir þetta plagg. Þannig er nú aðstaða forseta að hún hefur hvorki haft tækifæri til að hlusta á morgunfréttir, hádegisfréttir, eftirmiðdagsfréttir eða neitt þar á milli eða kvöldfréttir undanfarna daga svo það eru nýmæli fyrir hana að geta lesið fréttirnar af blaði. Forseti hefur reynt að leggja sig fram um að setja sig ekki í dómarasæti hér á forsetastóli og vill skilja það svo að hv. 4. þm. Norðurl. e. hafi áhuga á að eiga orðastað við þann sem mælti þessi orð sem hann var að skýra hér frá.
    Ég vil hins vegar taka það skýrt fram að það er ekki vegna þess að hæstv. forsrh. hafi ekki haft hug á að koma hér á fund í dag eða ekki viljað koma hér á fundinn, hann fékk þessi skilaboð en eins og ég var búin að skýra frá var hann upptekinn á lokuðum fundi þegar ég hafði síðast samband og gat þess vegna ekki komið. En eins og ég skýrði jafnframt frá er ég tilbúin að kalla eftir honum núna ef menn vilja fresta fundi og bíða eftir því. Annars verður það tækifæri að koma síðar. Og forseta sýnist að hv. 4. þm. Norðurl. e. sé sammála um það. Þá er þetta væntanlega fullnægjandi svar við þessum tilmælum hv. þm.