Ummæli forsætisráðherra í fjölmiðlum um starfshætti á Alþingi

37. fundur
Fimmtudaginn 28. nóvember 1991, kl. 16:28:00 (1402)

     Kristinn H. Gunnarsson :
     Virðulegi forseti. Ég fagna því að vilji manna stendur til þess að ræða við hæstv. forsrh. um framkomu hans gagnvart þinginu. Ég vil bæta við þau tilefni, sem hér hafa verið gefin upp fyrir þessari ósk, þeim ummælum hæstv. forsrh. í garð okkar þingmanna sem tókum þátt í umræðunni um byggðamál. Þar lét hæstv. ráðherra þau orð falla að hann hefði í upphafi umræðu, sem hefði staðið í þrjá sólarhringa, sagði hann reyndar, haft fyrir framan sig minnisblað og ætlað að skrifa niður allar þær hugmyndir og tillögur sem ræðumenn kæmu fram með í byggðamálum. Hann lét svo um mælt í fyrrakvöld að blað hans væri enn autt. Með öðrum orðum að þingmenn, sem hefðu tekið þátt í þessari umræðu, sem voru fjölmargir úr öllum flokkum, höfðu að hans mati ekkert til málanna lagt, engar tillögur og engar hugmyndir. Þetta eru mjög alvarleg ummæli í garð þingmanna og ég fer fram á það, virðulegur forseti, að þetta tilefni verði líka til umræðu.