Ummæli forsætisráðherra í fjölmiðlum um starfshætti á Alþingi

38. fundur
Föstudaginn 29. nóvember 1991, kl. 10:41:00 (1406)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna ýmissa ummæla sem forsrh. hefur á síðasta sólarhringnum rúmum látið falla í fjölmiðlum og utan þings um Alþingi og störfin hér, um fyrrv. ráðherra og jafnvel um nafngreinda þingmenn. Í stuttu máli má segja að ummæli forsrh. hafi falið í sér eftirfarandi:
    Forsrh. segir að á Alþingi ríki afskaplega mikið klúbbástand. Forsrh. segir ábyrgðarkennd dálítið öðruvísi og minni en í borgarstjórn. Forsrh. segir ástandið á Alþingi líkjast fundi í gagnfræðaskóla eða slíku. Forsrh. telur vanta upp á markvissa vinnu á Alþingi. Forsrh. segir í Morgunblaðinu í dag að vinnubrögð á Alþingi séu allt önnur og lakari en í borgarstjórn. Forsrh. segir á sama stað að á Alþingi sé mikið um alls konar uppákomur með hálfgerðum gagnfræðaskólabrag. Forsrh. segir: ,,Maður ber nú ekki mikla virðingu fyrir svona vinnubrögðum og sumir þingmenn hafa vakið sérstaka athygli mína.``
    Um ráðherra og fyrri ríkisstjórn segir hæstv. forsrh.: ,,Það eru þar nokkrir ráðherrar úr fyrri stjórn sem eru með svona fráhvarfseinkenni`` og síðar að ,,þeir`` þ.e. fráfarandi ráðherrar ,,geta ekki alveg tekið þátt í venjubundnum störfum.``
    Árásir forsrh. á einstaka þingmenn rek ég ekki hér. Það munu þeir væntanlega gera sjálfir, t.d. hv. 5. þm. Reykv. og hv. 8. þm. Reykn. En ég vil leggja eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. forsrh.:
    1. Lýsa þessi ummæli sem hæstv. forsrh. hefur viðhaft utan þings raunverulegum

viðhorfum hans til Alþingis Íslendinga?
    2. Er hæstv. forsrh. reiðubúinn til að staðfesta eða endurtaka þessi ummæli hér innan veggja Alþingis eða vill hann draga þau til baka og ef svo er, mun hann þá biðjast velvirðingar á þeim?
    3. Telur hæstv. forsrh., sem setið hefur á Alþingi samtals í liðlega 10 vikur, sem aldrei hefur verið óbreyttur þingmaður, sem aldrei hefur starfað í þingnefnd, sig hafa næga reynslu til að kveða upp dóma um störf þingsins?
    4. Hyggst hæstv. forsrh. rökstyðja þau ummæli sín að fráfarandi ráðherrar geti ekki sinnt störfum sínum með eðlilegum hætti sökum fráhvarfseinkenna eða vill hann draga þau til baka, og ef svo mun hann þá biðjast velvirðingar á þeim?
    Og hæstv. forseti. Ég mun afhenda hæstv. forsrh. spurningar þessar til að auðvelda honum greið svör.