Ummæli forsætisráðherra í fjölmiðlum um starfshætti á Alþingi

38. fundur
Föstudaginn 29. nóvember 1991, kl. 10:47:00 (1409)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
     Virðulegi forseti. Það hlýtur hver að tala út frá sínum reynsluheimi og nú höfum við fengið innsýn í reynsluheim hæstv. forsrh. En það líkingamál sem hann kýs að nota eru klúbbar, gagnfræðaskólar og fráhvarfseinkenni. Hann biður okkur að fá að tala svona í nafni málfrelsis. Auðvitað. Við höfum ekki kvartað undan því að hæstv. forsrh. talaði of mikið. Stundum höfum við meira að segja kvartað undan því að hann talaði of lítið og svaraði ekki þeim spurningum sem fyrir hann eru lagðar. Ég ætla ekki að misbjóða hv. Alþingi með því að segja hvað slíkt væri kallað í gagnfræðaskóla, svo og það að vera ekki á staðnum þegar ætlast er til.
    En þetta snýst einmitt um málfrelsi, einnig okkar sem erum í stjórnarandstöðu og kannski er það þar sem hnífurinn stendur í kúnni. Málfrelsi okkar er m.a. það að taka brýn mál upp í utandagskrárumræðu og málfrelsi okkar er einnig að ræða þingsköp sé ástæða til þess. Auk þess er það okkar málfrelsi líka að fá að segja okkar meiningu en það verður að gerast hér á Alþingi um þingstörfin og til þess eru þessar umræður. Okkur þykir því skjóta skökku við að þurfa að hlusta á útvarp til þess að fá að heyra skoðanir hæstv. forsrh. því ekki heyrast þær alltaf svo gjörla á Alþingi þótt undantekningar séu til og kalla raunar oft á hörð viðbrögð þegar svo er. Það er ekki hægt að ætlast til þess að þingheimur sitji hér með vasadiskó með útvarpi og hlusti á hæstv. forsrh. En því miður, ef framhald verður á því hvernig hæstv. forsrh. ætlar að tjá sig, þá sýnist mér að sú muni verða raunin.