Ummæli forsætisráðherra í fjölmiðlum um starfshætti á Alþingi

38. fundur
Föstudaginn 29. nóvember 1991, kl. 10:55:00 (1412)

     Geir H. Haarde :
     Virðulegi forseti. Það er stundum sagt að sannleikanum verði hver sárreiðastur. Ég hygg að forsrh., sem er hér nýr þingmaður eins og fram hefur komið, hafi verið í fullum rétti að túlka sín viðhorf til þingstarfanna á þessu hausti. Og ég hygg að þegar grannt er skoðað, þá þurfi engum að koma á óvart að hann skuli hafa talað eins og hann hefur gert.

Ég tel að ef þingmenn stjórnarandstöðunnar skoða nú sinn hug, þá séu þeir að blekkja sjálfa sig ef þeir gera sér ekki grein fyrir því að þingskapaumræða hefur á tíðum hér í haust verið misnotuð og að umræður um einstök önnur mál hafi jafnframt líka verið misnotaðar. Ég hygg að forsrh. eins og aðrir þingmenn eða ráðherrar sé í fullum rétti að segja það sem honum finnst um þessi mál. (Gripið fram í.) Ég hygg að ef hv. 4. þm. Norðurl. e. skoðar nú vel sinn hug og kannar ummæli hér á þinginu í haust, þá verði hann ekki í vandræðum með að finna dæmi þessa.
    Málið er það að hér hefur með mörgum hætti verið óeðlilegt ástand í haust. Stjórnarandstaðan kennir því um, m.a. hv. 4 þm. Norðurl. e. í útvarpinu í morgun, að það sé vegna þess að stjórnarandstaðan sem er hér í minni hluta fékk ekki meiri hluta í forsætisnefndinni. Það getur auðvitað hver dæmt fyrir sig hvaða málefnalegur bakhjarl er hér að baki.
    Ég vil svo taka það fram vegna ummæla hv. þm. Önnu Ólafsdóttur Björnsson að það hafa fáir ráðherrar setið jafndyggilega á þessu hausti og hæstv. forsrh. Það vita allir að það geta verið einstakir dagar eða tímar þegar ráðherrar geta ekki verið við. Þannig var það í gær. Það voru engin mál sérstök sem heyrðu undir forsrh. á dagskrá og ekki gert ráð fyrir neinum atkvæðagreiðslum þannig að hann var að gegna sínum störfum á öðrum vettvangi. Ég harma það síðan og það staðfestir kannski það sem hér hefur komið fram, m.a. hjá forsrh., ef stjórnarandstöðuþingmenn ætla nú að neita að taka þátt í nefndastörfum á Alþingi vegna þessara ummæla. Það er kannski ekki til betri staðfesting á þessu heldur en fram kom úr reynsluheimi hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar.