Ummæli forsætisráðherra í fjölmiðlum um starfshætti á Alþingi

38. fundur
Föstudaginn 29. nóvember 1991, kl. 11:01:00 (1414)


     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
     Virðulegi forseti. Ég held að að sumu leyti sé þetta þörf umræða en skylt er auðvitað að geta þess að það eru ekki allir þingmenn stjórnarandstöðunnar undir sömu sök seldir í þessu máli. Umræðan hér á haustþinginu hefur verið óvenjuleg og hún hefur verið furðuleg og hún hefur auðvitað einkennst af því að ýmsir leiðtogar og þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa talið sér skylt að tala um þingsköp í tíma og ótíma. Og ég spyr og ég held að það séu margir, margir í þjóðfélaginu sem spyrja: Voru þessir þingmenn kosnir á þing beinlínis til þess að þvælast fyrir gangi þingstarfa, koma í veg fyrir að þingið starfaði með eðlilegum hætti með eilífum umræðum utan dagskrár og um þingsköp, umræðum sem ekki hafa verið um þingsköp í eiginlegri merkingu þess orðs.
    Við sátum hér, við hv. þm. Svavar Gestsson sem þingfréttaritarar Þjóðvilja og Alþýðublaðs á sínum tíma og ég hygg að við séum örugglega sammála um að margt hefur breyst á þeim árum sem eru kannski orðin nokkuð mörg. Hér halda menn langar ræður og telja á rétt sinn gengið, mjög langar ræður ef gerðar eru athugasemdir við það, en í rauninni eru þeir menn sem halda lengstu ræðurnar að ganga á rétt sinna félaga og samstarfsmanna í þinginu.
    Ég kemst ekki hjá því, virðulegi forseti, að mótmæla mjög harðlega þeim orðum sem hv. 9. þm. Reykv. Svavar Gestsson viðhafði hér áðan um utanrrh. Hann sagði orðrétt: ,,Utanrrh. hefur verið staðinn að ósannindum.`` Þetta er alrangt og ég leyfi mér að efast um að hv. þm. hefði látið sér þessi orð um munn fara ef hæstv. utanrrh. hefði verið staddur hér í salnum, ég leyfi mér að efast um það. Hv. þm. fann orðum sínum engan stað, ókyrrist nú og vildi kalla fram í. ( SvG: Þetta eru ómerkilegar ... eins og hv. þm. hefur haldið fram.) Ég vísa því til forseta hvort þetta sé þingleg athugasemd hjá formanninum og ég vek athygli á því líka að orðanotkun, orðaforði og kannski ég segi orðbragð sem þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa notað hér t.d. í þessum umræðum er ekki eins og áður var hér á Alþingi.