Ummæli forsætisráðherra í fjölmiðlum um starfshætti á Alþingi

38. fundur
Föstudaginn 29. nóvember 1991, kl. 11:04:00 (1415)

     Jón Helgason :
     Hæstv. forseti. Ég held að ég geti fullyrt að þetta eru þeir döprustu dagar sem ég hef átt á Alþingi þau 17 ár sem ég hef hér setið og ég sé satt að segja ekki hvernig við komumst út úr þeirri stöðu sem við stöndum nú í. Það hefur gerst að hæstv. forsrh. hefur ráðist að Alþingi og reynt að gera sem minnst úr störfum þess. Því miður hefur ekkert heyrst frá forsætisnefnd þingsins um það hvert hennar álit er á þessum störfum. Ég get ekki annað en látið í ljós vonbrigði mín með það um leið og ég hlýt að skora á hana að reyna að ná hér annarri skipan mála á.
    Hæstv. forsrh. hefur sagt: Ég get gert það sem ég vil og geri það. Og það virðist að fylgismenn hans hér á Alþingi hafi tekið það þannig að þeir þurfi svo sjálfir ekkert að gera. Ég hef setið nefndarfundi í allshn. Alþingis þegar þeir hafa verið boðaðir og að undanförnu hefur komið þar formaður til þess að geta haldið uppi fundum og stjórnarandstæðingar. Það var aðeins einn stjórnarliði á nefndarfundi í morgun, annað voru stjórnarandstæðingar. Það er auðvitað eðlilegt að stjórnarliðum finnist þeir ekki þurfa að vinna þegar það er forsrh. sem ætlar sér að gera allt. En hvernig er komið í okkar þingræðislandi þegar þannig er á málum haldið?
    Ég hef einu sinni áður a.m.k. kvatt mér hljóðs um þingsköp hér á Alþingi. Það var rétt í upphafi þings. Þá lét ég í ljós undrun mína á því að stjórnarþingmaður óskaði eftir umræðu utan dagskrár um fjárlög áður en fjmrh. hafði mælt fyrir frv. og að fjmrh. fjarstöddum. Þetta eru alveg furðuleg vinnubrögð en það voru ekki tafir stjórnarandstæðinga á þingstörfum sem þarna var um að ræða.