Ummæli forsætisráðherra í fjölmiðlum um starfshætti á Alþingi

38. fundur
Föstudaginn 29. nóvember 1991, kl. 11:06:00 (1416)

     Ingi Björn Albertsson :
     Hæstv. forseti. Enginn einn maður hefur tafið þingstörf jafnmikið og hæstv. forsrh. hefur gert þessa viku sem nú er að líða með ótímabærum, óviðeigandi, ódrengilegum og upp að vissu marki ósönnum ummælum í viðtölum við fjölmiðla. Enginn einn maður. Tilefni þessarar umræðu í dag er viðtal sem var við hæstv. ráðherra á Rás 2 í gær. Það viðtal er yfirfullt af því sem ég var hér að lýsa. Því miður leyfir tíminn ekki að ég fari í það. Þetta blað er allt útstrikað af rangfærslum og ódrengilegum ummælum.
    Ég ætla hins vegar aðeins að segja um þetta það sem stendur á hornsteini Alþingishússins og ég mun afhenda forsrh. það hér á eftir. Þar stendur: ,,Sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.`` Þetta mun ég afhenda hæstv. forsrh. hér á eftir.
    En forsrh. heldur áfram dag eftir dag eftir dag og í Morgunblaðinu í dag lætur hann enn hafa við sig viðtal. Með leyfi forseta ætla ég að fá að lesa upp úr því. Þar er spurt: ,,Hvað um þau átök sem átt hafa sér stað á milli þín og Inga Björns Albertssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins? Var þetta ekki ágreiningur sem hefði átt að fjalla um í þingflokknum og mun þessi deila ykkar hafa einhver eftirmál í för með sér?`` Svar forsrh.: ,,Ingi Björn er bara einn af þeim sem hefur misnotað þingsköp. Í tvígang fór hann tvisvar upp undir heitinu þingsköp og notaði tímann svo til þess að ráðast persónulega á mig, en hann átti að fjalla um fundarsköp Alþingis og meðferð þeirra.``
    Þessi ummæli eru náttúrlega alveg makalaus. Er hæstv. ráðherra búinn að gleyma tilefni og orsakavaldi þeirrar þingskapaumræðu sem hér fór fram? Tilefnið var það að hæstv. ráðherra ætlaði að meina þingmanni að notfæra sér rétt sinn samkvæmt þingskapalögum. Það var tilefnið og það fór í taugarnar á honum, það kallaði á þessa þingskapaumræðu. Í tilefni af því ætla ég að halda áfram að færa ráðherranum gjafir. Ég ætla að gefa honum þingsköpin vegna þess að mér þykir alveg ljóst að hann hefur ekki lesið þau og hann kann þau ekki nógu vel til að tjá sig um þau.
    Hæstv. forseti. Það er meira í þessu viðtali í dag sem kannski skýrir tilgang þeirrar árásar sem ég hef orðið fyrir að undanförnu af hendi hæstv. forsrh. en það er mál sem ég á að taka upp inni í þingflokknum þótt ráðherrann geri sér ekki grein fyrir því.