Ummæli forsætisráðherra í fjölmiðlum um starfshætti á Alþingi

38. fundur
Föstudaginn 29. nóvember 1991, kl. 11:12:00 (1418)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Þegar hæstv. forsrh. kom hér til þings í vor var honum vel tekið. Mér er kunnugt um það að allir þeir þingmenn sem ég ræddi við voru reiðubúnir að eiga góða samvinnu af heilum hug og drengskap við hinn nýja þingmann og hinn nýja forsrh.
    Nú hefur það hins vegar gerst á síðustu vikum að hæstv. forsrh. hefur kosið þann sið að svara engu hér í þingsalnum þegar hann er spurður en fara síðan í öflugustu fjölmiðla landsins og ráðast þar á þingið sjálft, á einstaka þingmenn, á samflokksmenn sína úr Sjálfstfl. og fjölmarga aðra. Hér í dag hélt hæstv. forsrh. áfram þessum sið. Hann var beðinn að svara fjórum spurningum, einföldum. Hann svaraði engri og sagði strax í upphafi: Ég ætla ekki að svara neinu. Kaus í staðinn að fara með nýjar árásir og furðulegan talnaleik sem ekkert í felst nema blekkingar því að skýringin á mörgum þingskapa- og utandagskrárumræðum hér í vetur er einfaldlega sú að ágreiningurinn í Sjálfstfl. og ágreiningurinn í stjórnarliðinu hefur framkallað þessar umræður.
    Þegar hv. þm. Ingi Björn Albertsson óskaði eftir svari sagði hæstv. forsrh.: Ég kýs að svara ekki, og þingið var í upplausn í röska klukkustund vegna þess, en hann var knúinn til að svara.
    Þegar hv. þm. Halldór Ásgrímsson bað um svar við einföldum spurningum um efnahagsmál svaraði hæstv. forsrh. engu en réðst með ómerkilegum hætti að fráfarandi forsrh. Það er ein meginskýringin á þeim vanda sem hér er upp kominn að hinn nýi og ungi forsrh. Íslands kýs ekki að ræða við Alþingi. Hann kýs frekar að nota Bylgjuna, Rás 2, Stöð 2 og Morgunblaðið til þess að ráðast á einstaka þingmenn og þjóðþingið.
    Hér er því miður allt í upplausn þegar að þjóðinni steðjar mikill vandi. Ég vona að virðulegur forsrh. endurskoði sinn hug og endurskoði sín vinnubrögð því að þetta eru ekki gæfuspor fyrir íslenska þjóð.