Ummæli forsætisráðherra í fjölmiðlum um starfshætti á Alþingi

38. fundur
Föstudaginn 29. nóvember 1991, kl. 11:21:00 (1421)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
     Virðulegi forseti. Mér finnst sérkennilegt að tilteknir þingmennn sem verða fyrir því að fundið er að vinnubrögðum þeirra skuli telja að það sé árás á Alþingi. Það er of mikið sagt um stöðu þessara hv. þm. þó að þeir séu virðulegir í hvívetna en það var einmitt það sem hv. 2. þm. Suðurl. gerði. Hann taldi að af því að ég fann að vinnubrögðum tiltekinna þingmanna, þá væri það árás á Alþingi í heild. Það er það auðvitað ekki.
    Málshefjandi taldi að ég hefði ekki svarað spurningum hans. Ég gerði það ekki í hinni talnalegu röð. En ég býst við því að ef hann af sanngirni ber saman svar mitt þegar það liggur fyrir skrifað við spurningar sínar, þá sér hann að efnislega hefur þeim öllum verið svarað.
    Ég vona og ég reyndar tel að þessi umræða, tilurð hennar og hún sjálf hafi staðfest, því miður, allt það sem ég hef fundið að störfum þingsins hér í haust. Og ég vona það og vænti þess og trúi því að þessu hljóti fljótlega að linna.
    Formaður Alþb., hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, fann að því að ég væri mikið í fjölmiðlum. Mönnum fannst það að vonum hér í umræðunni koma úr hörðustu átt. En það var einmitt þessi þingmaður sem hélt blaðamannafund á fyrsta virkum degi eftir hið hörmulega slys til að sýna fram á það og sanna að hann hefði ákveðið að láta kaupa þyrlur og aðrir drepið því máli á dreif. Menn vita um sannleikann í því máli. Og menn vita þess vegna hversu viðeigandi gagnrýni formanns Alþb. er að þessu leyti til.